Samskipti starfsfólks og unglinga innan félagsmiðstöðva

Unglingsárin er sá tími þar sem margar breytingar eiga sér stað, bæði líkamlega og andlega. Líkami unglinga þroskast, útlit þeirra breytist og nýjar og stórar tilfinningar kvikna, sem þau oft á tíðum ráða ekki við. Unglingar geta því verið viðkvæmir og tilfinningaríkir. Unglingsárin eru einnig tíminn þar sem unglingar eru að finna sjálfan sig, móta sjálfsmynd sína, skoðanir og viðhorf. Mikilvægt getur því verið fyrir unglinga að hafa góðan stuðning til að leita til og hafi góðar fyrirmyndir.

Tómstundir af einhverri sort eru mikilvægar fyrir unglinga, sama hvaða tilgangi þær gegna. Starfsemi tómstunda skiptir miklu máli og ekki síður starfsmenn hennar. Félagsmiðstöð er vettvangur fyrir unglinga til að koma saman og eiga í félagslegum samskiptum. Mikilvægt er því að þeim líði vel þar. Þar kemur hlutverk starfsfólks sterkt inn enda hafa rannsóknir sýnt að starfsfólk félagsmiðstöva hefur mikið að segja um viðhorf unglinga gagnvart félagsmiðstöðvum. Starf tómstundastarfsmanna í félagsmiðstöðvum getur verið gríðarlega mikilvægt. Þar sem mikið er talað um að starfsmenn innan félagsmiðstöðva nái oft mjög góðum samböndum við unglinga og öðruvísi tengslum heldur en foreldrar. Það er því mikilvægt að þeir viti hvað þau geta gert til að efla sjálfstraust og sjálfsmynd og hjálpað þeim að finna sig sem einstakling. Starfsmenn félagsmiðstöðvanna búa til það andrúmsloft sem ríkir í félagsmiðstöðinni þeirra og eiga að skapa stemmingu þar sem allir eru velkomnir.

Inni á félagsmiðstöðvum læra unglingar að koma vel fram við aðra, jákvæð samskipti og félagsfærni. Starfsmenn gegna lykilhlutverki þegar kemur að félagsmiðstöðvum þar sem þeir skipuleggja starfsemi fyrir unglingana og geta því haft áhrif á mætingu og þátttöku þeirra. Mikilvægt er því að starfsmenn hafi réttu verkfærin og hæfnina til að hjálpa unglingum út frá þörfum og áhugamálum hvers og eins. Unglingar eiga það til að miða sig við aðra í kringum sig og halda oft uppá starfsfólk innan félagsmiðstöðva. Þeir læra mikið af þeim og líta oft á þau sem fyrirmyndir og er því mikilvægt að þar séu góðar fyrirmyndir sem þeir leita til. Unglingar bera oft mikið traust til starfsfólks og ef unglingar eiga við eitthvað vandamál að stríða eru starfsmenn oft með þeim fyrstu sem þeir segja frá eða leita til.

Ég tók ekki mikinn þátt í tómstundum á mínum unglingsárum, sem ég sé mikið eftir í dag. En ég mætti nokkrum sinnum á opið hús hjá félagsmiðstöðinni minni sem voru nokkur virk kvöld á viku. Ef ég hugsa út frá minni reynslu eða mínu sjónarhorni hefði ég þurft einhvern sem hefði hjálpað mér að komast út úr skelinni þar sem ég var rosalega feimin og ýtt á mig til að mæta oftar. Ef starfsfólk í félagsmiðstöðvum nær að fylgjast með flestum unglingunum sem taka þátt í félagsstarfinu og sjá hvað þá vantar og geta hjálpað þeim er það frábært. Eftir að hafa fræðst um tómstundastarf og hvernig starfsemin fer fram sé ég hvað starfsmenn innan félagasmiðstöðva og annarra tómstunda fyrir unglinga eru gríðarlega mikilvægir. Þar sem þeir geta gegnt hlutverki ráðgjafa, vina, leiðbeinanda og fyrirmynda svo eitthvað sé nefnt, geta þeir skipt miklu máli í lífi unglinga. Þeir geta gert svo margt gott fyrir unglinga og hjálpað þeim að verða besta útgáfan af sjálfum sér.

Rakel Ingólfsdóttir