Ég pant fá að ráða!

Þegar kemur að ákvarðanatöku í málum sem tengjast okkur langar okkur flestum að hafa eitthvað  um málin að segja og þannig hafa áhrif á það hvernig þau eru afgreidd. Stundum erum við spurð hvað okkur finnst og jafnvel tekið mark á því sem við segjum. Í stærri málum, þar sem ekki er hægt að spyrja alla, kjósum við t.d. fulltrúa fyrir okkur og treystum því að viðkomandi standi undir því trausti. Þessir fulltrúar eru s.s. alþingismenn eða sveitarstjórnarfólk sem allt eru málsmetandi forkólfar og talsmenn mismunandi hagsmunahópa.

Í viðamiklum málum stjórnvalda  er kallað til sérfrótt fólk til að aðstoða við ákvarðanatöku og er slagorð Öryrkjabandalags Íslands „Ekkert um okkur án okkar” lýsandi fyrir slíkt. Þar er átt við að ekki skuli fjallað um kjör eða aðstæður þeirra skjólstæðinga nema með þeirra samráði, þ.e. þeir eru sérfræðingar í sínum málefnum. Samráð stjórnvalda við sérfræðinga vegna ákvarðanatöku hefur gengið mis vel, stundum hefur verið tekið fullt tillit til þess sem þeir segja og stundum valið að hunsa álit þeirra. Sé almenningur ekki ánægður með stjórnvöld og hvernig þau nýta talsmenn mismunandi hagsmunahópa sem sérfræðinga, hefur fólk (18 ára og eldri) möguleika á að láta álit sitt í ljós í kjörklefanum. Stórir hagsmunahópar geta þar með haft áhrif á hverjir veljast til stjórnunar og þar með aukið líkurnar á að málefni þeirra nái fram að ganga innan stjórnsýslunnar (eða innan félagasamtaka).

En hvað um þá sem ekki hafa rétt til að kjósa og hverjir eru það? Á Íslandi er lang stærsti hópur ókosningabærra manna börn og ungmenni en nærri má geta að um 25% þjóðarinnar sé án nokkurrar vonar til að fá að hafa áhrif á málefni sem snerta þau beint. Það er athyglisvert að skoða þetta mál út frá því hvaða málaflokkar innan stjórnsýslunnar snúa að þessum 25%. Á eftir heilbrigðismálum og almannatryggingum eru mennta- og æskulýðsmál stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs 2006 með um 14.2% hlutdeild og oftast lang stærsti útgjaldaliður sveitarfélaga (1). Þessi málefni hafa hvað mest áhrif á líf valdaminnsta meirihlutahóps Íslands, börn og ungmenni. Þau eiga sér fáa og veikburða talsmenn í stjórnsýslunni, sem fyrir náð og miskunn eru skipaðir, oft til skrauts, í vinnuhópa sem fjalla um þeirra mál. Þessi talshópur hefur ekki aldur til að refsa í kjörklefanum þeim sem valta yfir þau með misviturlegum ákvörðunum.

Þann 18. febrúar síðastliðinn var haldin ráðstefna á Hilton hóteli Nordica í Reykjavík, tengd Evrópuári ungmenna 2016. Þessi ráðstefna markaði upphaf þess hér á Íslandi að á árinu verða málefni ungmennaráða og þátttaka ungs fólks í brennidepli í Evrópu (2).

En hver er staða ungmennaráða í sveitarstjórnarmálum á Íslandi?  Samkvæmt æskulýðslögum nr.70/2007 stendur eftirfarandi um aðkomu ungmenna að sveitarstjórnarmálum (3).

  1. KAFLI 
Stuðningur sveitarfélaga við æskulýðsstarf. 
11. gr.

Sveitarstjórnir setja sér reglur um á hvern hátt stuðningi við frjálst æskulýðsstarf skuli háttað. Sveitarfélög hafa starfandi æskulýðsnefndir eða sambærilegar nefndir samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar. 
    Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.

Þessi lög eru sett um starfsemi Ungmennaráða en setja sveitarfélögum engar frekari skyldur er kemur að málefnum ungmenna.

En hvað þarf þá að gera til að tryggja að ungmenni fái að fjalla um öll þau mál sem þeim við kemur? Ekki er nóg að skipa Ungmennaráð og dusta svo rykið af þeim á tyllidögum. Það þarf að festa í regluverk sveitarfélaganna að ungmennaráð geti skipað fulltrúa í allar nefndir og ráð sem fjalla um málefni ungs fólks. Þessir fulltrúar eiga að hafa málfrelsi og tillögurétt þar sem þau sitja. Með þessu er verið að gera þennan öfluga hóp sýnilegan og tryggja að þau komi að málum sem um þau fjalla, ekki síst þar sem þau eru framtíðarþegnar þessa lands og koma til með að lifa lengst með þeim ákvörðunum sem eru teknar í dag. Það skal þó haft í huga að þrátt fyrir að börn og ungmenni komi inn í nefndir og hópa og verði gerð sýnilega hafa þau þrátt fyrir það ekki kjörgengi og geta ekki beitt sér í kjörklefunum eins og kjósendur. Það er því brýnt að þeir sem kosnir eru í ákvarðanastöður hugi vel að þessum 25% landsmanna og tali málefnum þeirra.

Látum Evrópuár ungmenna 2016 verða upphafspunktinn að frekara aðgengi barna og ungmenna að ákvarðanatöku í málefnum þeirra, þau eru framtíðarþegnar þessa lands.

Þröstur Þór Ólafsson, framhaldsskólakennari og vélfræðingur

Heimildir:

  1. (http://www.fjs.is/media/rikisreikningur/RRheild_2006-A.pdf)
  2. (https://issuu.com/samband/docs/t____indi_01_2016)
  3. (http://www.althingi.is/lagas/nuna/2007070.html)