Spennandi ár framundan hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu

DSC_0095-2

Nú þegar sumarið fer að líða undir lok og fólk mætir aftur til vinnu eftir sumarfrí þá fer starfsemi Félags fagfólks í frítímaþjónustu á fullt. Við í stjórn FFF ásamt nefndum höfum verið útbúa starfsáætlun fyrir veturinn og hefur hann sjaldan litið jafn vel út. Nú þegar er skráning hafin á námskeið fyrir leiðbeinendur í Reynslunámi en það er haldið í samstarfi við Áskorun ehf og má nálgast frekari upplýsingar hér en örfá sæti eru laus á þetta spennandi námskeið.

Í vetur stefnir fagfélagið á að halda 2 hádegisfyrirlestra á önn en þeir hafa verið vel sóttir síðastliðin ár. Fagfélagið mun í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn halda fimm námskeið í Litla Kompás víðsvegar um landið á haustönn. Einnig stefnum við á að halda fleiri námskeið í samstarfi við Háskóla Íslands en það samstarf hófst á síðasta ári og lukkaðist afar vel.

Ein spennandi nýjung sem við í stjórninni erum þegar byrjuð að undirbúa er námsferð sem fagfélagið stefnir á að fara í á næsta ári. Stefnan væri þá að ferðast til Evrópu, kynnast systrasamtökum FFF ásamt því að fá innsýn inn í það nýjasta í frístundastarfinu úti.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í spennandi starfi fagfélagsins í vetur þá hvetjum við þig til að skrá þig í félagið en það er gert með einföldum hætti hér.

Hér má svo lesa starfsáætlun stjórnarinnar í heild sinni.
Likeaðu við FFF á Facebook

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu

 

„Maður lærir líka að vera góður“

Þrátt fyrir áratugasögu hefur félagsmiðstöðvastarf á Íslandi lítið verið rannsakað en þó er nokkuð stór hópur unglinga virkir þátttakendur í starfi félagsmiðstöðva einhvern tíma á unglingsárum. Í rannsókn sem var grunnur að meistaraverkefni í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands beindi Eygló Rúnarsdóttir sjónum að félagsmiðstöðvastarfinu.

Um rannsóknina

Í rannsókninni, sem ber yfirskriftina „Maður lærir líka að vera góður“ kallaði hún eftir sýn unglinga á starf félagsmiðstöðva í Reykjavík og sýn þeirra á eigin þátttöku í starfseminni. Viðtöl við átta unglinga sem tóku þátt í starfi tveggja ólíkra félagsmiðstöðva í Reykjavík veturinn 2008–2009 lágu til grundvallar en áður hafði hún til undirbúnings tekið viðtöl við þrjá unglinga í þremur ólíkum félgsmiðstöðvum, gert vettvangsathuganir og tekið viðtöl við frístundaráðgjafa. Með rannsókninni var leitast við að svara því hvaða merkingu félagsmiðstöðin hefur í hugum þessara unglinga, hvaða ástæður þeir telja vera fyrir því að þeir hófu þátttöku í starfi félagsmiðstöðva og héldu þátttöku sinni áfram, hvaða reynslu eða lærdóm, ef einhvern, unglingarnir telja sig draga af þátttöku sinni í félagsmiðstöðvastarfi og upplifun unglinganna af starfsfólki félagsmiðstöðva.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að unglingarnir sjá félagsmiðstöðina sem öruggan samastað í hverfinu þar sem aðgengi er að jafningjum, skemmtun og afþreyingu. Þessir þættir eru jafnframt hvatar
að fyrstu kynnum þeirra af félagsmiðstöðvastarfinu. Áframhaldandi þátttaka þeirra mótast af tvennu. Annars vegar mótast hún af ytri þáttum, öðrum viðfangsefnum þeirra í frítímanum, tímaskorti, opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar, aldri unglinganna og viðfangsefnum í starfi félagsmiðstöðvanna. Hins vegar mótast áframhaldandi þátttaka af því hvort unglingarnir mynda öflug tengsl við starfið, einhvers konar skuldbindingu. Unglingarnir telja sig flestir læra, þó í mismiklum mæli, af þátttöku í starfinu. Þau þemu sem þar koma fram eru þekking, verkleg færni, félagsleg færni, persónuleg færni eða eiginleikar og lífsgildi. Starfsfólk félagsmiðstöðva virðist jafnframt skipta unglingana miklu máli. Þeir eru sammála um að þar starfi gott fólk með viðmót sem einkennist af jafningjanálgun, stuðningi og hvatningu.

Niðurstöðurnar gefa þeim sem fyrir félagsmiðstöðvastarfinu standa og starfsfólki á vettvangi innsýn í hugmyndir unglinga um starfsemi sem þeim er ætluð og eru vonandi lóð á vogarskálarnar við áframhaldandi þróun starfsins.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni.

Um höfundinn

Eygló Rúnarsdóttir er grunnskólakennari og uppeldis- og Eygló Rúnarsdóttirmenntunarfræðingur en hefur hátt á annan áratug starfað á vettvangi frístundarstarfs. Hún starfaði um árabil í Breiðholtinu í Reykjavík, fyrst um nokkurra ára skeið í félagsmiðstöðinni Fellahelli en síðar í Frístundamiðstöðinni Miðbergi sem deildastjóri unglingastarfs. Síðast liðin 12 ár hefur hún starfað á skrifstofu tómstundamála hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur (ÍTR), og nú skóla- og frístundasviði Reykjavíkur (SFS) auk þess að starfa sem sérfræðingur hjá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg hefur hún auk verkefna sem snúa að málefnum unglinga og félagsmiðstöðva unnið með Reykjavíkurráði ungmenna og leitt þróun starfsemi ungmennaráða í hverfum borgarinnar frá 2001 eða frá upphafi verkefnisins.

Auk verkefna sinna hjá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands hefur Eygló sinnt fjölmörgum verkefnum á sviðið æskulýðs,- forvarnar- og félagsmála. Eygló var verkefnastjóri ráðstefnunnar Ungdom, demokrati og deltagelse undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar þegar Ísland fór með formennsku í nefndinni 2004. Hún kom jafnframt að stofnun Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2005 og sat í stjórn félagsins í nokkur ár, hefur tekið virkan þátt í starfi SAMFÉS, samtökum félagsmiðstöðva, og sinnt fræðslu og námskeiðshaldi um félagsmiðstöðvastarf og starfsemi ungmennaráða víða um land. Eygló kom að stofnun veftímaritsins Frítímans og situr jafnframt í ritstjórn hans.

More Than One Story

LOGOTYPE_webb

More Than One Story er spil sem við hjá Frítímanum þýddum og gáfum út.

Spilið er frábær skemmtun og snýst það um að fá fólk til að segja hvert öðru jákvæðar sögur af sjálfum sér. Spilið er spilastokkur sem samanstendur af spilum sem innihalda öll tilmæli um sögur sem leikmenn eiga að segja hver öðrum. Stokkurinn gengur svo manna á milli og skiptast leikmenn þannig á að segja hver öðrum sögur. Spilið virkar jafn vel með börnum sem og eldri borgurum enda er spilið aldrei eins og er það í raun hópurinn sem spilar spilið sem býr það til með sögunum sínum.

Dæmi um tilmæli á spili er:
„Segðu frá hæfileika sem þú býrð yfir og hvernig þú notar hann.”
„Segðu frá stund sem þú værir til í að endurupplifa.”

More Than One Story er ekki aðeins skemmtilegt spil fyrir vinahópinn og fjölskylduna heldur er það einnig frábært verkfæri fyrir alla þá sem vinna með fólki. Spilið þéttir hópa, æfir tjáningu, framkomu og virka hlustun einstaklinga ásamt því að það gefur öllum jafnt tækifæri á að tjá sig við hópinn.

Spilið er selt í Spilavinum og bókabúðum IÐU við Lækjargötu og í Zimsen húsinu. Einnig er hægt að senda póst á [email protected] og fá eintak sent í pósti.

Umsagnir um spilið

Katrín Vignisdóttir
Katrín Vignisdóttir – Starfsmaður í félagsmiðstöð

Katrín Vignisdóttir – Nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og starfsmaður í félagsmiðstöð
Það er erfitt að lýsa andrúmsloftinu sem myndast þegar spilað er spilið More Than One Story. Um leið og spilið byrjar gefur maður sig allan í sögu annarra og bíður spenntur að heyra hvað næsti einstaklingur hefur að segja. Hver saga sem er sögð er sérstök og lifir maður sig inn í hverja og eina þeirra. Spilið er frábært verkfæri fyrir alla sem vinna með fólki til að kynnast því betur, opna á eigin tilfinningar, hlæja saman og upplifa frábæra sögustund. Ég persónulega hef fengið að prófa spilið með ýmsum hópum og eru kostir þess mjög margir, það sem er eflaust best við það er að það gengur með hvaða hóp sem er og slær alltaf í gegn.

 

 

 

 

Guðmundur Ari - Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Guðmundur Ari – Tómstunda- og félagsmálafræðingur

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Tómstunda- og félagsmálafræðingur og verkefnastjóri í félagsmiðstöð og ungmennahúsi
More Than One Story er ekki bara skemmtilegt spil heldur er það einnig frábært verkfæri fyrir mig sem æskulýðsstarfsmann til að fá fólk til að tjá sig, deila sögum og hlusta hvert á annað. Hvort sem ég hef spilað spilið með eldri borgurm, börnum eða ungmennum þá eru allir á einu máli að spilið sé bráðskemmtilegt og að maður kynnist hópnum sem maður hélt að maður þekkti enn betur. Ég hef notað spilið í hópastarfi, í tjáningakennslu og sem verkfæri til að brúa kynslóðabil á milli eldri borgara og ungmenna og mæli hiklaust með More Than One Story.

Sunneva úr ungmennaráði Samfés tekur sæti í stjórn samtakana

Á nýafstöðnum aðalfundi Samfés var samþykkt að meðlimir úr ungmennaráði Samfés geta tekið sæti í stjórn samtakana. Seinna á fundinum var Sunneva Halldórsdóttir 15 ára ungmennaráðsmeðlimur frá Dalvík kjörin í stjórn Samfés. 

Við spjölluðum við Sunnevu og spurðum hana hvers vegna hún taldi þetta skref mikilvægt.

 

Veitum ungmennum raunveruleg áhrif – lækkum kosningaaldur

árnigVeik rödd

Við sem höfum starfað að velferðaramálum barna og ungmenna  um langa hríð  höfum ekki farið varhluta af því hve börn og ungmenni eiga sér veika rödd í samfélaginu. Margt hefur áunnist en það er ennþá langt í land hvað varðar raunveruleg áhrif ungmenna, bæði í samfélaginu og í nærumhverfi sínu.  Á níunda áratug síðustu aldar innleiddu félagsmiðstöðvar hérlendis starfsaðferðir unglingalýðræðis sem tæki og lið í valdeflingu ungmenna. Aðferð sem byggir á lífsleikni og er menntandi í víðasta skilningi þess orðs. Starfsaðferðir unglingalýðræðis ganga út á það að efla getu einstaklings og/eða hópa til þess að vinna með öðrum á lýðræðislegum forsendum og að takast á við tilveruna í öllum hennar margbreytileika.  Ungmennin öðlast með virkni í starfinu aukna félagslega hæfni og þroska með sér jákvæða sjálfsmynd sem fæst með þátttöku í þeim fjölmörgum verkefnum og viðfangsefnum sem starfsemi félagsmiðstöðva inniheldur

Æskulýðslög

Þessi þróun hefur m.a leitt til þess að í æskulýðslögum (17.mars/2007/11.gr.) er ákvæði um heimild um stofnun ungmennaráða í sveitarfélögum en þar segir: „Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.“ Flest sveitarfélög hafa nýtt þetta heimildarákvæði en ekki öll. Í Hafnarfirði var ákveðið fyrir margt löngu að fulltrúi unglinga ætti sæti í Íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins með áheyrnar- og tillögurétt  á sama hátt og fulltrúi íþróttahreyfingarinnar.

Ungmennaráð

Starfsemi ungmennaráða hafa víða um land gengið vel ekki síst hér í Hafnarfirði en hér var búið að koma á ungmennaráði löngu áður en ákvæði um slíkt kom í lög. Ungmennaráðið/in hér í bæ hafa ýmsu áorkað í gegnum árin.  Hinu er þó ekki að leyna að þegar að kemur að stóru málunum þá verður oft brestur á, ekki bara hér í firðinum heldur víðar þar sem ungmennaráð starfa. Það má velta fyrir sér hvers vegna ungmennaráð eru ekki höfð með í ráðum í stærri málum. Ég minnist mikils niðurskurðar til æskulýðsmála hér í bæ fyrir nokkrum árum. Á þeim tímapunkti sýndu hafnfirsk ungmenni sterka lýðræðisvitund, efndu til fjölmennrar mótmælagöngu og  sýndu hug sinn í verki.  Í þessu ljósi má velta fyrir sér hvers vegna er verið að tala um unglingalýðræði og til hvers er fyrirkomulag eins og Ungmennaráð  ef það hefur ekkert um brýn hagsmunamál ungs fólks að segja þegar virkilega á reynir? Mynd af brosandi stjórnmálamönnum og ungmennaráðum er vissulega hugguleg en hefur ekkert vægi umfram það ef starfsemi ráðanna fylgja ekki raunveruleg völd.

Lækkum kosningaaldur

Gæti verið að ungt fólk þ.e.a.s. þau sem ekki eru kjörgeng eigi sér í raun enga rödd eða málsvara í samfélaginu þegar að raunverulega blæs á móti?  Ég minnist þess fyrir allmörgum árum þegar að stjórnmálamenn fóru allt í einu að tala um framhaldsskólann sem var í velflestum tilfellum í beinu samhengi við lækkun kjörgengis í 18 ár. Getur verið að áherslur stjórnmálamanna miðist nær eingöngu við áhuga virkra atkvæða sbr. foreldramiðuð skólaumræða? Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka kjörgengi í 16 ára og jafnvel 15 ára aldur og með því gefa ungmennum raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á mótun samfélagsins, ekki síst nærsamfélagsins og á þau mál sem á þeim brennur. Unglingalýðræði í núverandi mynd virkar ekki þegar á móti blæs. Ég tel því einu raunhæfu leiðina að lækka kjörgengi og því fyrr því betra. Ég veit sem er að við slíkt myndu málefni unglinga ekki verða sú afgangsstærð í  þjóðfélaginu sem því miður oft vill verða. Það hefur ekkert samfélag efni á slíku fálæti og allra síst á tímum eins og þeim sem við lifum á.

Árni Guðmundsson M.Ed  félagsuppeldisfræðingur

Listin að lifa er að kunna að leika sér

ástrósÍ námi mínu í Tómstunda og félagsmálafræði er það með því fyrsta sem við lærum, hversu mikilvægur leikurinn er. Með því að brjóta upp kennslustundir með leikjum og aukinni hreyfingu, förum við út fyrir þægindahringinn okkar með jákvæðum hætti. Heilmikið nám fer í gegnum leikinn; unnið er með traust, samvinnu og hópefli svo eitthvað sé nefnt.

Það þykir ef til vill mörgum sérstakt að nemendur í háskóla skuli vera úti í leikjum í stað þess að sitja í kennslustund og hlusta á fyrirlestur. Í hvert skipti sem einhver spyr mig út í nám mitt fæ ég að heyra hvað það er alltaf gaman hjá mér og að við séum bara alltaf að leika okkur. Ég segi kannski ekki að við séum alltaf að leika okkur en við gerum hinsvegar mikið af því. Við lærum heilmargt um tómstundir barna, unglinga og aldraða og oftast nær snúa tómstundir að einhverju sem er skemmtilegt, vekur áhuga og eykur vellíðan.

Það er líka alveg rétt að námið mitt er ótrúlega skemmtilegt og fjölbreytt en auðvitað eru fullt af krefjandi verkefnum líka. Við gerum bara svo miklu meira en að sitja yfir námsbókum og hanga inni á bóksafni daginn út og inn.

Í íslenskri orðabók er leikur útskýrður svona: Að gera sér eða öðrum til skemmtunar. Athöfn sem veitir líkamlega og/eða andlega vellíðan. Dregur viðkomandi út úr reglubundnu munstri dagsins.

Þegar talað er um leik þá er þekkt að tengja leikinn við börn en þó er ekki síður mikilvægt fyrir unglinga og fullorðna að leika sér. Leikurinn felur í sér mikið þroskagildi fyrir einstaklinginn og litið er á leikinn sem verkfæri til náms og undirbúning fyrir fullorðinsárin.

Flest okkar ölumst upp við það að vera mikið í leikjum, hvort sem það eru úti eða innileikir. Mín æska einkenndist allaveganna mikið af því að vera úti í leikjum. Sumrin einkenndust af því að vera úti frá morgni til kvölds í leikjum og koma rétt svo inn til þess að borða og sofa. Börnin vaxa síðan úr grasi og verða að unglingum og þá kemur allt í einu tímabil þar sem það telst frekar hallærislegt að leika sér og unglingar kjósa frekar að hanga saman.

Mannfólkið er þannig gert að það þróast og lærir alla ævi. Þess vegna er mikilvægt að viðhalda leiknum svo lærdómurinn haldi áfram svo lengi sem við lifum. Það er mjög mikilvægt að varðveita barnið í sjálfum sér og taka lífinu ekki of alvarlega.

Í grunninn höfum við öll gaman af því að leika okkur og vil ég enda þessa grein á því að vitna í uppáhalds frasann minn: Við hættum ekki að leika okkur því við eldumst, við eldumst því við hættum að leika okkur.

Ástrós Pétursdóttir
nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.