Listgreinar í grunnskóla

ingibjorg olafsMikil áhersla er lögð á sköpun í Aðalnámskrá grunnskóla sem kórónast í sérstökum grunnþætti tileinkuðum sköpun. Þar kemur fram að sköpun byggi á gagnrýnni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skipti sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Listgreinar eru til þess ætlaðar að opna víddir þar sem sköpunargleði barna og unglinga fær að njóta sín. Þá segir í námskránni að sköpun sé mikilvægur grunnur að því að horfa til framtíðar og móta sér framtíðarsýn, taka þátt í mótun lýðræðissamfélags og skapa sér hlutverk innan þess. Í Aðalnámskrá eru lögð fram sérstök hæfniviðmið fyrir fjórar megin listgreinar, þ.e. dans og leiklist, sjónlistir og tónmennt. Þar er undirstrikað mikilvægi þessara greina í undirbúningi nemenda til þátttöku í samfélagi.

Eins og sjá má þá er mikið gert úr mikilvægi öflugrar listgreinakennslu í Aðalnámskrá grunnskóla. En er þessi ríka áhersla að skila sér inn í sjálft skólastarfið? Ég leyfi mér að efast um það, einna helst vegna minnar eigin reynslu. Þó kann að vera að öflug kennsla fari fram víðast hvar í fjölmennari skólum landsins þar sem menntaðir listgreinakennarar sjá um kennslu í sinni faggrein en í minni skólum út á landi er ég hrædd um að allt annað sé uppá teningnum. Sökum nemendafæðar neyðast kennarar til að taka að sér fleiri greinar en þær sem þeir hafa sérhæft sig í og það kann að fæla listgreinakennara frá.

Mér finnst að efla mætti listgreinanámið til muna. Til að geta uppfyllt markmið Aðalnámskrár á borð við að geta greint hvernig samtímalist fæst við álitamálefni daglegs lífs eða túlkað listaverk og hönnun með tilvísun í eigin reynslu, nærumhverfis og fagurfræði þá þarf nemendum að standa til boða nám sem stuðlar að þessum hæfniviðmiðum. Myndlist er t.a.m. ekki einungis þrívíddarteikningar á blaði og pensilslettur á striga líkt og mín reynsla ber með sér. Efla þarf listgreinakennsluna þannig að hún nýtist nemendum í að skoða og skilgreina umhverfi sitt. Gera þarf kennsluefni eins og listasögu aðgengilegt og áhugahvetjandi fyrir nemendur grunnskóla. Bjóða verður nemendum uppá ferðir í listasöfn, tónleika eða leiksýningar og vinna svo með þær upplifanir áfram þegar heim er komið.

Hvernig væri að bjóða nemendum uppá kennslu í viðburðarstjórnun tengdum listgreinum? Nám þar sem þau finndu fyrir ábyrgð og kveikti jafnvel áhuga einhverra á að mennta sig áfram á þeirri braut. Sumir eru drífandi að eðlisfari en aðrir þurfa aðstoð og tækifæri til að láta ljós sitt skína. Menntagildi listgreina er ótæmandi og möguleikarnir ótal margir.

Ég held að það sé mikilvægt að skólasamfélagið gyrði sig í brók og nýti til fullnustu þá hæfileikaríku listgreinakennara sem til staðar eru og gefi þeim aukið frelsi, stuðning og svigrúm til að efla listgreinakennsluna í landinu. Efla þarf ímynd listgreinakennslu og færa til vegs og virðingar og upp úr djúpum hjólförum þeirrar hugmyndar að hún séu einungis skemmtileg tilbreyting á hefðbundnu skólastarfi. Einungis þannig verður unnt að ná þeim markmiðum sem lagt er upp með í Aðalnámskrá grunnskóla. Nemendur verða að geta upplifað raunverulegt gagn og ánægju listgreina í þeirra eigin lífi og möguleikana sem þær hafa til að spila stórt hlutverk í þeirra eigin sögu þegar fram líða stundir. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi!

Ingibjörg Ólafsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands