Falin blessun tölvuleikja

Frá því að tölvuleikir komu sér fyrir í frítíma og tómstundum ungmenna hafa þeir verið rakkaðir niður úr mörgum áttum.  Hver þekkir ekki „Ef þú horfir of mikið á sjónvarpið verða augun þín kassalaga“ það var að minnsta kosti það sem ég heyrði á mínum yngri árum þegar ég spilaði Nintendo fyrir framan sjónvarpið og viti menn, augun mín eru ekki kassalaga.  Auk þess heyrði ég: „Þú skemmir á þér augun við það að horfa of lengi á skjá“.  Þrjátíu árum seinna samsvarar það -0.5 á hægra og -1,5 á vinstra, ég verandi elstur af þremur systkinum þarf ekki gleraugu í daglegu lífi.

Hræðast forráðamenn og yfirvöld þann brennandi áhuga sem spilarar hafa á tölvuleikjunum sjálfum eða eru þeir hræddir við hugmyndafræði sem í þeim birtist?  Er það taumlausa ofbeldið sem á sér stað í þeim, sem verður raunverulegra með hverju ári sem líður?  Líklegast er það seinni spurninginn.  Ef hún er ástæðan:  Af hverju eru raðirnar af kvikmyndagestum að bíða eftir því að fá að komast í sæti?  Af hverju er ákveðin sena í seríu 1 af Daredevil mikið umtöluð?  Glæpatíðni á heimsvísu hefur lækkað síðan 1993 (mjög svo í Bandaríkjunum) þrátt fyrir að eftirlitstækni sé orðin betri.  Ef minnið þjónar þá var nákvæmlega sama umræða tekin með sjónvarp og spunaspil.

Ég er ekki að véfengja það að til sé fólk sem ánetjast spilum, ég þekki það vel sjálfur hversu auðvelt það er að læsa að sér og flytja í heim sem virðist skemmtilegri, áhugaverðari og umfram allt þar sem maður getur haft áhrif.  Eða hvernig hægt sé að svo gott sem ánetjast spunaspilum, verða úrillur og leiður ef eitthvað gengur ekki nægilega vel upp.  Tölvuleikir hafa hjálpað þó nokkrum einstaklingum að finna ást í lífi sínu og giftast einstaklingi sem þeir hefðu annars ekki kynnst, örfáum hefur tekist það vel upp að þeir eru orðnir nokkurs konar poppstjörnur sem hafa marga áhorfendur og vegna auglýsingatekna haft af því pening.  Eitt áhugavert dæmi sem er í heimildarmyndinni „The Smash Brothers“ á Youtube, var hópur drengja sem áttu ekki auðvelt líf, bjuggu í gettóum Bandaríkjanna, höfðu ekki góðar einkunnir, né bjarta von um glæstan starfsframa.  Margir einstaklingar í þessum sporum eiga það til að leiðast út í glæpi og hvað annað verra, en vegna þess hve mikill áhuginn hjá jafningjahópnum var á einum tölvuleik “Smash brothers: Melee” myndaðist sena sem varð til þess að ungmenni höfðu eitthvað sem batt þau saman og leyfði þeim að etja kappi við hvort annað í spili.

Það er klárt mál að ánetjast einhverju sé ekki jákvætt og vegna þess að við tökum ekki eftir þeim sem eru heima að spila tölvuleiki 15+ tíma á dag er mjög auðvelt að horfa framhjá þessari fíkn.

Ég skora á þá sem þetta lesa að í staðinn fyrir að skamma eða banna með lögum og ráða ungmennum frá því að spila tölvuleiki eða spil, að setjast niður hjá þeim þegar þau eru að spila og spyrja: Af hverju er þetta áhugavert?  Hvers vegna vill ungmennið spila þennan leik en ekki hinn?  Til hvers er það að spila?  Það er aldrei að vita nema í þér gæti leynst áhugamanneskja um stafræn áhugamál samtímans og aukinn skilningur á hugsanagangi barnanna okkar.

Óskar Freyr Hinriksson