Hrelliklám og netnotkun unglinga

Renata_ZdravkovicUnglingar í dag eru mjög uppteknir af því sem er að gerast á samfélagsmiðlum, það uppteknir af því að missa ekki af neinu þar að þau missa stundum tengsl við sitt daglega líf og virðast meira í netheimum með hugann en í sínu raunverulega lífi. Mestu máli virðist skipta að eiga sem flesta netvini og fá eins mörg „like” og hægt er á það sem maður „póstar” þar inn.

Rafrænt einelti er mjög algengt, algengara en við gerum okkur grein fyrir. Gerendum eineltis virðist oft finnast auðveldara að ráðast á fórnalambið í gegnum tölvuskjá frekar en að horfast í augu við þann sem verið er að leggja í einelti.
Oft á tíðum eru skilaboðin jafnvel nafnlaus. Ef einstaklingurinn er ekki með því betri sjálfsmynd og sjálfstraust getur þetta einelti haft mjög alvarlegar afleiðingar. Þær upplýsingar sem ratað hafa á netið um einstaklinginn eins og til dæmis myndir eru komnar til að vera. Mjög erfitt er að fjarlæga af netinu það sem einu sinni er komið þar inn.

Ein birtingarmynd eineltis á netinu er svokallað hrelliklám eða „klám án samþykkis“. Það hefur verið skilgreint sem dreifing á óæskilegu efni eins og kynferðislegra mynda, upptaka og myndbanda án samþykkis þess sem á þessum myndum eru og án nokkurs lögmæts tilgangs. Oft hefur hugtakið „hefndarklám“ verið notað til að vísa til kláms sem birtist án samþykkis þess sem á myndefninu er. Hrelliklám eða hefndarklám er ný birtingarmynd ofbeldis þar sem efni sem tekið er í trúnaði eða án vitundar þess sem er á myndinni er sett í dreifingu á netinu.

„Hefndarklám“ dregur heiti sitt af algengri birtingarmynd kynferðislegs netáreitis, en almennt hefur það verið notað yfir það þegar einstaklingar birta klámfengið myndefni af fyrrverandi mökum sínum án samþykkis í hefndarskyni. Ástæðurnar sem liggja að baki þvílíkum myndbirtingum eru þó fjölbreyttar og því villandi að beita orðinu „hefndarklám“ til að vísa til birtingar á viðkvæmu efni án samþykkis. Hugtakið „hefndarklám“ felur í sér að aðili sem dreifir klámi án samþykkis hafi eitthvað til að hefna sín fyrir en raunin er ekki svo.

Það er um 50% af fólki milli 14 og 24 ára sem hefur lent í stafrænni misnotkun, um 12% hafa sent eða fengið sendar óæskilegar nektarmyndirnog aðrir fengið hótanir um að myndir af þeim verið settar á netið (Bjarney Friðriksdóttir, 2014). Þeir einstaklingar sem sögðu frá hótununum töluðu um að þau hefðu velt fyrir sér að taka eigið líf frekar en að láta birta af sér myndir. Það að lenda í hrelliklámi eða öðru einelti á netinu getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk og þá sér í lagi ungt fólk sem er að hefja lífið og móta sinn persónuleika og finna út hver þau eru. Þunglyndi, kvíði, lífsleiði og mikil vanlíðan eru dæmi um þær afleiðingar sem geta orðið ef einstaklingur lendir í slíkum ofsóknum.

Ýmislegt er hægt að gera til þess að sporna við hrelliklámi þó það geti verið flókið og tekið langan tíma að uppræta það. Margar þjóðir hafa sett bann við hrelliklámi með lögum en flestar þjóðir hafa enþá enga löggjöf sem tekur á hrelliklámi. Þolendur eru nú þegar til staðar hvað sem löggjöfinni líður og mikilvægt er að öll þjóðríki bregðist við þessari nýju ógn.

Hrelliklám, kynbundið ofbeldi eða mismunun kynjanna má ekki verða eðlilegur veruleiki í netheimum frekar en annars staðar og við þurfum að vera óhrædd við að takast á við það verkefni, hvort sem við nýtum til þess fræðslu, lagasetningu eða breyttar leikreglur á internetinu. Jafnrétti kynjanna þarf að gilda alls staðar, alltaf.

_____
Renata Zdravkovic, nemi við Háskóla Íslands

Bjarney Friðriksdóttir (2014). Greining: Hatursorðræða í ummælakerfum íslenskra netfréttamiðla. Reykjavík: Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar.