Skrollarasamfélag

Þú opnar augun, teygir hendina að náttborðinu og grípur utan um símann, áður en þú gerir nokkuð annað. Þessa lýsingu á fyrsta verki dagsins gætu sumir tengt við en aðrir ekki. Síminn er orðinn þróaðri en hann var og er orðinn nauðsynjavara í daglegu lífi. Við förum ekki út úr húsi án þess að taka hann með okkur. Umræða í kringum unglinga og snjalltækjanotkun þeirra hefur verið mikið á vörum landsmanna síðastliðna mánuði og virðist oftast vera neikvæð. Ég upplifi það að verið sé að kenna unglingunum um hvernig þau haga sér þegar kemur að snjalltækjum. Þau fæddust inn í þennan nútíma og við verðum að læra að vinna okkur í kringum það, tæknin mun alltaf aukast.

Eitt skroll sýnir þér hverjar bestu leiðirnar eru til þess að grenna sig á skömmum tíma. Næsta skroll segir þér að það sé nauðsynlegt að þú eignist þessa og hina vöruna. Í framhaldinu kemstu að því hvernig þú eigir að haga þér þannig að fólki líki sem best við þig og hvernig þú græðir mestan pening á stuttum tíma. Á þeim mótandi tíma sem unglingsárin eru verða þessar upplýsingar þýðingarmeiri. Það er erfitt að finna sjálfan sig sem manneskju með allar þessar raddir hrópandi á þig úr öllum áttum. Í nútímasamfélagi situr þú ekki aðeins uppi með skoðanir þeirra sem standa þér næst. Skoðanir koma alls staðar frá og þar af leiðandi verður erfiðara að mynda sínar eigin. Sem manneskjur leitumst við eftir samþykki frá öðrum og með komu samfélagsmiðla eru enn fleiri einstaklingar sem hafa vægi í þeim efnum.

Samfélagsmiðlar taka mikið pláss í daglegu lífi okkar og geta verið upplífgandi og skemmtilegir. Þeir tryggja okkur einnig auðvelda leið til samskipta. Sterkasti máttur samfélagsmiðlanna er samt sem áður að sýna okkur glansmyndir og á það ekki síður við í heimi unglinga. Upplifunin er oft sú að allir nema þú séu að gera eitthvað skemmtilegt, séu alltaf í útlöndum, eigi flottari föt og búi í flottara húsi o.s.fv. Þú berð fyrirmyndarlíf annarra saman við þitt daglega líf. Mín upplifun er sú að á unglingsárunum sé erfiðara að gera greinarmun þar á milli. Það getur verið erfitt að sannfæra sjálfan sig um að þessir tveir hlutir séu ekki sambærilegir.

Unglingar eiga heilmikil samskipti, þau eru ekki bara „límd“ við símann eins og fólk vill oft meina. Ég upplifi unglinga oft eiga heiðurinn af þessari umræðu og þau vilji breyta þessum venjum. En hins vegar gæti ég trúað því að þetta tuð um snjalltækjanotkun sé ekki að betrumbæta þróunina. Unglingar í dag þekkja ekkert annað en það að vera umkringd snjalltækjum og ég trúi því að þau verði með enn betri lausnir en við þegar kemur að þessum málum. Þau standa sig virkilega vel, miðað við það sem ég tel erfiðar aðstæður í tengslum við snjalltækjaþróun, og þau eru framtíðin. Hættum að skamma þau og förum að hrósa þeim.

Hrefna Lind Pálmadóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði