Hvað má og hvað má ekki?

sunna ottósdóttirFemínstar hafa alltaf verið umdeildir. Það er þá líklega helst vegna þeirra róttæku aðgerða sem þeir reglulega grípa til. Slíkar aðgerðir eru nauðsynlegar til þess að hreyfa við fólki og halda því við efnið. En við verðum einnig að staldra aðeins við og vera meðvituð um það hvenær við erum komin að velsæmismörkum og hafa það klárt hver skilaboðin eru sem við ætlum okkur að koma á framfæri.
Brjóstabyltingin var herferð sterkra ungra kvenna sem snerist um samstöðu og sjálfsákvörðunarrétt. Í herferðinni beruðu konur brjóst sín til merkis um það að brjóst kvenna eru ekki kynfæri frekar en brjóst karla. Þær ættu þ.a.l. að hafa val um að bera þau eða ekki án afskipta almennings og fóru konurnar saman í hópum, berar að ofan, m.a. í sund og sátu á Austurvelli. Í kjölfarið birtu margar fullvaxta, sjálfráða, konur myndir af brjóstum sínum á facebook.

Þessi bylting fór að sjálfsögðu ekki framhjá virkustu notendum samskiptamiðlanna, þ.e.a.s. unglingunum og fóru óharðnaðar unglingsstelpur einnig að taka myndir af sér og birta opinberlega – eðlilega. Á sama tíma og þetta gerist eru skólarnir með mikla forvarnafræðslu um það hversu hratt efni getur dreifst um netheimana. Það sem sett er á netið verður ekki aftur tekið. Það eru því ansi villandi skilaboð þegar fyrirmyndirnar, frænkur, mæður, eldri systur og fleiri setja svo myndir af sér berbrjósta á netið.

Reykjavíkurdætur voru í brennidepli fyrir nokkrum vikum eftir djarft atriði þeirra í Vikunni, yfirferðafréttaþætti Gísla Marteins. Um er að ræða rappsveit ungra kvenna sem samanstendur af hópi femínista sem hafa farið sínar leiðir í jafnréttisbaráttu sinni. Þær eru töffarar sem hafa hlotið hylli margra byltingarsinnaðra femínista. Stúlknarappsveitin var vissulega orðljót í flutningi sínum á umdeildu atriði, eins og tíðkast í nútímatónlist, en það sem vakti mesta athygli var að einn meðlimur sveitarinnar beraði kynfæri sín í sjónvarpinu. Já kynfærin, semsagt píkuna, ekki brjóstin.
En hver voru skilaboðin í þessu atriði, eru píkur nú ekki heldur kynfæri frekar en typpi og ekkert persónlegt við þau? Snýst þetta um sjálfsákvörðunarrétt og að nú eigi einnig að vera í lagi að ganga um ber að neðan á almannafæri ef maður kýs svo?

Í þessu samhengi get ég ekki annað en hugsað til óharðnaðra unglinga sem sjá þetta og átta sig með engu móti á skilaboðunum. Ef þú ert fullorðin máttu vera berbrjósta, þú mátt taka myndir af þér og senda um netið, en ekki ef þú ert unglingur. Ef þú ert fullorðinn máttu sýna kynfærin þín hverjum sem er, spranga um nakin hvar sem er – meira að segja í sjónvarpinu. En á meðan þú ert ungur eru þetta þínir einkastaðir og maður girðir ekki niður um sig á almannafæri!

Erum við ekki aðeins að tapa þræðinum hérna, er siðferði að detta úr tísku eða hvað er að frétta?

Til þess að hjálpa unglingunum okkar að fóta sig er gríðarlega mikilvægt að við áttum okkur á hversu miklar fyrirmyndir við erum og tökum aðeins mið af því hver er stærsti „kúnnahópurinn“. Skilaboðin verða að vera þó nokkuð skýrari og ósanngjarnt að banna eitthvað ef við gerum það sjálf.

Sunna Ottósdóttir, nemi í tómstunda-og félagsmálafræði HÍ.