Femínstar hafa alltaf verið umdeildir. Það er þá líklega helst vegna þeirra róttæku aðgerða sem þeir reglulega grípa til. Slíkar aðgerðir eru nauðsynlegar til þess að hreyfa við fólki og halda því við efnið. En við verðum einnig að staldra aðeins við og vera meðvituð um það hvenær við erum komin að velsæmismörkum og hafa það klárt hver skilaboðin eru sem við ætlum okkur að koma á framfæri.
Brjóstabyltingin var herferð sterkra ungra kvenna sem snerist um samstöðu og sjálfsákvörðunarrétt. Í herferðinni beruðu konur brjóst sín til merkis um það að brjóst kvenna eru ekki kynfæri frekar en brjóst karla. Þær ættu þ.a.l. að hafa val um að bera þau eða ekki án afskipta almennings og fóru konurnar saman í hópum, berar að ofan, m.a. í sund og sátu á Austurvelli. Í kjölfarið birtu margar fullvaxta, sjálfráða, konur myndir af brjóstum sínum á facebook. Lesa meira “Hvað má og hvað má ekki?”
Tag: Unglingar
Hrelliklám og netnotkun unglinga
Unglingar í dag eru mjög uppteknir af því sem er að gerast á samfélagsmiðlum, það uppteknir af því að missa ekki af neinu þar að þau missa stundum tengsl við sitt daglega líf og virðast meira í netheimum með hugann en í sínu raunverulega lífi. Mestu máli virðist skipta að eiga sem flesta netvini og fá eins mörg „like” og hægt er á það sem maður „póstar” þar inn.
Rafrænt einelti er mjög algengt, algengara en við gerum okkur grein fyrir. Gerendum eineltis virðist oft finnast auðveldara að ráðast á fórnalambið í gegnum tölvuskjá frekar en að horfast í augu við þann sem verið er að leggja í einelti.
Oft á tíðum eru skilaboðin jafnvel nafnlaus. Ef einstaklingurinn er ekki með því betri sjálfsmynd og sjálfstraust getur þetta einelti haft mjög alvarlegar afleiðingar. Þær upplýsingar sem ratað hafa á netið um einstaklinginn eins og til dæmis myndir eru komnar til að vera. Mjög erfitt er að fjarlæga af netinu það sem einu sinni er komið þar inn. Lesa meira “Hrelliklám og netnotkun unglinga”
2 bollar hvatning, 1 bolli tækifæri, fyllið upp með leikgleði og hrærið vel!
Kannski er ég með óráði að ganga plankann sjálfviljug að hætta mér inn í umræðuna um getuskiptingu, sérhæfingu, afreksstefnur og fleira en ég held nú samt áfram að ganga með dirfsku og einlægni að vopni. Nú starfa ég sem handknattleiksþjálfari samhliða námi mínu í tómstunda- og félagsmálafræði og hef eftir fremsta megni reynt að sinna því ábyrgðarhlutverki með sæmd og af virðingu. Stúlkurnar sem að ég þjálfa eru í 7.-8. bekk og verð ég að teljast afar heppin að fá að starfa með jafn skemmtilegum, flottum og metnaðarfullum stelpum. Það er hinsvegar fyrir hvert mót þegar komið er að því að tilkynna liðaskiptinguna að mér kemur það til hugar að halda til fjalla, finna mér helli og vera þar um sinn þar til vikan fyrir mót er afstaðin.
Lesa meira “2 bollar hvatning, 1 bolli tækifæri, fyllið upp með leikgleði og hrærið vel!”
Að vera unglingur á gervihnattaöld
Upp úr þrítugsaldrinum eru mörg okkar farin að gleyma því að eitt sinn vorum við unglingar. Við höfum gleymt því að þegar við vorum á þeim aldri fannst okkur allir þeir sem væru þrítugir, eða eldri, væru orðnir óttalega gamlir og ekki langt í dvölina á elliheimilinu. Þetta hefur verið svona og verður væntanlega alltaf svona. Hver kannast ekki við það? Nýjasta dæmið um áhyggjur okkar fullorðna fólksins af unga fólkinu er notkun þeirra á snjalltækjum. Til að mynda er mikið rætt um mikla notkun snjallsíma og að frítími unga fólksins fari allur í að skoða samfélagsmiðla á vefnum. Við teljum að unga fólkið sé hætt að tala saman, nema þá í gegnum netið. Á sama tíma heyrast háværar raddir í samfélaginu um að allir skólar ættu nú að spjaldtölvuvæðast. Erum það við fullorðna fólkið eða eru það unglingarnir sem krefjast þess? Lesa meira “Að vera unglingur á gervihnattaöld”
Nútímaunglingurinn
Það þekkja allir þá umræðu þegar eldra fólk byrjar á að segja að ungt fólk nú til dags sé að fara til fjandans. En ef við lítum betur á þetta er það kannski ekki rétt. Þegar við berum saman sýn margra á unglinga í dag myndu margir segja að þau væru löt, alltaf í símanum eða tölvunni og hefðu enga sýn á lífið. En svona alhæfingar eiga náttúrulega aldrei að vera til staðar. Frá eigin sjónarhorni finnst mér unglingar í dag mun þroskaðri og mun betri fyrirmyndir heldur en þegar ég var sjálfur unglingur. Náttúrulega þekki ég ekki alla unglinga á Íslandi svo ég er að miða við þann hóp sem er sýnilegur. En ef við lítum á heildarmyndina þá gæti það samt verið rétt.
Hvar get ég byrjað… Lesa meira “Nútímaunglingurinn”
Vissir þú þetta um félagsmiðstöðvastarfsmenn?
Félagsmiðstöðvar hafa verið til í einhverri mynd síðan 1956 sem afdrep fyrir unglinga. Undanfarin ár hefur orðið gífurleg þróun í starfi félagsmiðstöðva, allavega í Reykjavík, og fagstarfið sem þar er unnið skákar oft á tíðum því sem best gerist annars staðar í heiminum. Undirritaður hefur rekið sig á stórskemmtilega fordóma gagnvart starfi félagsmiðstöðva og bakgrunn félagsmiðstöðvarstarfsmanna; talið að þeir séu bara að leika sér og jafnvel í einhverri pattstöðu í lifinu. Því fer ansi fjarri raunveruleikanum.
Vissir þú að…
… forstöðumaður félagsmiðstöðvar þarf að hafa lokið háskólaprófi á uppeldissviði?
… félagsmiðstöðvarstarfsmenn ná stundum að mynda tengsl og vera betur meðvitaðir um félagslegan bakgrunn unglinganna en foreldrar þeirra?
… foreldrar unglinga í vímuefnavanda leita stundum til félagsmiðstöðvastarfsmanna í úrræðaleysi sínu til að reyna tjónka við unglingi?
… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru stundum einu aðilarnir sem unglingurinn treystir fyrir vandamálum og vangaveltum sínum?
… barnavernd fær einna flestar tilkynningar frá félagsmiðstöðvum (enda ber þeim skylda að tilkynna skv. tilkynningarskyldu) á eftir lögreglu?
… í sumum hverfum Reykjavíkur leggja nánast allir unglingar leið sína í félagsmiðstöðina einhverntíman yfir skólaárið en að ca helmingur reykvískra unglinga mætir vikulega eða oftar?
… félagsmiðstöðvar í Reykjavík fara eftir þremur höfuðgildum; forvarnargildum, menntunargildum og afþreyingargildum. Og að allt starf er skipulagt með þessi gildi að leiðarljósi?
… allir nýir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík fara á grunnnámskeið um starfsemi félagsmiðstöðva, skyndihjálparnámskeið og fræðsludag um verklag í félagsmiðstöðvum. Auk þess að forstöðumaður handleiðir nýjan starfsmann markvisst inn í starfið eftir móttökuáætlun félagsmiðstöðvarinnar?
… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru oft meðvitaðri um félagslega stöðu unglinga en margir aðrir í umhverfinu þeirra?
… félagsmiðstöðvar eru með facebook-síður og einn tilgangur þess er að fylgjast með netvenjum unglinganna og grípa inn óviðeigandi í aðstæður?
… hver einasta félagsmiðstöð í Reykjavík rýnir í rannsóknir um hagi og líðan unglinga í sínu hverfi og skipuleggur starfsemina út frá þeim?
… hugsanlega er hvergi að finna jafn margar verklagsáætlanir og í starfi félagsmiðstöðva?
… flestir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík eru í eða hafa lokið háskólanámi?
… þessi listi gæti verið miklu lengri?
Með þessum orðum hnykki ég á því að félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru ekki að gera bara eitthvað í sínu starfi. Þeir eru fagmenn fram í fingurgóma að vinna markvisst fagsstarf í viðleitni sinni til að skila sjálfsstæðum, sjálfsöruggum, umburðarlyndum og lífsglöðum einstaklingum út í lífið. Og það sem meira er; flestir félagsmiðstöðvarstarfsmenn elska vinnuna sína.
Þorsteinn V. Einarsson
Deildarstjóri unglingastarfs
Frístundamiðstöðin Kampur