2 bollar hvatning, 1 bolli tækifæri, fyllið upp með leikgleði og hrærið vel!

anna liljaKannski er ég með óráði að ganga plankann sjálfviljug að hætta mér inn í umræðuna um getuskiptingu, sérhæfingu, afreksstefnur og fleira en ég held nú samt áfram að ganga með dirfsku og einlægni að vopni. Nú starfa ég sem handknattleiksþjálfari samhliða námi mínu í tómstunda- og félagsmálafræði og hef eftir fremsta megni reynt að sinna því ábyrgðarhlutverki með sæmd og af virðingu. Stúlkurnar sem að ég þjálfa eru í 7.-8. bekk og verð ég að teljast afar heppin að fá að starfa með jafn skemmtilegum, flottum og metnaðarfullum stelpum. Það er hinsvegar fyrir hvert mót þegar komið er að því að tilkynna liðaskiptinguna að mér kemur það til hugar að halda til fjalla, finna mér helli og vera þar um sinn þar til vikan fyrir mót er afstaðin.

Það er nefnilega þannig að íþróttasérsambönd biðja þjálfara um að skrá inn lið eftir styrkleika, þ.e. getuskipta iðkendum sínum í lið.  Hérlendis er þetta fyrirkomulag við lýði í mörgum íþróttagreinum þ.e. getuskipt frá 6 ára aldri jafnvel þó svo að þar séu úrslit hvorki skráð né mörk/stig talin. Skiptingin reynist mér á tíðum afar erfið og að þurfa að útskýra fyrir iðkanda afhverju hún/hann er í liði 2 eða 3 er oft afar viðkvæmt, torvelt og gamanlaust!

Keppni í íþróttum barna hefst að mínu mati allt of snemma hérlendis. Það orsakar getuskiptinguna umtöluðu og margumræddu. Það hefur sannað sig að slíkt fyrirkomulag er ekki öllum í hag og getur haft  í för með sér víðtæk áhrif fyrir einstaklingana í því kerfi.

Ekki misskilja mig. Ég er ekki að segja að við eigum að sniðganga þann mannlega eiginleika að vilja vinna, alls ekki. Það er samt mikið svigrúm til þess að bæta það fyrirkomulag sem er við lýði í dag. Það er þó miður að rannsóknir sýna að 22% barna í 5. bekk grunnskóla hafa hætt íþróttaiðkun vegna þess að samkeppni við aðra var of mikil (Álfgeir Logi Kristjánsson, Hrefna Pálsdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon, 2011). Þegar börn og unglingar eru spurð að því hvers vegna þau séu að æfa sína íþrótt eru svörin að langstærstum hluta þess eðlis að þeim finnist gaman á æfingum, vilji vera með vinum og finnist íþróttin skemmtileg. Mikill minnihluti hefur ritað í stein á unga aldri að hún/hann ætli að verða atvinnumaður í sinni íþrótt. Við verðum að hafa hag allra barna að leiðarljósi í skipulögðu íþróttastarfi fyrir þau.

Íþróttaiðkun barna snýst um:

  • margskonar andlega og líkamlega ávinninga.
  • hreyfingu
  • að þroska hin ýmsu uppeldislegu gildi s.s. að fylgja leikreglum, bera virðingu fyrir andstæðingi, vinna og tapa, leikskilning og hugsun og lausnamiðað hugarfar.
  • að einstaklingur tilheyri hópi og fái notið sín á eigin forendum.
  • uppeldi æskunnar í víðasta skilningi þeirra orða
  • skapa börnum vettvang fyrir jákvæðan og heilbrigðan lífstíl. Sá þáttur kemur til með að fylgja þeim fram á fullorðinsárin ef vel tekst.

Meðvituð um þessi jákvæðu og uppbyggilegu áhrif sem íþróttaiðkun barna getur haft á þau velti ég því fyrir mér hvernig við getum skapað jákvætt umhverfi fyrir öll börn í hvaða íþrótt sem þau kunna að velja sér. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki allir iðkendur ætla sér að verða afreksmenn í sinni íþrótt og því er mikilvægt að koma til móts við þarfir og óskum allra.

Það getur margt spilað inn í getu barna þ.e. hvort að þeir séu dugmiklir eða duglitlir á vellinum. Einn þeirra þátta eru t.d. fæðingadagsáhrif. Það getur skipt miklu máli fyrir getu iðkandans í íþróttinni hvenær á árinu hann fæddur. Börn eru misgömul í mánuðum talið þó svo að þau séu fædd sama ár og allt að ársmunur getur verið á milli “jafnaldra”. Þessi ársmunur getur spilað inn í og haft heilmikil áhrif á þætti eins og hæð, þyngd, styrk, hraða, þol, og samhæfingu.

Semsagt, börn sem eru fædd fyrr á árinu munu að jafnaði sýna betri frammistöðu í boltaíþróttum að minnsta kosti heldur en þau sem fædd eru seinna sama árs skv. rannsóknum. Gífurlegur munur getur verið á hreyfiþroska barna eftir því hvar á árinu þau eru fædd og oft liggur getumunurinn í íþróttinni helst þar. Við vitum aldrei hvenær börn og unglingar taka út sinn þroska og springa út en það er mikilvægt að skapa íþróttaumhverfi fyrir alla að dvelja í, óháð getu.

Með þetta í huga velti ég því fyrir mér hvort að seinka megi keppnisáherslunni og þar með getuskiptingunni um einhver ár, jafnvel að 12-13 ára aldri og seinna. Með því má gera ráð fyrir að það skapist umhverfi þar sem að leikgleðin, skemmtun, félagsskapurinn og hreyfingin verði í forgrunni í stað sigra í einstökum keppnum. Þá væri hægt að t.d. draga í lið, hafa leiki á æfingu sem að ákvarða lið og fleira í þeim dúr og þar með seinka getuskiptingunni umtalsvert auk þess að sérhæfingu í íþróttum barna myndi seinka samhliða minni keppnisáherslu. Það er mín reynsla innan íþróttaheimsins að oft er sett mikil pressa á börn og unglinga til þess að velja sér íþrótt og snemma í því skyni að auka árangur viðkomandi í ákveðinni grein. Það eru jafnvel til dæmi um að deildir innan félags fari að keppast um iðkendur. Það hefur hinsvegar verið sýnt fram á það að þau börn sem að sérhæfa sig seinna ná betri árangri í sinni grein og að í raun leiði fjölbreytt íþróttaiðkun til betri árangurs (Barynina & Vaitsekhobvski, 1992). Þær niðurstöður styrkja mig enn frekar í trú minni að við séum að sigla í vitlausa átt í þessum efnum.

Til þess að koma í veg fyrir misskilning geri ég mér grein fyrir því að á einhverjum tímapunkti þarf unglingur að velja sér íþróttagrein og að aðskilja þurfi afreks- og áhugamannastefnur félaganna ef að vel á að vera (t.d. varðandi æfingaálag og ofþjálfun). Ég velti því þó fyrir mér á hvaða aldri best sé að gera það með hag iðkandans að leiðarljósi framar hagsmunum íþróttafélaga, fullorðinna aðila eða annarra þátta. Í stefnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands segir að mikilvægt sé að skapa börnum og unglingum aðstæður til þess að verða afreksmenn en þar er einnig tekið fram að þeir sem ekki hafi áhuga á þess konar íþróttaiðkun eigi að hafa kost á að stunda íþróttir eða líkamsrækt við sitt hæfi. Þá eigi keppni að miðast við aldur og þroska iðkenda um leið og að keppni eigi ekki að vera markmið iðkenda undir 8 ára aldri. Þar kemur einnig fram að við 12 ára aldur skuli liðakeppni vera áherslan og allir iðkendur að fá sömu tækifæri óháð getu. Að mínu mati þarf Íþróttahreyfingin að skoða hvort að misræmi sé á milli stefnu hreyfingarinnar á íþróttum fyrir börn og unglinga og því sem raunverulega er við lýði. Er munur á milli þess hvað íþróttahreyfingin vill og hvað hún gerir?

Í mínum huga sýnir þessi einfalda mynd íþróttastarf á Íslandi í þeirri mynd sem að það er í dag:

thesportingpyramid

Það eru allt of fáir einstaklingar sem að skila sér á þann stað sem að spilað er til þess að ná árangri (professional) og mikið brottfall á leiðinni að slíku starfi. Við þurfum að finna leiðir til þess að skapa umhverfi sem að seinkar þessu mikla brottfalli og skapa umhverfi þar sem allir geta æft á sínum forsendum.

(Canadiansportforlife.ca, 2015)

Þetta er líkan sem lýsir stefnu Kanada í lýðheilsumálum en þar er megináherslan sú að búa til heilbrigðan einstakling til lífstíðar og aðeins lítill hluti íbúa æfir til þess að ná árangri í keppni. Ekki þætti mér verra ef við tækjum þetta til fyrirmyndar og að áherslan í íþróttastarfi barna væri uppeldi æskunnar í þeim víðasta skilningi í átt að heilbrigðu líferni (Canadiansportforlife.ca, 2015).

Það er mikilvægt að markmið íþróttastarfs sé ávallt uppeldi æskunnar í átt að heilbrigðu líferni og vellíðan. Til þess að svo verði raunverulega hérlendis tel ég að tvennskonar megin breytingar verði að eiga sér stað og að þar verði stjórnendur íþróttastarfs að vinna saman ef að vel á að vera.

Við þurfum að finna leiðir til þess að seinka áherslu á keppni og hafa leikgleðina og félagskapinn að áhersluatriðum. Einnig þarf að finna út hvernig seinka má sérhæfingu barna og unglinga í íþróttum en í því skyni verða sérsamböndin að vinna saman að því að ein grein bitni ekki á annarri. Það er allra hagur.

Með öll þau jákvæðu áhrif sem að íþróttaiðkun getur haft á æskuna tel ég brýnt að hlúa að fjölbreyttum bakgrunni ungs fólks í íþróttum og leyfa þeim að stunda íþróttir á sínum forsendum. Leyfum þeim að æfa til þess að hafa gaman eins lengi og hægt er. Ég er þess fullviss að í kjölfarið komi afrekin nánast af sjálfum sér, ekki einungis í einni íþrótt heldur þeim öllum!

Anna Lilja Björnsdóttir, handknattleiksþjálfari í yngri flokkum og nemandi í tómstunda- og félagsmálafræðum við HÍ.

Heimildir:

Álfgeir Logi Kristjánsson, Hrefna Pálsdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon (2011). Ungt          fólk 2011. Menntun, menning, íþróttir, tómstundir, hagir og líðan nemenda í 5., 6. og 7. bekk. Reykjavík: Rannsóknir og greining.

Baryina, I.I. and Vaitsekhovskii, S.M. (1992). The aftermath of early sports
specialization for highly qualified swimmers
. Fitness and Sports Review International, 27(4), 132-133.