Eru samfélagsmiðlar að stela sjálfsmynd unglinga?

Í nútímasamfélagi hafa samfélagsmiðlar aukist töluvert og það mun bara halda áfram að aukast í náinni framtíð. Það eru sífellt að koma ný öpp (smáforrit) á markaðinn en við erum þó flest með Instagram, Facebook, Tiktok og Snapchat. Á unglingsárunum eykst hormónaframleiðsla, tilfinningalegar breytingar eru áberandi og geta verið erfiðar fyrir unglinga. Þegar ég var unglingur höfðu samfélagsmiðlar gríðarlega neikvæð áhrif á mig á svo marga vegu. Sjálfstraust mitt var ekki mikið og ég var stanslaust að bera mig saman við áhrifavaldastjörnur og frægt fólk á netinu.

Ég hafði ekki hugmynd um á þessum aldri að þetta fólk væri að sýna glansmynd af lífinu sínu og að þetta væri alls ekki raunveruleikinn. Oft eru þessir áhrifavaldar eða stórstjörnur búin að fara í margar fegrunaraðgerðir, „photoshoppa“ myndirnar sínar (breyta þeim með forriti), nota „filtera,“ hárkollur og taka margar myndir til að fá hina fullkomnu mynd. Ég hefði verið til í fræðslu frá foreldrum, skóla eða frístund um samfélagsmiðlalæsi til að segja mér að þetta sé ekki raunveruleikinn og að ég þurfi ekki að líta svona út eða eiga alla þessa nýju hluti sem samfélagsmiðlastjörnur eru að auglýsa.

Þurfum við líka að eiga alla þessa nýju hluti?

Neysluhyggjan getur verið skaðleg fyrir samfélagið og ungt fólk, af mörgum ástæðum. Hún nærir oft „efnishyggjumenningu“ sem leggur áherslu á að sækjast eftir eignum og auði sem vísbendingu um árangur. Þetta getur leitt til fjárhagslegs álags þar sem einstaklingur getur eytt langt um efni fram til að mæta væntingum samfélagsins. Svo getur stöðug neysla haft áhrif á umhverfið vegna aukinnar framleiðslu og sóunar. Við þurfum ekki alla þessa hluti og það getur verið erfitt fyrir ungt fólk að vita þetta og skilja.

Hverjir bera ábyrgð á að kenna börnum og ungmennum samfélagsmiðlalæsi?

Mér finnst að foreldrar og fólk sem umgengst börn og ungmenni eigi að upplýsa þau um samfélagsmiðlalæsi. Foreldrar eru yfirleitt að reyna að gera sitt besta í foreldrahlutverkinu en það getur líka verið að þau séu að taka þátt í þessari glansmynd á samfélagsmiðlum og er því erfitt fyrir þá foreldra að upplýsa börnin sín eða ungmenni um glansmynd samfélagsmiðla ef þau eru að taka þátt í henni sjálf. Þá finnst mér að það ætti að vera ábyrgð skólans eða frístundar að upplýsa þau.  Áhrifavaldar og stórstjörnur eru alls ekki slæmar persónur en þau sýna yfirleitt ekki raunveruleikann og ég held því miður að flestir samfélagsmiðlar sýni ekki raunveruleikann, sérstaklega Instagram. Við erum oftast að sýna bestu hliðarnar á lífinu og sýnum ekki að lífið geti verið alls konar. Samfélagsmiðlar geta haft slæm áhrif á geðheilsu ungmenna, þau geta fundið fyrir meiri kvíða, streitu, neteinelti og vanmáttartilfinningu vegna samanburðar. Það er því afar nauðsynlegt að stuðla að heilbrigðri netnotkun samfélagsmiðla og fræða börn og unglinga um hugsanlega gildrur þeirra.

Anna Karen Guðjónsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði