Ofursnigillinn Túrbó – Fyrirmynd okkar allra?

Margir kannast við teiknimyndina Túrbó, fyrir þá sem ekki vita þá fjallar teiknimyndin um lítinn snigil sem hefur það að áhugamáli að elska kappakstursbíla eða nánast öllu sem hefur eitthvað með mikinn hraða að gera. Snigillinn býr í litlum tómatagarði þar em lífið er að gera honum leitt en dag einn lendir Túrbó ofan á bíl, bíllinn ekur gríðarlega hratt og snigillinn Túrbó sogast þannig inn í vélina á bílnum. Í þessari atburðarás verður Túrbó fyrir miklu áfalli en áttar sig síðan á því að eftir þetta mikla áfall öðlaðist hann ofurkraft.

Þú veltir því kannski fyrir þér hvers vegna ég nefni þennan snigil. Jú, það er vegna þess að hann og saga þessa snigils er mjög mikilvæg í stóra samhenginu. Fyrr á árinu fór höfundur á viðburðinn Íslenskar æskulýðsrannsóknir. Þar var mikið af fróðlegum erindum og þar á meðal var Vanda Sigurgeirsdóttir með erindið: Ég er komin heim. Vanda fjallaði um farsæld, stefnubreytingar, ferill sinn hjá KSÍ og margt fleira. Vanda talaði um að hún hefði lært að tileinka sér það að snúa mótlæti yfir í tækifæri og hvernig maður ætti að sjá ljósið í myrkrinu. Þetta fyrirbæri, að snúa mótlæti yfir í tækifæri, er hugarfar sem allir ættu að nýta sér. Það kennir manni að nýta það erfiða og neikvæða í kringum sig yfir í eitthvað uppbyggilegt, mótandi og jákvætt.

Snigillinn Túrbó er því fullkomin myndlíking við hugarfar Vöndu. Túrbó er ósköp venjulegur snigill sem hefur enga sérstaka hæfileika, daglega líf hans var frekar óspennandi þar til hann lendir í miðjunni á kraftmikilli vél á bíl gegn hans vilja. Ljóst er að óhappið hefur verið mikið áfall enda ekki allir sniglar sem myndu hugsanlega lifa þetta af. Túrbó hinsvegar er jákvæður og bjartsýnn snigill að eðlisfari og nýtti sér þannig óhappið óviljuga til að skapa ný tækifæri. Seinna meir kemst Túrbó að því að hann er með ofurkraft, í óhappinu öðlaðist hann ofurhraða og verður því hraðskreiðari en aðrir sniglar. Túrbó bjó sér til tækifæri út frá ofurkraftinum og fór að keppast við að vera hraðasti snigill í heimi og gekk það heldur betur vel þar sem hann fékk loks að blómstra á áhugasviði sínu.

Það er kannski hálf furðulegt að vera að líkja saman sögu snigils og orðum lektors við Háskóla Íslands en það sýnir okkur hvað við getum dregið margt furðulegt, skemmtilegt og uppbyggilegt úr okkar daglega umhverfi án þess að þurfa að kafa mikið á dýptina.

Þessi hugsunarháttur hljómar hins vegar voða einfaldur á blaði en það er þó stundum snúið að tileinka sér hann.

Höfundur vonar að þú sem lesandi hafir haft not af þessari myndlíkingu og að lesningin hafi hjálpað þér að sjá að jafnvel teiknimyndir tileinka sér eitt af mörgum viðhorfum tómstundafræðinnar. Ef snigillinn Túrbó getur snúið mótlæti yfir í tækifæri þá getur þú það líka. Bara að muna, eins og sniglarnir…að fara rólega af stað.

Salvör Mist Sigurðardóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og dyggur áhugamaður um myndlíkingar