Mikilvægi skipulags íþrótta- og frístundastarfs fyrir unga innflytjendur

Kampur_hringur_fjolbreytileikiFrístundamiðstöðin Kampur og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur stóðu fyrir fræðslufundi miðvikudaginn 29. maí þar sem ungir innflytjendur voru í brennidepli. Á fundinum flutti Eva Dögg Guðmundsdóttir, cand.mag í menningar- og innflytjendafræðum og uppeldis- og kennslufræði, erindi um mikilvægi skipulags íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku.

Eva sagði frá helstu rannsóknum sem gerðar hafa verið á íþróttaþátttöku barna og unglinga í Hollandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku og þremur verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í Danmörku. Einnig sagði Eva Dögg frá helstu niðurstöðum eigin vettvangs-rannsóknar í tengslum við lokaverkefni við Háskólann í Hróarskeldu.

Eva sagði frá stöðu ungra innflytjenda í dönsku samfélagi þar sem rannsóknir sýna að ungt fólk af með annað móðurmál en dönsku skila sér í litlu mæli inn í framhaldsskóla og enn síður í frekara nám. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt sömu þróun og því má horfa til reynslu Dana af því  hvernig hægt er að bregðast við.

Í erindi Evu kom fram að samþætting er það hugtak sem helst hefur verið notað í umfjöllum um aðlögun innflytjenda í samfélagi. Hún vill ítreka mikilvægi þess að slík samþætting þarf að vera gagnvirk til að geta verið innflytjendum og samfélaginu gagnleg, annars vegar í íþróttinni sjálfri sem viðfangsefni en einnig í gegnum íþróttina til að virkja unga innflytjendur og ungt fólk af erlendum uppruna með annað móðurmál en í dvalarlandinu til leiks í samfélaginu. Þar bendir Eva á rannsóknir sem sýna mikilvægi íþróttaþátttöku fyrir margar úr þessum hópum.

Eva vísaði í rannsóknir frá Hollandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku í máli sínu. Í gegnum íþróttirnar virðast ungir innflytjendur geta brotið þann múr sem tungumálið er í skólastarfi og íþróttavöllurinn því kjörinn vettvangur til að æfa daglegt mál. Í íþróttunum eru samskiptin jafnframt á öðrum forsendum og ekki eins háð tungumálinu og samskipti í skólaumhverfinu. Samveran og samskiptin eru á öðrum nótum sem gefa færi á annars konar tengslum og grunn að félagslegum samskiptum. Margir viðmælenda vísa í að hugurinn tæmist og ekkert skipti máli nema það sem er að gerast á vellinum sem verður um leið einhvers konar athvarf þar sem annað er skilið eftir fyrir utan. Þegar góður árangur næst í íþróttum er það jafnframt jákvæð styrking á sjálfsmynd viðkomandi.

Það er þó ekki svo að íþróttaþátttakan sé töfralausn á þeim vanda sem ungir innflytjendur og ungt fólk með annað móðurmál en dönsku glíma stundum við. Í þeim rannsóknum sem Eva fjallaði um kom jafnframt fram að oft væri að heyra ljótan tón á vellinum þar sem fordómar og neikvæð samfélagsumræða virðist stundum skila sér inn í samfélagið á vellinum. Þar eru einnig að finna sterkar staðalmyndir og sjálfsmynd þátttakenda getur boðið hnekki ef geta þeirra er ekki í samræmi við meginþorra iðkenda. Það virðist þó vera svo samkvæmt rannsóknum frá Hollandi að fram að kynþroskaaldri eigi börn af ólíkum menningar- og þjóðernisuppruna auðvelt með samskipti í íþróttum.

Það er niðurstaða Evu að skapa þurfi í íslensku samfélagi aðstæður og betra aðgengi fyrir virka þátttöku ungra innflytjenda á mismunandi sviðum samfélagsins og íþróttir eru þar ein leið.

Erindi Evu varð kveikja að fjörugum umræðum undir lok fundarins sem var ágætlega sóttur. Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að hlúa sérstaklega að þessum hópi í gegnum frítímastarf og þátttöku á þeirra eigin forsendum og skoða þarf þátttöku þeirra, möguleika og þær hindranir sem mæta þeim í íslensku íþrótta- og tómstundastarfi gaumgæfilega.

Áhugasamir geta komist í samband við Evu í gegnum netfangið [email protected]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *