Skilgreining á hugtakinu tómstundir

VandaSigurgeirsdottir-vefurÚtdráttur

Í greininni er leitast við að skilgreina hugtakið tómstundir (e. leisure). Hefur það ekki verið gert áður á Íslandi með þessum hætti, eftir því sem næst verður komist. Ekki er um einfalt verk að ræða því erlendir fræðimenn eru almennt sammála um að mjög erfitt sé að skilgreina hugtakið. Til umfjöllunar er nálgun frá fimm mismunandi hliðum; tómstundir sem tími, athöfn, gæði, viðhorf og hlutverk og mynda þær grunn að skilgreiningu sem sett er fram í lokin. Skilgreiningin gengur út á að tómstundir séu athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum en flokkast ekki sem tómstundir nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur svo á að um tómstundir sé að ræða, að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif.

Hægt er að nálgast greinina hér.

Um höfundinn

Vanda Sigurgeirsdóttir er fædd árið 1965 og starfar hún sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands en þar hefur hún starfað frá upphafi námsins haustið 2001. Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands og er sem stendur í doktorsnámi við félagsráðgjafadeild HÍ. Ásamt því að starfa við háskólann er Vanda knattspyrnuþjálfari hjá Þrótti Reykjavík.

 

Mikilvægi skipulags íþrótta- og frístundastarfs fyrir unga innflytjendur

Kampur_hringur_fjolbreytileikiFrístundamiðstöðin Kampur og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur stóðu fyrir fræðslufundi miðvikudaginn 29. maí þar sem ungir innflytjendur voru í brennidepli. Á fundinum flutti Eva Dögg Guðmundsdóttir, cand.mag í menningar- og innflytjendafræðum og uppeldis- og kennslufræði, erindi um mikilvægi skipulags íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku.

Eva sagði frá helstu rannsóknum sem gerðar hafa verið á íþróttaþátttöku barna og unglinga í Hollandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku og þremur verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í Danmörku. Einnig sagði Eva Dögg frá helstu niðurstöðum eigin vettvangs-rannsóknar í tengslum við lokaverkefni við Háskólann í Hróarskeldu.

Eva sagði frá stöðu ungra innflytjenda í dönsku samfélagi þar sem rannsóknir sýna að ungt fólk af með annað móðurmál en dönsku skila sér í litlu mæli inn í framhaldsskóla og enn síður í frekara nám. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt sömu þróun og því má horfa til reynslu Dana af því  hvernig hægt er að bregðast við.

Í erindi Evu kom fram að samþætting er það hugtak sem helst hefur verið notað í umfjöllum um aðlögun innflytjenda í samfélagi. Hún vill ítreka mikilvægi þess að slík samþætting þarf að vera gagnvirk til að geta verið innflytjendum og samfélaginu gagnleg, annars vegar í íþróttinni sjálfri sem viðfangsefni en einnig í gegnum íþróttina til að virkja unga innflytjendur og ungt fólk af erlendum uppruna með annað móðurmál en í dvalarlandinu til leiks í samfélaginu. Þar bendir Eva á rannsóknir sem sýna mikilvægi íþróttaþátttöku fyrir margar úr þessum hópum.

Eva vísaði í rannsóknir frá Hollandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku í máli sínu. Í gegnum íþróttirnar virðast ungir innflytjendur geta brotið þann múr sem tungumálið er í skólastarfi og íþróttavöllurinn því kjörinn vettvangur til að æfa daglegt mál. Í íþróttunum eru samskiptin jafnframt á öðrum forsendum og ekki eins háð tungumálinu og samskipti í skólaumhverfinu. Samveran og samskiptin eru á öðrum nótum sem gefa færi á annars konar tengslum og grunn að félagslegum samskiptum. Margir viðmælenda vísa í að hugurinn tæmist og ekkert skipti máli nema það sem er að gerast á vellinum sem verður um leið einhvers konar athvarf þar sem annað er skilið eftir fyrir utan. Þegar góður árangur næst í íþróttum er það jafnframt jákvæð styrking á sjálfsmynd viðkomandi.

Það er þó ekki svo að íþróttaþátttakan sé töfralausn á þeim vanda sem ungir innflytjendur og ungt fólk með annað móðurmál en dönsku glíma stundum við. Í þeim rannsóknum sem Eva fjallaði um kom jafnframt fram að oft væri að heyra ljótan tón á vellinum þar sem fordómar og neikvæð samfélagsumræða virðist stundum skila sér inn í samfélagið á vellinum. Þar eru einnig að finna sterkar staðalmyndir og sjálfsmynd þátttakenda getur boðið hnekki ef geta þeirra er ekki í samræmi við meginþorra iðkenda. Það virðist þó vera svo samkvæmt rannsóknum frá Hollandi að fram að kynþroskaaldri eigi börn af ólíkum menningar- og þjóðernisuppruna auðvelt með samskipti í íþróttum.

Það er niðurstaða Evu að skapa þurfi í íslensku samfélagi aðstæður og betra aðgengi fyrir virka þátttöku ungra innflytjenda á mismunandi sviðum samfélagsins og íþróttir eru þar ein leið.

Erindi Evu varð kveikja að fjörugum umræðum undir lok fundarins sem var ágætlega sóttur. Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að hlúa sérstaklega að þessum hópi í gegnum frítímastarf og þátttöku á þeirra eigin forsendum og skoða þarf þátttöku þeirra, möguleika og þær hindranir sem mæta þeim í íslensku íþrótta- og tómstundastarfi gaumgæfilega.

Áhugasamir geta komist í samband við Evu í gegnum netfangið [email protected]

FFF – Félag fagfólks í frítímaþjónustu

fagfélag

FFF eða Félag fagfólks í frítímaþjónustu starfar á vettvangi frítímans á vegum sveitarfélaga, s.s. í félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum, frístundamiðstöðvum, ungmennahúsum og skrifstofum æskulýðsmála og hefur það markmið að stuðla að aukinni fagmennsku á vettvangnum. Félagið var stofnað árið 2005 af hópi fólks sem allt starfaði við frítímaþjónustu. Markmið félagsins er meðal annars að leggja áherslu á mikilvægi frítímaþjónustu sveitarfélaganna fyrir ungt fólk og efla fagvitund og samheldni fagfólks í frítímaþjónustu með því að skapa félögum vettvang til umræðna og skoðanaskipta. Til að geta gengið í félagið þurfa einstaklingar að hafa lokið háskólanámi í tómstunda- og félagsmálafræðum eða hafa starfað í fimm ár á vettvangi frítímans. Einnig er hægt að sækja um aðild ef einstaklingur sem starfar á vettvangi frítímans hefur lokið háskólanámi á sviði uppeldis- og félagsvísinda. Aukaaðild geta þeir sótt um sem stunda nám á sviði félagsvísinda, uppeldis- og tómstundafræða ef þeir starfa á vettvangi frítímans. Þeir hafa þó einungis áheyrnar-og tillögurétt á aðalfundi og greiða helming félagsgjalds.

Fagfélagið, eins og félagið er jafnan kallað manna á milli, stendur fyrir ýmis konar fundum og fræðslu fyrir fagfólk í frítímaþjónustu. Sem dæmi má nefna Kompás námskeið í lýðræðis- og mannréttindafræðslu sem Fagfélagið hefur staðið fyrir á síðastliðnum mánuðum. Ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu á vettvangi frítímans stuðlar Fagfélagið að miklu samstarfi milli stjórnvalda, starfsfólks á vettvangnum og háskólasamfélagsins. Fagfélagið er því mikilvægur liður í því að dýpka þekkingu og auka fagmennsku starfsfólks ásamt því að standa vörð um hagsmuni vettvangsins.

Á nýafstöðnum aðalfundi félagsins var kosin ný stjórn Fagfélagsins en hana skipa:

Hulda Valdís Valdimarsdóttir – Formaður
Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Helgi Jónsson
Elísabet Pétursdóttir
Bjarki Sigurjónsson

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Varamaður
Nilsína Larsen Einarsdóttir – Varamaður

Við hér á Frítímanum hvetjum alla sem starfa á vettvangi frítímans til að sækja um aðild í Fagfélagið og gerast þannig virkir þátttakendur í að móta og þróa starfsvettvanginn.

Hér er hægt að skrá sig í Fagfélagið.

Hvatningarverðlaun SFS

Hvatningarverðlaun SFS (skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar) voru veitt nú á dögunum, en þau eru veitt  fyrir framsækið fagstarf í skólum, frístundamiðstöðvum og skólahljómsveitum borgarinnar. Þrenn verðlaun voru veitt á hverju fagsviði; til leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfs. Markmið Hvatningaverlauna SFS er að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem unnið er af starfsfólki og á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs og hvetja til nýbreytni og þróunarstarfs. Á sviði frístundastarfs fengu tvær félagsmiðstöðvar hvatningarverðlaun. Félagsmiðstöðin Miðberg hlaut verðlaun fyrir hæfileikakeppnina “Breiðholt´s got talent” og félagsmiðstöðin Kampur hlaut verðlaun fyrir stuttmyndahátíðina “Hilmarinn”.

Við tókum viðtal við Kára í Miðbergi og Friðmey og Valda í Kampi.

Breiðholt´s got talent

hvatningarverðlaunin

Hugmyndin kom árið 2009 frá Kára Sigurðssyni og Hafsteini Vilhelmssyni en þá var mjög vinsælt hjá unglingum að glápa á Britain´s got talent. Þeir  settu markið hátt og vildu gera þetta strax sem veglegast. Í kjölfarið var haft samband við allar félagsmiðstöðvar í Breiðholtinu og tímasetning ákveðin. Það lá beinast við að halda keppnina í Breiðholtsskóla þar sem má finna glæsilegan sal með góðu sviði. Þeir skiptu með sér verkefnum og sá Hafsteinn um tæknimál og Kári tók að sér að halda utan um atriði, auglýsingar og fleira. Strax í upphafi fengu þeir unglingaráðið með sér í lið og fleiri hæfileikaríka unglinga. Verkefnin sem þau fengu voru af ýmsum toga, má þar nefna tæknimenn, ljósamenn, auglýsingastjóra og margt fleira. Verkefnin voru öll unnin undir handleiðslu starfsmanna. Félgsmiðstöðvarstarfsmenn sinntu hlutverki dómara í keppninnni og settu sig oft í hlutverk ýktra persóna sem völdu síðan fimm bestu atriðin. Áhorfendur keppninnar sáu svo um að kjósa sigurvegara en þetta fyrirkomulag hefur vakið mikla lukku.

Keppnin hefur vaxið og dafnað á síðastliðnum árum og enn fleiri koma að undirbúningi. Svona viðburðir geta ekki orðið að veruleika nema að allir starfsmenn séu samstíga og hefur samstarf félagsmiðstöðanna í Miðbergi verið til fyrirmyndar. Einnig eru unglingarnir reynslunni ríkari eftir að hafa tekið þátt í að skipuleggja svona flottan viðburð.

Stuttmyndahátíðin Hilmarinn

Hilmarinn er stuttmyndakeppni fyrir unglinga í 8.- 10.bekk í félagsmiðstöðvunum 100og1, 105 og .is. Stuttmyndakeppnin heitir Hilmarinn í höfuðið á Hilmari Oddssyni sem var eitt sinn nemandi í Háteigsskóla. Hann er einnig verndari keppninar og hefur verið dómari frá upphafi.  Hugmyndin að keppninni kom frá tveimur unglingum í Félagsmiðstöinni 105. Þeim langaði að hafa keppni fyrir allar félagsmiðstöðvar sem tilheyra Frístundamiðstöðinni Kampi. Í ár var Hilmarinn haldinn í þriðja sinn og alls voru tólf myndir sýndar í keppninni.  Þrjár af þeim myndum sem tóku þátt í Hilmarnum í ár unnu til verðaluna á kvikmyndakeppni grunnskólanna sem haldin var í vetur.

Félagsmálafræðikennsla í grunnskólum

félagsmálafræðiÍ þessari grein ætla ég að fjalla um valáfanga í félagsmálafræði sem ég kenni í Grunnskóla Seltjarnarness fyrir 8., 9. og 10. bekk. Það ber að nefna að við vorum ekki þau fyrstu sem byrjuðu með félagsmálafræðikennslu en hún er kennd víða með mismunandi sniði. Markmiðið með greininni er aðeins að fjalla um hvernig við byggjum upp áfangann hérna úti á Seltjarnarnesi.  

Umgjörð:

Í Grunnskóla Seltjarnarness eru 167 nemendur í 8., 9. og 10. bekk og er félagsmálafræðin valáfangi sem allir þessir nemendur geta valið. Síðastliðin ár hafa 45-60 nemendur valið félagsmálafræðina og er hún því kennd í tveimur hópum. Einn hópur er fyrir 10. bekk og annar hópur fyrir 8. og 9. bekk. Kennslufyrirkomulagið eru tvær samliggjandi kennslustundir á viku á hvorn hóp. Áfanginn er kenndur af starfsmanni félagsmiðstöðvarinnar Selið á Seltjarnarnesi en hún sér um allt félagslíf skólans í góðu samstarfi við skólastjórnendur.

Markmið og hlutverk:

Markmið með félagsmálafræðikennslu er m.a. að efla félagslegan þroska nemenda, styrkja þá á félagslegum vettvangi og þar með að styrkja sjálfsmynd og viðhorf þeirra til sín og annarra. Félagsmál eru mikilvægur þáttur í mótun unglinga og heilbrigð félagsleg virkni hefur einungis jákvæð áhrif á líf unglinga. Í félagsmálafræðitímum er farið yfir þætti er tengjast ýmiss konar félagsmálum. Kennd er m.a. framsögn, framkoma og tjáning, fundarsköp og skipulagning á viðburðum og uppákomum. Lögð er áhersla á að nemendur geti þroskað og styrkt sjálfsmynd sína en einnig að þeir læri samvinnu, hópavinnu og að bera virðingu fyrir öðrum. Einnig er farið í þætti eins og ábyrgð, siðferði og gagnrýna hugsun.

Félagsmálafræðin, í samstarfi við nemendaráð skólans, sér um framkvæmd og skipulag á öllu félagslífi skólans og félagsmiðstöðvarinnar. Kennslan fer því mikið fram í formi verklegra æfinga við að skipuleggja félagslífið. Markmiðið er því að virkja sem flesta til að taka þátt og hafa áhrif á félagslífið. Félagsmálafræðin skipuleggur og heldur utan um kosningar í nemendaráð skólans og er mælt með því að meðlimir nemendaráðs séu nemendur félagsmálafræðinnar.

Hlutverk nemendaráðs:

Nemendaráðið er skipað af átta fulltrúm úr 8., 9. og 10. bekk og eru þau kosin í lýðræðislegri kosningu á haustin. Hver árgangur á að lágmarki tvo fulltrúa í nemendaráði. Nemendaráðið starfar í nánu samstarfi við starfsmenn Selsins. Hlutverk þess er að vera fyrirmyndir samnemenda sinna og í forsvari fyrir nemendur á skólaráðsfundum og öðrum fundum sem óskað er eftir að nemendur sæki. Nemendaráðið ber einnig ábyrgð á fjármunum nemendafélagsins og á ákveðnum viðburðum en þó alltaf í samstarfi við félagsmálafræðina.

Kennslufyrirkomulag:

Kennslufyrirkomulag félagsmálafræðinnar skiptist í tvo hluta. Annars vegar er tvöföld kennslustund einu sinni í viku sem fer fram í skólanum. Þar er ég með innlegg, æfingar og verkefni ásamt því að nemendur skipuleggja og skipta með sér verkum við framkvæmd á viðburðum. Hinn hlutinn fer svo fram í félagsmiðstöðinni þar sem nemendurnir framkvæma þá viðburði og þau verkefni sem skipulögð voru í skólanum.

Námsefni:

Námsefnið sem notast er við í kennslunni kemur héðan og þaðan og er mikið af því unnið úr kennslubókum sem kenndar eru í tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ. Það námsefni hef ég svo einfaldað og sett upp svo það eigi við 13-15 ára unglinga.

Kompás – Handbók um mannréttindafræðslu fyrir ungt fólk er mjög góð bók til að styðjast við í kennslunni. Í Kompás eru góð verkefni í mannréttindafræðslu sem ég hef notast við ásamt því að ég hef tekið aðferðirnar sem kenndar eru í Kompás og breytt umræðuefninu. Aðferðirnar sem kenndar eru við kennslu á Kompás eru mjög líflegar og skemmtilegar og hægt að heimfæra þær á hin ýmsu umræðuefni. Dæmi um umræðuefni sem ég hef notast við til að fjalla um er kynfræðsla, sjálfsmynd, reglur um klæðaburð á Samfestingnum og svo mætti lengi telja.

Dýnamík – Handbók um hópefli og hópeflisleiki fyrir starfsfólk í æskulýðsstarfi er bók sem ég notast mikið við. Í bókinni eru kenndir hinir ýmsu leikir sem þjóna margvíslegum markmiðum. Félagsmálafræðin er kennd seinnipart dags og þá getur góður leikur gjörbreytt stemningunni í hópnum.

Verum virk – Félagsstörf, fundir og framkoma er ný bók sem kom út árið 2012. Í henni er fjallað um félagsmál, lýðræði, samskipti, sjálfsmynd og sjálfsvirðingu, tjáningu og framsögn, fundarsköp, nefndarstörf, rökræður og málamiðlanir. Í þessari bók enda allir kaflar á æfingum sem eiga vel heima í félagsmálafræðikennslu.

Verkefni og æfingar:

Líkt og áður hefur komið fram er stór hluti verklegra æfinga í formi þess að skipuleggja og framkvæma raunveruleg verkefni og sjá um félagslífið fyrir allan skólann. Einnig eru þó ýmsar verklegar æfingar framkvæmdar í tímum og má þar nefna sem dæmi:

  • Æfingar í tjáningu til að styrkja nemendur í að tala fyrir framan fólk.
  • Ræðuflutningur og rökræðukeppnir um hin ýmsu málefni.
  • Kosningar þar sem nemendur eru í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningar í bæjarfélaginu. Nemendur eiga að útbúa stefnuskrá, sjónvarpsauglýsingu (sem er leikin í tímanum) og flytja framboðsræður. Að lokum er svo kosið.
  • Æfingar í markmiðssetningu.
  • Umræðuþing um skólamál, hvað sé gott og hvað mætti betur fara í skólanum.
  • Viðburðarstjórnunarverkefni þar sem minni hópar taka að sér skipulag og framkvæmd á minni viðburðum frá A-Ö.

Námsmat:

Námsmatið í félagsmálafræðinni fer alfarið í gegnum Félagströllið (www.felagstrollid.is). Í stuttu máli er Félagströllið leikur þar sem allt það sem nemendurnir taka sér fyrir hendur er metið til stiga, hvort sem þau mæta í félagsmálafræðina, í  félagsmiðstöðina eða á viðburði. Einnig fá nemendur sérstaklega stig ef þeir sækja klúbba eða ef þeir taka þátt í framkvæmd á viðburðum. Félagströllið sér svo um að meta mismunandi verknað til stiga. Sem dæmi má nefna að það að mæta í félagsmiðstöðina gefur 5 stig en það að skipuleggja viðburð gefur 20 stig. 15 stig fá þau fyrir að mæta á viðburðinn og 10 stig fyrir hverja sjoppu eða miðasöluvakt sem nemandinn tekur sér fyrir hendur.  Þannig metur Félagströllið ekki bara mætingu einstaklinga í félagsstarfið heldur einnig virkni þeirra. Fyrir þá sem vilja kynna sér Félagströllið frekar má lesa um það hér.

Að lokum:

Félagsmálafræðin er frábær leið til að fá sem flesta til að taka virkan þátt í skipulagi og framkvæmd á viðburðum og verkefnum á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Það að fá sem flesta að borðinu verður svo til þess að krakkarnir upplifa félagslífið alfarið sem sýna eign og sinna því þeim mun betur. Það skemmtilegasta við félagsmálafræðina er þó að sjá þann mun sem verður á félagslegum þroska einstaklinga frá því að þeir byrja í áfanganum og þegar skólaárinu lýkur.

Ný stjórn og ályktun frá aðalfundi Samfés – Málefni barna og ungmenna á oddinn

62630_370662429719337_236015964_n
Nýkjörin stjórn Samfés

Á aðalfundi Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, sem fram fór á Bifröst í Borgarfirði dagana 18.-19. apríl, var kjörin ný stjórn ásamt því að aðalfundurinn sendi frá sér ályktun um að hvetja frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla að setja málefni barna og unglinga á oddinn í kosningabaráttunni. Ályktunin í heild sinni má lesa hér að neðan.

Ásamt hefðbundnum aðalfundarstörfum sóttu fundarmenn svokallaðar WorldCafé umræðustofur þar sem farið var yfir starf Samfés og viðburði. Það var mikill kraftur á fundinum og greinilegt að fagmennskan er í fyrirrúmi hjá félagsmiðstöðvum á Íslandi.

Nýkjörna stjórn Samfés skipa:
Gunnar E. Sigurbjörnsson – Formaður
Andri Lefever – Gjaldkeri
Linda Björk Pálsdóttir
Svava Gunnarsdóttir
Þorvaldur Guðjónsson

Varamenn
Andrea Marel
Gunnlaugur Víðir Guðmundsson
Óli Örn Atlason

Ályktun aðalfundar: Málefni barna og unglinga verði sett á oddinn

Aðalfundur Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi haldinn á Bifröst í Borgarfirði dagana 18.-19. apríl, hvetur frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla að setja málefni barna og unglinga á oddinn í kosningabaráttunni.

Þá minnir fundurinn frambjóðendur á að rödd barna og unglinga á að fá að hljóma þegar ákvarðanir eru teknar um málefni þeirra. Samkvæmt 12. grein Barnasáttmálans sem var lögfestur á nýafstöðnu þingi eiga börn og unglingar rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í þeim málum sem varða málefni þeirra.

Samfés eru frjáls félagasamtök félags- og tómstundamiðstöðva sem bjóða uppá skipulagt og opið æskulýðsstarf þar sem starfsemin byggist upp á lýðræðislegum vinnubrögðum og starfað er samkvæmt skilgreindum uppeldismarkmiðum. 111 félagsmiðstöðvar og ungmennahús eru aðilar að Samfés.