„Burtu með fordóma … þetta er engin algebra, öll erum við eins.“

magneaKveikjan að umfjöllunarefni þessarar hugleiðingar, fordómum, er rannsókn sem ég rakst á ekki fyrir löngu. Rannsóknin var frá árinu 2013 og sneri að viðhorfum ungmenna til mannréttinda innflytjenda og móttöku flóttafólks. Mér þótti efnið mjög áhugavert í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í samfélaginu að undanföru og þeim stóra hópi flóttafólks sem nú er í Evrópu. Um var að ræða viðtalsrannsókn þar sem talað var við 19 ungmenni og voru fimm þeirra sem gerðu skýran greinarmun á „okkur“ og „hinum“. Þetta þótti mér vera „fimm“ of mikið og sýna að eitthvað þarf að breytast.

Þegar kemur að orðræðu um minnihlutahópa erum við sem eldri erum fyrirmynd og þurfum í ljósi þess að gæta að orðavali og orðanotkun. Erum við að segja óviðeigandi barandara? Gefum við skotleyfi á minnihlutahópa? Gætir tvíræðni í orðum okkar? Erum við fólkið sem talar um hverfi borgarinnar af mismikilli virðingu?

Ísland hefur á ekki mörgum árum breyst úr einsleitu sveitasamfélagi í fjölmenningarlegt samfélag. Þannig hafa miklar breytingar orðið á samfélagsgerðinni og ljóst að tíma tekur fyrir samfélagið að aðlagast henni. Ungt fólk hefur í mörgum tilfellum sterkar skoðanir þegar kemur að málefnum innflytjanda. Oft á tíðum er um að ræða mjög vel mótaðar hugmyndir sem gefa hugmyndum fullorðinna ekkert eftir. Í áðurnefndri rannsókn kom fram að þegar spurt var um mannréttindi sögðu ungmennin að allir ættu rétt á að upplifa öryggi, hafa húsaskjól og að óttast ekki um líf sitt. Einnig kom fram að ungmennunum þætti gott að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi og að Íslendingum myndi bara líða vel ef þeir hjálpuðu meira. Ungmennin í rannsókninni settu sig í spor annarra og vildu koma öðrum til hjálpar. Er það kannski eitthvað sem við fullorðna fólkið mættum gera meira af?

Tómstundarstarf er vettvangur þar sem við höfum tækifæri til að vinna gegn margs konar fordómum í garð minnihlutahópa og ekki bara innflytjenda. Fordómar eru að miklu leyti sprottnir af hræðslu og fáfræði. Það kallar á aukna fræðslu um mismunandi menningu og að vera opin fyrir því að ekki hafi allir eins bakgrunn. Mikilvægt er að hnykkja á því að þeir sem flytjast hingað til lands verði að fá að viðhalda sinni menningu svo sem tungumáli og trú. Íslendingur sem býr erlendis talar íslensku við börnin sín og kennir þeim íslenska siði og venjur. Flestum þykir það eðlilegt.  Á sama tíma er mikilvægt fyrir innflytjendur að læra íslensku til að komast inn í íslenskt samfélag og eiga auðveldara með að fá vinnu svo dæmi séu tekin. Það er ekki alltaf auðvelt að finna jafnvægið á milli þess að fólk fái að rækta sinn bakgrunn en einnig að sett sé sú krafa á að það aðlagist nýjum menningarheimi.  Mikilvægt er að við sýnum umburðarlyndi og þolinmæði. Við eigum okkur mismunandi uppruna og menningu og ef við virðum hvert annað ættum við að geta lifað í sátt og samlyndi.

Í starfi með ungu fólki er nauðsynlegt að hafa þetta í huga. Enginn fæðist með fordóma. Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Við erum öll með ósýnilegan bakpoka sem er fullur af okkar eigin reynslu, forréttindum sem við njótum og þeim minnihlutahópum sem við tilheyrum. Fyrsta skerfið er að vera meðvitaður um þá fordóma sem leynast í okkar samfélagi og við séum tilbúin að vinna með þá í okkar starfi með börnum og unglingum. Verum meðvituð og komum í veg fyrir fordóma.

—-

Magnea Kristín Snorradóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands