Að viðhalda gæðum í starfi – Skiptir máli hvaðan peningarnir koma?

Ég átti áhugavert spjall við vinkonu mína sem kemur frá öðru landi en ég. Við eigum það sameiginlegt að vinna bæði með ungu fólki í frítímaþjónustu. Spjallið snéri að fjárveitingu til æskulýðsstarfs. Ekki hætta að lesa, þetta verður áhugavert þrátt fyrir þetta há pólitíska orð; fjárveiting.

Það er nefnilega þannig þar sem hún hafði starfað í sínu heimalandi, að þar var nánast ekkert æskulýðsstarf (e. Youth work) rekið með fjármunum frá sveitarfélögum eða ríkissjóði. Til þess að halda úti starfi þar þurfa samtök og stofnanir sem halda úti æskulýðsstarfi, að sækja um styrki frá öðrum stofnunum, sjóðum eða fyrirtækjum. Ef að þú kæri lesandi hefur nokkur tímann unnið styrkumsókn, veist þú að þar þarf ýmislegt að koma fram.

Gjarnan þarf að gera skilmerkilega grein fyrir þeim markmiðum sem þitt verkefni hefur að leiðarljósi. Í stuttu máli mætti segja, að þú þurfir að útskýra hvers vegna í ósköpunum styrkveitandinn eigi að treysta þér fyrir því að nýta fjármunina vel, þannig að þeir skili einhverju til samfélagsins. Í hennar heimalandi þurfa stofnanir og samtök að gera skýrar útlínur af sínu starfi áður en þau fá fjármagn. Þegar tímabilinu er síðan lokið þarf gjarnan að fylgja einhver skýrsla um það hvernig til tókst.

Þetta þótti henni þó síðra kerfi en það sem við vinnum eftir hér á landi, því er ég sammála. Ókostirnir við þetta fyrirkomulag eru kannski helst að þarna er ekki verið að tryggja öllum jafnt aðgengi að góðu æskulýðsstarfi, sem mér þykir mikilvægt að allir hafi. Þó situr eftir þetta með leiðarljósið. Þarna þurfa leiðtogar í æskulýðsstarfi sífellt að líta innávið og spyrja sig; fyrir hvað stöndum við? Af hverju ætti okkar æskulýðsstarf að fá þennan styrk? Þarna sýnist mér vera ákveðinn hvati fyrir því að viðhalda gæðum í starfi. Hvati sem er kannski ekki jafn skýr þegar það er nánast sjálfgefið að starfið sem þú heldur úti, verði ennþá til á næsta ári.

Ekki misskilja mig, ég er alls ekki að kasta skugga yfir það starf sem fer fram í tómstunda- og félagsmiðstöðvum á Íslandi. Ég veit að þar starfar fagfólk sem hugsar um gæði starfsins. Ég veit að í mörgum bæjarfélögum þarf reglulega að gera gæðamat á starfinu. En þú skilur kannski hvað ég er að benda á?

Vikum seinna fór ég í starfskynningu hjá velferðasviði sveitarfélags á Höfuðborgarsvæðinu. Það vakti margt áhuga minn við þeirra starf, sérstaklega að þar geta foreldrar valið hvaða skóla sveitarfélagsins sem er fyrir barnið sitt. Eins hefur þetta í mínum huga svipuð áhrif á þeirra starf, þarna þurfa þessar stofnanir sífellt að líta innávið og spyrja sig; hvers vegna ætti foreldri að vilja eiga barn í skólanum okkar? Hvers vegna ættu börn að velja að vera í því umhverfi sem við erum að búa til hér?

Ég hugsa í það minnsta að mér væri hollt sem leiðbeinandi, að horfa oftar innávið og velta þessu fyrir mér. Hvað ætla ég að standa fyrir? Er það alltaf það sama? Þarf ég að aðlaga mig að því sem er í gagni núna? Hvernig ætli sé hægt að gera þessa ígrundun að föstum hluta í öllu starfi, án þess þó að tilvera starfsins hangi á bláþræði, eins og í heimalandi vinkonu minnar?

Bergþór Bjarki Guðmundsson

Sjálfsmynd unglingsstúlkna

Sjálfsmynd unglingsstúlkna er málefni sem hefur verið mér mjög ofarlega í huga. Þetta er nú ekkert nýtt málefni, en í dag eru samfélagsmiðlar farnir að hafa gífurleg áhrif á þessar ungu stúlkur sem eru enn að þroskast og móta sjálfsmynd sína fyrir komandi framtíð. Ég tala nú ekki um alla þessa óheilbrigðu sjálfsdýrkun og að stelpur í dag setja varla inn mynd á miðla sína án þess að breyta henni allsvakalega, minnka þetta, stækka hitt og nánast búa til einhverja manneskju sem er ekki til, gefa henni nýtt útlit. Ég er á því að ansi margar af þessum snapchat, instagram eða samfélagsmiðla stjörnum séu alls ekki góðar fyrirmyndir og sérstaklega hvað varðar útlit.

En er það eitthvað sem við getum gert í ? Getum við bannað þessum markhópi að fylgjast með þessum samfélagsmiðlum og ekki leyft þeim að fylgjast með fjölmiðlum og tískublöðum sem nánast sérhæfa sig í að segja hvernig við eigum að vera og hvernig við eigum ekki að vera? Það finnst mér ansi ólíkleg lausn á þessu vandamáli. Mér finnst sorglegt hvað þetta hefur mikil áhrif á alltof margar stúlkur, hvað þetta er farið að vera alltof algengt vandamál í samfélaginu okkar. Megum við ekki bara vera eins og við erum, þurfum við alltaf að vera að reyna að vera eins og einhver annar?

Auðvita er þetta vissulega erfiður aldur og er mjög mikilvægt á þessum árum að maður falli inn í hópinn og sé ekki öðruvísi. Stelpur hafa því mikið fyrir því að reyna að vera eins og þær vinsælu og einnig farnar að líta alltof mikið upp til samfélagsmiðlastjarnanna. Útlit virðist vera unglingum mjög svo ofarlega í huga og því er mikilvægt að fylgja þeim normum.

Sjálf hef ég oft orðið vitni af óöryggi meðal unglinngsstúlkna sem eru að setja út á hitt og þetta hjá sjálfri sér og óska þess að þær væru öðruvísi en þær eru. Alltaf að bera sig saman við einhverja aðra og halda að þeim líði betur ef þær væru öðruvísi. Oft vildi ég að ég gæti haft áhrif á þessar ungu stúlkur á unglingsárum og auðvitað reyni ég mitt allra besta til að láta þeim líða vel í eigin skinni og vera bara eins og þær eru. Því jú öll erum við einstök eins og við erum. Þetta er eflaust eitthvað sem flestar stelpur muna eftir á unglingsárunum að hafa upplifað og sett út á sjálfa sig útaf þessum miklu kröfum gagnvart útliti og eflaust margar óskað þess að hafa verið grennri, haft stærri brjóst, stærri rass, minni læri svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknir hafa sýnt að samskiptamiðlar séu að hafa verulega slæm áhrif á unglingsstúlkur og séu að ýta undir bæði kvíða og þunglyndiseinkenni. Einnig er öll þessi símanotkun, þar með talin samskiptamiðlanotkun, farin að hafa verulega slæm áhrif á svefn unglinga, þar sem allt of margir eru gjörsamlega orðnir háðir símunum sínum og geta varla lagt þá frá sér allan sólahringinn. Þetta helst því miður alltof mikið í hendur, símarnir og óöryggi og vanlíðan hjá ungum stúlkum.

Berglind Dana Maríasdóttir

Hvernig nýtist námið fyrir tómstunda- og félagsmálafræðing?

Frítíminn er tíminn sem við eigum hvað mest af, tíminn sem við notum þegar við hittum vini, horfum á sjónvarpið eða jafnvel þegar við burstum tennurnar. Í raun og veru allur sá tími sem við verjum í lífi okkar utan svefns og vinnu. Þá er bara spurningin hvað þú ert að gera í frítímanum þínum? Hver hefur ekki heyrt einhvern segja „þessi, hann gerir ekki neitt annað en að spila tölvuleiki“ eða „hún er bara alltaf í símanum“. Það þarf ekki að líta lengra en í sinn eigin barm, til að sjá hvort maður sé að nýta þennan tíma í eitthvað uppbyggilegt eða ekki. Lesa meira “Hvernig nýtist námið fyrir tómstunda- og félagsmálafræðing?”

„Hvað meinaru?“

Er spurning sem ég er farin að fá oftar og oftar, og áherslan á „hvað meinaru“ ? verður sterkari og háværari með hækkandi unglingsaldri barnanna minna. Byrjaði sem saklaust „ha“? Þegar börnin voru rétt að byrja að tala, þá var „ha“ oftast svarið sem ég fékk við nánast öllu. „Af hverju“ orðasamsetningin kom svo á eftir „ha“ tímabilinu. Meira segja þegar þau vissu vel „af hverju“ þá var það eins og einhver þörf hjá þeim að bæta við „af hverju“? Lesa meira “„Hvað meinaru?“”

Unglingar: Inni eða úti?

„Þegar ég var unglingur hittumst við vinirnir úti, fórum í leiki og skemmtum okkur konunglega. Nú orðið er enga unglinga að sjá utandyra heldur hanga allir inni í tölvunni!“ Svipaða frasa fékk ég oft að heyra sem unglingur frá fullorðnu fólki þegar nostalgían hellist yfir og þeir fullorðnu fussa og sveia yfir unglingum nútímans. Og jú, fullorðna fólkið hefur eitthvað til síns máls þar sem tímarnir breytast og mennirnir með en er það svo slæmt? Vissulega fleygir tækninni fram og tölvur og símar bjóða upp á endalausa afþreyingu svo ég tali nú ekki um samfélagsmiðlana sem gerir fólki kleyft að eiga í samskiptum án þess að vera í sama rými. Það er því varla undarlegt að unga fólkið nýti þessa tækni og samskipti og hegðun þeirra breytist í kjölfarið. Lesa meira “Unglingar: Inni eða úti?”

Samskipti starfsfólks og unglinga innan félagsmiðstöðva

Unglingsárin er sá tími þar sem margar breytingar eiga sér stað, bæði líkamlega og andlega. Líkami unglinga þroskast, útlit þeirra breytist og nýjar og stórar tilfinningar kvikna, sem þau oft á tíðum ráða ekki við. Unglingar geta því verið viðkvæmir og tilfinningaríkir. Unglingsárin eru einnig tíminn þar sem unglingar eru að finna sjálfan sig, móta sjálfsmynd sína, skoðanir og viðhorf. Mikilvægt getur því verið fyrir unglinga að hafa góðan stuðning til að leita til og hafi góðar fyrirmyndir.

Tómstundir af einhverri sort eru mikilvægar fyrir unglinga, sama hvaða tilgangi þær gegna. Starfsemi tómstunda skiptir miklu máli og ekki síður starfsmenn hennar. Félagsmiðstöð er vettvangur fyrir unglinga til að koma saman og eiga í félagslegum samskiptum. Mikilvægt er því að þeim líði vel þar. Þar kemur hlutverk starfsfólks sterkt inn enda hafa rannsóknir sýnt að starfsfólk félagsmiðstöva hefur mikið að segja um viðhorf unglinga gagnvart félagsmiðstöðvum. Starf tómstundastarfsmanna í félagsmiðstöðvum getur verið gríðarlega mikilvægt. Þar sem mikið er talað um að starfsmenn innan félagsmiðstöðva nái oft mjög góðum samböndum við unglinga og öðruvísi tengslum heldur en foreldrar. Það er því mikilvægt að þeir viti hvað þau geta gert til að efla sjálfstraust og sjálfsmynd og hjálpað þeim að finna sig sem einstakling. Starfsmenn félagsmiðstöðvanna búa til það andrúmsloft sem ríkir í félagsmiðstöðinni þeirra og eiga að skapa stemmingu þar sem allir eru velkomnir.

Inni á félagsmiðstöðvum læra unglingar að koma vel fram við aðra, jákvæð samskipti og félagsfærni. Starfsmenn gegna lykilhlutverki þegar kemur að félagsmiðstöðvum þar sem þeir skipuleggja starfsemi fyrir unglingana og geta því haft áhrif á mætingu og þátttöku þeirra. Mikilvægt er því að starfsmenn hafi réttu verkfærin og hæfnina til að hjálpa unglingum út frá þörfum og áhugamálum hvers og eins. Unglingar eiga það til að miða sig við aðra í kringum sig og halda oft uppá starfsfólk innan félagsmiðstöðva. Þeir læra mikið af þeim og líta oft á þau sem fyrirmyndir og er því mikilvægt að þar séu góðar fyrirmyndir sem þeir leita til. Unglingar bera oft mikið traust til starfsfólks og ef unglingar eiga við eitthvað vandamál að stríða eru starfsmenn oft með þeim fyrstu sem þeir segja frá eða leita til.

Ég tók ekki mikinn þátt í tómstundum á mínum unglingsárum, sem ég sé mikið eftir í dag. En ég mætti nokkrum sinnum á opið hús hjá félagsmiðstöðinni minni sem voru nokkur virk kvöld á viku. Ef ég hugsa út frá minni reynslu eða mínu sjónarhorni hefði ég þurft einhvern sem hefði hjálpað mér að komast út úr skelinni þar sem ég var rosalega feimin og ýtt á mig til að mæta oftar. Ef starfsfólk í félagsmiðstöðvum nær að fylgjast með flestum unglingunum sem taka þátt í félagsstarfinu og sjá hvað þá vantar og geta hjálpað þeim er það frábært. Eftir að hafa fræðst um tómstundastarf og hvernig starfsemin fer fram sé ég hvað starfsmenn innan félagasmiðstöðva og annarra tómstunda fyrir unglinga eru gríðarlega mikilvægir. Þar sem þeir geta gegnt hlutverki ráðgjafa, vina, leiðbeinanda og fyrirmynda svo eitthvað sé nefnt, geta þeir skipt miklu máli í lífi unglinga. Þeir geta gert svo margt gott fyrir unglinga og hjálpað þeim að verða besta útgáfan af sjálfum sér.

Rakel Ingólfsdóttir