„Sá á Instagram að þú reykir og drekkur allar helgar“

Samfélagsmiðlar hafa verið mikið í umræðunnu síðustu ár. Í dag eru samfélagsmiðlar helsti samskiptamáti fólks. Stærstu miðlarnir eru Facebook, Instagram og TikTok. Það eru skiptar skoðanir á samfélagsmiðlum enda eru bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar sem að fylgja þeim. Það sem að félagsmiðstöðvar þurfa að takast á við og getur verið frekar flókið mál eru starfsmenn á samfélagsmiðlum.

Félagsmiðstöðvar nota mikið samfélagsmiðla í starfinu sínu. Instagram hefur verið hvað mest notað þegar kemur að starfi félagsmiðstöðva. Þar inn koma allar helstu upplýsingar til unglinganna, auglýsingar fyrir dagskrá og viðburði og skráningarform. Einnig er mjög auðvelt að hafa samband við félagsmiðstöðina í gegnum skilaboð. Sumir nota líka Instagram til þess að halda utan um klúbba- og hópastarf. Til þess að ná betur til unglingana og útskýra fyrirkomulag fyrir ákveðin viðburði eða hreinlega bara til þess að „peppa“ þá eru starfsmenn oft í forsvari á samfélagsmiðlunum, þá sérstaklega í ,,story” á Instagram og í myndböndum á TikTok. Þegar að unglingarnir sjá mjög reglulega starfsfólk félagsmiðsöðva á samfélagsmiðlum er hætta á því að þau upplifi það sem mjög eðlilegt að fara að fylgja þeim á þeirra persónulegu aðgöngum. Starfsfólkið verður að fígúru (e. figure) .

Starfsfólk félagsmiðstöva eru fyrirmyndir fyrir unglinga og sem er oft mjög vand með farið þegar verið er að ráða starfsfólk í flélagsmiðstöðvar. Gerðar eru kröfur á að starfsfólk beri virðingu fyrir öðrum, séu til fyrirmyndar í samskiptum með því að nota ekki niðrandi orðræðu ásamt því að þeir leiðbeini unglingum þegar þau geri eitthvað rangt. Starfsfólk félagsmiðstöva er oft ungt fólk sem notar mikið samfélagsmiðla og unglingarnir líta mikið upp til. Er ekki mikilvægt að starfsfólk sé líka til fyrirmyndar á samfélagsmiðlum? Að mínu mati finnst mér það mjög mikilvægt. Það er ábyrgð sem að fylgir því að vinna með börnum og unglingum og finnst mér að hún eigi að ná til samfélagsmiðla líka.

Ég velti því samt fyrir mér hvort að starfsstaðir geti krafist þess af starfsfólki sínu hvernig samfélagsmiðlum þeirra sé háttað, hvort það er að hafa þá opna eða lokaða aðganga eða hvað er óviðeigandi á samfélagsmiðlum? Klárlega ekki en það gæti verið sniðug lausn fyrir félagsmiðstöðvar að gera sáttmála meðal starfsmanna hverju sinni þar sem að umræðan er tekin um það hvaða hlutverki starfsfólk gegnir og biðji það um að vera meðvitað um það sem að það er að birta á samfélagsmiðlum.

—-

Guðmunda Bergsdóttir

 

 

Sjálfsmynd unglingsstúlkna

Sjálfsmynd unglingsstúlkna er málefni sem hefur verið mér mjög ofarlega í huga. Þetta er nú ekkert nýtt málefni, en í dag eru samfélagsmiðlar farnir að hafa gífurleg áhrif á þessar ungu stúlkur sem eru enn að þroskast og móta sjálfsmynd sína fyrir komandi framtíð. Ég tala nú ekki um alla þessa óheilbrigðu sjálfsdýrkun og að stelpur í dag setja varla inn mynd á miðla sína án þess að breyta henni allsvakalega, minnka þetta, stækka hitt og nánast búa til einhverja manneskju sem er ekki til, gefa henni nýtt útlit. Ég er á því að ansi margar af þessum snapchat, instagram eða samfélagsmiðla stjörnum séu alls ekki góðar fyrirmyndir og sérstaklega hvað varðar útlit.

En er það eitthvað sem við getum gert í ? Getum við bannað þessum markhópi að fylgjast með þessum samfélagsmiðlum og ekki leyft þeim að fylgjast með fjölmiðlum og tískublöðum sem nánast sérhæfa sig í að segja hvernig við eigum að vera og hvernig við eigum ekki að vera? Það finnst mér ansi ólíkleg lausn á þessu vandamáli. Mér finnst sorglegt hvað þetta hefur mikil áhrif á alltof margar stúlkur, hvað þetta er farið að vera alltof algengt vandamál í samfélaginu okkar. Megum við ekki bara vera eins og við erum, þurfum við alltaf að vera að reyna að vera eins og einhver annar?

Auðvita er þetta vissulega erfiður aldur og er mjög mikilvægt á þessum árum að maður falli inn í hópinn og sé ekki öðruvísi. Stelpur hafa því mikið fyrir því að reyna að vera eins og þær vinsælu og einnig farnar að líta alltof mikið upp til samfélagsmiðlastjarnanna. Útlit virðist vera unglingum mjög svo ofarlega í huga og því er mikilvægt að fylgja þeim normum.

Sjálf hef ég oft orðið vitni af óöryggi meðal unglinngsstúlkna sem eru að setja út á hitt og þetta hjá sjálfri sér og óska þess að þær væru öðruvísi en þær eru. Alltaf að bera sig saman við einhverja aðra og halda að þeim líði betur ef þær væru öðruvísi. Oft vildi ég að ég gæti haft áhrif á þessar ungu stúlkur á unglingsárum og auðvitað reyni ég mitt allra besta til að láta þeim líða vel í eigin skinni og vera bara eins og þær eru. Því jú öll erum við einstök eins og við erum. Þetta er eflaust eitthvað sem flestar stelpur muna eftir á unglingsárunum að hafa upplifað og sett út á sjálfa sig útaf þessum miklu kröfum gagnvart útliti og eflaust margar óskað þess að hafa verið grennri, haft stærri brjóst, stærri rass, minni læri svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknir hafa sýnt að samskiptamiðlar séu að hafa verulega slæm áhrif á unglingsstúlkur og séu að ýta undir bæði kvíða og þunglyndiseinkenni. Einnig er öll þessi símanotkun, þar með talin samskiptamiðlanotkun, farin að hafa verulega slæm áhrif á svefn unglinga, þar sem allt of margir eru gjörsamlega orðnir háðir símunum sínum og geta varla lagt þá frá sér allan sólahringinn. Þetta helst því miður alltof mikið í hendur, símarnir og óöryggi og vanlíðan hjá ungum stúlkum.

Berglind Dana Maríasdóttir