Unglingar: Inni eða úti?

„Þegar ég var unglingur hittumst við vinirnir úti, fórum í leiki og skemmtum okkur konunglega. Nú orðið er enga unglinga að sjá utandyra heldur hanga allir inni í tölvunni!“ Svipaða frasa fékk ég oft að heyra sem unglingur frá fullorðnu fólki þegar nostalgían hellist yfir og þeir fullorðnu fussa og sveia yfir unglingum nútímans. Og jú, fullorðna fólkið hefur eitthvað til síns máls þar sem tímarnir breytast og mennirnir með en er það svo slæmt? Vissulega fleygir tækninni fram og tölvur og símar bjóða upp á endalausa afþreyingu svo ég tali nú ekki um samfélagsmiðlana sem gerir fólki kleyft að eiga í samskiptum án þess að vera í sama rými. Það er því varla undarlegt að unga fólkið nýti þessa tækni og samskipti og hegðun þeirra breytist í kjölfarið.

Unglingar í dag hafa tilhneigingu til þess að eyða stærstum hluta frítímans innandyra með símann í annari hendi og þurfa ekki lengur að hittast öll úti á fótboltavelli til að spjalla saman heldur er nóg að eiga aðgang að instagram, snapchat og facebook þar sem þú getur nálgast vini þína óháð því hvar þið eruð staðsett á jörðinni. Nú sýna margar rannsóknir fram á neikvæð áhrif þess að eyða of miklum tíma fyrir framan skjáinn og á samfélagsmiðlum. Hinsvegar hafa rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif útiveru á sál og líkama. Þetta er því umhugsunarefni og vert að skoða hvað það er sem gæti dregið unglingana okkar út í frítímanum.

Sjálf var ég í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum á unglingastigi grunnskóla og þar er áherslan aðeins önnur en gengur og gerist í skólum sveitarfélaganna. Þar er mikið lagt upp úr útiveru og kennsla fer reglulega fram utandyra. Við fórum til dæmis út í myndmennt og máluðum fjöllin og náttúruna í kringum skólann, lærðum bogfimi úti og fórum í margar vettvangsferðir um svæðið tengdar náttúrufræði og öðrum fögum. Þar að auki fórum við í margar ferðir um hálendi Íslands með skólanum þar sem við stunduðum útivist og göngur. Þessi mikla útivistarmenning í skóla- og frístundastarfi eins og finna má í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum er að ég tel mjög mikilvæg þegar kemur að því að efla ungmenni til sjálfstæðrar útivistar í eigin frítíma. Ég sé skýrt dæmi um það í eigin lífi núna þegar við vinirnir úr Waldorfskólanum hittumst því við stundum mun meiri útivist saman í okkar frítíma en ég geri með öðrum vinum mínum. Ég tel það vera vegna þess að við búum yfir ákveðinni færni í útiveru sem við lærðum í skólanum.

Ég tel að ein af stærstu ástæðum þess að unglingar í dag séu lítið úti í frítíma sínum sé sú að þeir búa ekki yfir færni til útiveru og vita margir hverjir ekki hvað þau eigi að gera utandyra. Þau kunna ekki að vera úti og koma ekki auga á tækifærin sem þar eru. Unglinga skortir fyrirmyndir og hugmyndir en er það ekki á ábyrgð þeirra fullorðnu að sjá til þess að börn og unglingar nútímans læri að vera saman úti? Ég tel svo vera. Þá væri skref í rétta átt að efla almenna útivistarmenningu og þá sérstaklega í skóla- og frístundastarfi þar sem unnið er að því að þjálfa börn og unglinga í því að verja tíma úti og efla færni þeirra svo þau geti stundað sjálfstæða útivist. Góð færni í útivist gæti aukið útiveru í frítíma og verið mikilvæg til að vega á móti aðdráttarafli þess að hanga inni í tölvunni og á samskiptamiðlum í frítímanum.

Það stoðar ekkert að fussa og sveia heldur þarf að hugsa í lausnum. Það er ábyrgð okkar fullorðnu að búa til samfélag þar sem unglingar kunna að skemmta sér saman úti því það finnst ekki öllum unglingum gaman að vera úti en það finnst heldur ekki öllum unglingum gaman að vera inni.

Hólmfríður Kría Halldórsdóttir