Hagó/Való – Való/Hagó

gissur ariValhúsaskóli og Hagaskóli eru gagnfræðaskólar sem eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu, Hagaskóli í Vesturbænum í Reykjavík og Valhúsaskóli á Seltjarnarnesi. Þetta eru nágrannaskólar og hefur verið nettur rígur þeirra á milli allt frá því að Valhúsaskóli var stofnaður, árið 1974. Ástæðan fyrir þessum ríg er að mínu mati fyrst og fremst sú staðreynd að í þessum hverfum eru tvö íþróttafélög, Grótta og KR. Það er innstimplað í Vesturbæinga og Seltirninga strax á barnsaldri að þegar þessi lið mætast viltu ekki bíða lægri hlut. Þó svo að Grótta og KR séu ekki að keppa mikið hvort við annað í meistaraflokkum félaganna, þar sem KR hefur talsvert betra fótboltalið en Grótta og Grótta hefur yfirhöndina í handboltanum. Á hverju ári mætast þessir skólar á Hagó-Való deginum og keppa þar í hinum ýmsu íþróttagreinum þar sem ekkert er gefið eftir.

Þessi dagur var fyrst settur á laggirnar árið 2009 og hefur verið haldinn árlega síðan þá. Dagurinn kom til sögunnar að frumkvæði nemenda skólanna og er hann skipulagður alfarið af þeim í samráði við starfsmenn Selsins og Frostaskjóls. Dagurinn er að mestu leyti skipulagður af nemendaráðum skólanna og svipar þetta mjög til VÍ-MR/MR-VÍ dagsins sem Menntaskólinn í Reykjavík og Verzlunarskóli Íslands hafa haldið í áraraðir. Keppnisgreinar á deginum eru nokkrar og er mismunandi milli ára í hverju er keppt. Þó eru nokkrar fastar keppnisgreinar á borð við fótbolta, handbolta, körfubolta, þrautabraut, kappát og reipitog. Í ár bættist við ný keppnisgrein en það var keppni í hópdans sem var hápunktur dagsins að margra mati. Um kvöldið er síðan ræðukeppni á milli skólanna og loks er kvöldið kórónað með sameiginlegu balli í Hagaskóla.

Stigatalningu er þannig háttað að skólarnir hljóta ákveðin mörg stig fyrir að vinna viðburði en langflest stigin eru í boði fyrir að vinna ræðukeppnina. Að vinna hana er eins og að finna gullnu eldinguna í Quidditch leik. Úrslit Hagó/Való hafa verið nokkuð mismunandi en fyrstu tvö árin fór Valhúsaskóli með sigur af hólmi en hefur þó ekki séð til sólar síðan þá. Hagaskóli hefur nefnilega unnið öll ár síðan þá og var því sigur þeirra í ár sá sjötti í röðinni. Þetta er stór biti fyrir Valhýsinga að kyngja og efast ég ekki um að þeir mæti tvíefldir til leiks á næsta ári.

Unglingar beggja skóla njóta gríðarlega góðs af þessum degi og er hann ótrúlega góður skóli fyrir alla þá sem að honum koma. Hvort sem þú tekur þátt í skipulagningu á deginum og hlýtur þar mikla reynslu af viðburðastjórnun, tekur þátt í ræðukeppni og öllum þeim undirbúning sem því fylgir eða ert einfaldlega að spila fótbolta fyrir framan troðfullar stúkur, ertu alltaf að prófa eitthvað alveg glænýtt. Unglingarnir eru að stækka þægindarammann sinn og þarna fá þeir frábært tækifæri til þess að taka þátt í viðburði með flottri umgjörð. Umgjörðin á þessum degi er til fyrirmyndar og mætti halda að um bikarúrslitaleik í meistaraflokk sé að ræða í öllum keppnisgreinum íþróttadagsins.

Hagó-Való dagurinn eflir einnig stemmninguna í skólunum og er þetta gott tækifæri fyrir nemendur skólanna til þess að taka saman höndum og styðja sitt fólk áfram. Það er vægast sagt magnað að fylgjast með nemendum á þessum degi og þeirri stemningu sem myndast.

Gissur Ari Kristinsson, starfsmaður í félagsmiðstöð og nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ.