Fyrirmynd eða áhrifavaldur?

Í þeim heimi sem við lifum í dag er mikið um svo kallaða áhrifavalda í tísku á samfélagsmiðlum. Sem eru oft að mínu mati með mikið af duldum auglýsingum sem eru alls konar gylliboð fyrir fylgjendur sína og allt eru þetta þarfahlutir að þeirra sögn, „þessi hlutur bara breytir lífi mínu“, „ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég ætti þetta ekki“.

Að vera góð fyrirmynd þýðir einfaldlega að koma vel fyrir, láta öðrum líða vel í kringum sig og láta gott af þér leiða. Góð fyrirmynd hefur mikil áhrif á hvað og hvernig við gerum hlutina alla daga. Að vera áhrifavaldur þýðir að vera með auglýsingar á samfélagsmiðlum, gefa alls konar vöru með afsláttarkóða sem þú getur ekki lifað án að þeirra sögn. Svo fá áhrifavaldar greitt fyrir hversu margir nýta kóðan ásamt fastri greiðslu. Mér hefur oft fundist þetta snúast meira um að áhrifavaldurinn er aðeins að auglýsa þessa vöru svo hann fái borgað en ekki vegna þess að honum líkar varan.

Allir samfélagsmiðlar eru með aldurstakmörkin 13 ára. Á þessum aldri eru börnin okkar ennþá verulega ung. Því spyr ég: Þarf ekki meiri eftirfylgni með þessu? Frá þessum aldri og jafnvel fyrr, eru börn byrjuð að fylgjast með áhrifavöldum á öllum mögulegum samfélagsmiðlum. Efnið sem finnst þar inni er jafn mismunandi og fólkið og endalaust af upplýsingum og áreiti sem streymir inn. Er bara í lagi að 13 ára séu að spá í tannhvíttun, varafyllingum, veipum og áfengi?

Já, ég sagði áfengi, sem er með lögum bannað að auglýsa en virðist viðgangast á samfélagsmiðlum. Það er verið með alls konar leiki og því næst er dregin út kassi af bjór. Margir áhrifavaldar eru svo oft blekaðir á miðlum sínum að sýna hversu gaman er að vera undir áhrifum og hvað þeir gera sig að miklum fíflum. Erum við þá að sýna unglingum okkar hvernig á að haga sér eða hvernig á ekki að haga sér?

Að mínu mati þyrfti að herða verulega á auglýsingareglum, hvað má og hvað má ekki auglýsa á samfélagsmiðlum. Það er ekki hollt fyrir neinn, hvað þá unglinga sem eru eins og svampar að sjúga í sig hvað er í tísku og hvað á að kaupa! Þó svo þú eigir ekki nýjasta símann, 150 þúsund króna úlpu eða nýjustu air skóna þá ertu ekkert verri manneskja. Það eru margir unglingar sem eru í 50 til 80 prósenta vinnu með skóla til þess eins að geta fjármagnað neyslu sína. Það hefur sýnt sig að það er ekki mælt með að unglingar vinni mikið með skóla. Það hefur áhrif á heimanám, svefn og oft félagsskap sem er svo mikilvægur á þessum uppvaxtar- og mótunarárum. Með vinnu sjá þau oft peninginn í hyllingum og hætta þá frekar í skóla.

Við fullorðna fólkið eigum að vera fyrirmyndir fyrir unglingana okkar. Við ættum að vera nægjusöm og kenna unglingunum okkar það líka.

Hvort ert þú fyrirmynd eða áhrifavaldur?

Sveinborg Petrína Jensdóttir

 

 

Að elska sjálfan sig

Fyrir mér er það að læra að elska sjálfan sig eins og maður er ótrúlega mikilvægt. Frá því að ég var barn hef ég haft mjög lítið sjálfsöryggi og það var verst á unglingsaldri. Ég var alltof feit, ekki nógu flott, o.fl. Ég sé svo eftir því að hafa ekki bara elskað sjálfa mig eins og ég var í staðin fyrir að rífa mig niður. Ég hefði óskað þess að einhver hefði sýnt mér að hver og einn er sérstakur á sinn hátt og það er engin ein rétt leið þegar kemur að útliti. Ég tel að lykilinn að hamingju sé að læra að elska sjálfan sig fyrst og fremst. Það eru alltof fáir sem elska sjálfan sig eins og þau eru.

Þetta er mikilvæg umræða og sérstaklega fyrir börn og unglinga. Við þurfum að setja góð fordæmi og kenna þeim að elska sjálfan sig eins og þau eru frá unga aldri. Ég hef unnið með börnum og unglingum núna í nokkur ár og mér finnst sorglegt hvað stór hluti af þeim hefur lítið sem ekkert sjálfstraust. Það er skrítið hvernig við leyfum okkur að tala um okkur sjálf, við segjum margt um okkur sjálf sem við myndum aldrei segja við aðra manneskju. Það er alltof mikið af ungu fólki og þá sérstaklega stelpum sem hata hvernig þau líta út og þá í samanburði við það sem er „samfélagslega rétta útlitið“.

Mér finnst samfélagsmiðlarnir vera okkar stærstu óvinir þegar kemur að þessu. Á samfélagsmiðlunum er verið að senda okkur óbein skilaboð hvernig við eigum að vera og hvað við þurfum að gera til að verða samþykkt af samfélaginu. Mér finnst önnur hver auglýsing vera um hvernig maður á að grenna sig og oft á mjög óheilbrigðan hátt. Við þurfum að læra að elska okkur sjálf áður en við elskum aðra og leyfum öðrum að elska okkur. Það tekur tíma að læra að elska sjálfan sig, hlusta ekki á samfélagslegan þrýsting gagnvart útliti en þegar upp er staðið er það þess virði.

Það vantar meiri umræðu og fræðslu fyrir börnin og unglingana. Ef við byrjum nógu snemma að kenna þeim að elska sig sjálf þá verður þetta eitthvað sem við gerum sjálfkrafa. Við eigum að fagna því að við séum fjölbreytt, það væri ekkert gaman ef allir væru eins. Ég átta mig ekki á því af hverju það er stimplað svona fast inní hausinn á okkur að við þurfum að vera grönn, alveg sama hvort það sé gert á heilbrigðan hátt eða ekki. Ef við förum með þetta í öfgar þá myndi ég halda að það væri erfiðara að vinna sig uppúr anorexíu en offitu. Ég veit um nokkrar stelpur sem litu út fyrir að vera í mjög góðu líkamlegu formi en þær voru að svelta sig og hreyfingin var komin í öfgar. Með því að grennast á óheilbrigðan hátt er mjög líklegt að heilsan hrynji og maður verði lengi að ná sér eftir það. Svo lengi sem við erum heilbrigð og borðum hollan og næringarríkan mat þá erum við í góðum málum sama hvernig holdafarið er.

Samfélagsmiðlarnir eru aðeins að breytast og sýna réttu hliðarnar en ekki bara glans hliðarnar. Það eru margir áhrifavaldar farnir að sýna hvað uppstilling skiptir miklu máli þegar myndir eru teknar og þau bera saman uppstillta mynd og svo venjulega mynd og þar sést mikill munur.

Að elska sjáfan sig eru stærstu skref sem fólk getur tekið í lífinu.

Guðbjörg Halldórsdóttir

 

 

Forvarnargildi félagsmiðstöðva í minni sveitarfélögum

Þegar litið er á íslenska unglinga má sjá ótrúlega mismunandi einstaklinga og fjölbreytta hópa. Í gegnum kynslóðirnar sést hvað áherslurnar breytast gríðarlega hratt þar sem á þessu tímabili breyta unglingar um stefnu og stað á stuttum tíma. Þau kynnast nýju fólki, taka fyrstu skrefin að sjálfstæði og þroskast mikið á örfáum árum. Fólk sem vinnur með unglingum sér hvað hópar eru mismunandi, áherslur í starfi breytast og að starfið er stanslaust að þróast. Áhugamál einstaklinga eru mismunandi og í mörgum tilfellum breytast þau á meðal þeirra á þessu tímabili. Einstaklingar sem hafa æft íþróttir geta dregist aftur úr og jafnvel hætta að æfa þegar áhugi þeirra breytist og aukið frelsi í tómstundaiðkun getur leitt til margskonar áhættuhegðunar.

Í grein eftir Vöndu Sigurgeirsdóttur (2014) bendir hún á mikilvægi tómstundamenntunar. Tómstundamenntun getur bæði verið formlegt og óformlegt nám. Hún snýst um það að kenna einstaklingum að nýta frítímann sinn á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þegar á heildarmyndina er litið eyðum við meiri tíma af ævi okkar í frítímann  heldur en við eyðum í skóla og starf til samans. Því gefur það auga leið að ef við nýtum þennan mikla tíma á neikvæðan hátt, eins og áfengisneyslu, hreyfingarleysi, depurð o.s.frv., veitir frítíminn okkur ekki mikla vellíðan og eykur það hættu á andlegum-, félagslegum- og líkamlegum vandamálum. Áhugamál og jákvæð tómstundaiðkun er okkur mjög mikilvæg og eykur líkur á heilbrigðu andlegu og líkamlegu líferni (Vanda Sigurgeirsdóttir, 2014).

Félagsmiðstöðvar hafa verið til staðar í okkar samfélagi í áratugi og sveitarfélög eru krafin um að reka unglingastarf í einhverri mynd. Hugmyndafræði félagsmiðstöðva hefur verið í stanslausri mótun síðustu áratugi. Grunnhugmyndafræðin byggist á kenningum um félagsmótun, þroska, gildi og viðmið. Fræðimenn hafa lagt áherslu á það að unglingar eigi að nota félagsmiðstöðvar til að prufa sig áfram og læra af mistökum. Þær eiga að skapa umhverfi þar sem unglingamenning getur ráðið ríkjum og þeirra þörfum þjónað. Starfið á að brúa bilið á milli skipulegrar tómstundaiðkunar, eins og íþróttafélögin o.s.frv., og í óskipulegt tómstundastarf sem einstaklingar stunda sjálfir (Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir, 2017).

Kostir lítilla sveitarfélaga eru margskonar. Þau bjóða upp á meira frelsi fyrir börn og unglinga. Unglingar geta auðveldlega farið til vina sinna, foreldrar og forráðamenn jafnvel þekkjast vel og hóparnir verða jafnvel nánari. Kosturinn við litlar félagsmiðstöðvar eru persónuleg aðkoma. Þegar unnið er rétt, getur verið auðvelt að ná til jaðarhópa og veita persónulegri þjónustu fyrir þarfir hvers einstaklings. Starfsmannahópurinn er frekar lítill og unglingarnir ná góðum tenglum við starfsfólkið. Fagfólk félagsmiðstöðva eru oft besta forvörnin, þau grípa umræðuna og fræða ungmenni á óformlegan máta, mæta þörfum þeirra í þeim umræðum sem ungmennin leita í. Félagsmiðstöðvar bjóða upp á óformlegt nám sem kennir samskipti, forvarnarvinnu, sjálfsskoðun og umgengni við mismunandi hópa samfélagsins. Þá er unnið með minni hópa sem gerir það að verkum að auðveldara er að grípa þau ungmenni sem eru ekki virk í tómstundum eða sýna áhættuhegðun. Því er nauðsynlegt að unnið sé vel að starfinu, stuðlað að fjölbreyttri dagskrá og aðstöðu til að unglingar geta prufað sig áfram í tómstundum og fundið sín áhugamál.

Að mínu mati eiga sveitarfélög að leggja mikla vinnu í félagsmiðstöðvar því þar myndast samfélög sem brúar bilið á milli jaðarhópa og mynda jafningjagrundvöll þar sem allir fá tækifæri til spreyta sig í sínum áhugamálum. Þegar starf félagsmiðstöðvar er vel unnin, eftir góðri stefnu og góðum gildum er svo auðvelt að styðja börn og unglinga í gegnum krefjandi þroskaskeið, hjálpa þeim að verða að heilbrigðu ungu fólki með sterka sjálfsmynd, hvata til að breyta rétt, jákvæða leiðtogafærni og heilbrigða samskiptahæfni. Því hvet ég sveitarfélög, stór og smá, að vanmeta ekki forvarnargildi félagsmiðstöðva heldur að auka virkni, metnað og sveigjanleika til að vinna metnaðarfullt starf.

Sigurhanna Björg Hjartardóttir

 

Heimildir:

Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir. (2017). Félagsmiðstöðvar barna og    unglinga. Í Alfa Aradóttir, Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir (ritstjórar), Frístundir og         fagmennska: Rit um málefni frítímans (bls. 109-121). Félag fagfólks í frítímaþjónustu, Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi og Rannsóknarstofa í tómstundafræðum.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun23(1).

Engir unglingar eru óþekkir!

Börnum er oft refsað fyrir óæskilega hegðun. En eru börn í raun óþekk, er refsing nokkuð nauðsynleg? Hvernig er best að koma fram við börnin sín?

Foreldrar eru misjafnir eins og börn eru misjöfn. Það getur verið flókið að ala upp annan einstakling, enda fylgja engar leiðbeiningar með barni við fæðingu. En það skiptir miklu máli hvernig foreldrar koma fram við börnin sín. Í langflestum tilfellum eru foreldrar að gera það sem þau halda að sé best fyrir barnið sitt. Til eru allskonar uppeldisaðferðir en sumir nota sömu aðferð og var notað á þau sjálf. Það er allur gangur á því hvernig fólk elur upp börnin sín. Margir unglingar upplifa erfiðleika í samskiptum við foreldra sína. Sumir unglingar hegða sér óæskilega og jafnvel dónalega. Unglingar eiga til að vera með skapsveiflur og geta tekið reiðiköst. Þau upplifa oft ósanngirni. Þau skilja ekki tilfinningar sínar og eiga erfitt með að stjórna sér.

Sumir foreldrar sækjast meira í að refsa fyrir óæskilega hegðun frekar en að vinna með tilfinningar þeirra þegar þeim líður illa. Foreldrar gleyma oft að jákvæðni geti dregið út jákvæðni hjá unglingum sínum. Eins og með ást, hlýju og skilning.

Sumar uppeldisaðferðir eru ekki góðar fyrir unglinga, sumar þeirra geta haft slæm áhrif á þau bæði andlega og líkamlega. Að refsa unglingum fyrir óæskilega hegðun getur haft öfug áhrif á hegðun unglingsins og einnig haft þær afleiðingar að honum líður illa á heimili og jafnvel með sjálft sig. Sú upplifun að maður þurfi að skammast sín fyrir að tjá tilfinningar sínar getur haft þær afleiðingar að maður vilji ekki tjá sig við neinn og loka sig alveg af. Flestum unglingum finnst erfitt að opna sig. Þegar foreldrar skamma og refsa unglingum sínum getur það einnig haft niðurlægjandi áhrif á þau.

En hvað er óæskileg hegðun og fyrir hvern er þessi óæskilega hegðun slæm?

Óæskileg hegðun er í raun hegðun sem við foreldrarnir viljum ekki sjá né heyra. Þegar barn eða unglingur grætur, reyna foreldrar að þagga niður í því. Í stað þess að leyfa því að klára að gráta. Þegar unglingur gengur illa um, þá er það óþekkt. Þegar unglingur gerir ekki það sem foreldrið biður um, þá er það óhlýðni. Sumir foreldrar beita líkamlegum refsingum fyrir dónaskap og óæskilega hegðun. Algengt er að unglingar fara í útivistarbönn eða að þeim sé refsað þannig að þau fá ekki að gera það sem þeim þykir mikilvægast. Sem getur verið til dæmis að missa símann sinn, tölvuna sína, fá ekki að hitta vini sína og svo framvegis. Allt þetta getur haft öfug áhrif á unglinginn. Meiri líkur eru á að unglingurinn fari að hegða sér enn verr.

Foreldrar skammast sín oft fyrir hegðun barna sinna og refsa þeim fyrir minnstu atvik. Foreldrum finnst óþæginlegt þegar barn tekur grát- eða reiðikast. Börnin eiga allt af að hegða sér vel. Það er mjög mikilvægt að unglingar fá að tjá tilfinningar sínar. En í stað þess að leyfa þeim að tjá sig eða að leiðbeina þeim á réttan hátt, þá eru börn þögguð niður og látin skammast sín.

Þegar unglingar upplifa þessa niðurlagandi tilfinnigu við refsingu þá skilja þau ekki hvað þau gerðu rangt af sér og endurtaka jafnvel óæskulegu hegðunina aftur. Það er eðlilegt að unglingur treysti ekki foreldri sínu fyrir neinu ef það hefur aldrei fengið að tjá sig við foreldrið.

Eru þessir unglingar að hegða sér illa eða eru þau í raun að tjá tilfinningar?

Að vera óþekkur er ekki til! Það er bara gamaldags hugsun. Börnin okkar og unglingar eru auðvitað að tjá tilfinningar sínar. Allir hafa þörf á að tjá sig. Við fullorðna fólkið þurfum að koma fram við alla sem jafningja og leiðbeina börnum okkar þegar þau taka rangar ákvarðanir. Það er hægt að gera það með virðingu og skilningi. Með því að fara rétt að sem foreldri, þá er hægt að koma í veg fyrir að unglingur sækist í slæman félagsskap. Foreldrar þurfa að setja unglingum mörk og framfylgja þeim. Það er hægt að gera það án þess að refsa börnum. Ef foreldri vill refsa unglingi sínum, þá þarf það að vera raunhæft og þarf foreldri að halda ró sinni. Við græðum ekki neitt á því að verða pirruð og reið. Foreldrar verða að vísa unglingunum í rétt átt svo þau taka ekki rangar ákvarðanir og kenna þeim afleiðingarnar sem hegðunin hefur.

Við þurfum að leyfa þeim að klára að tjá sig, leyfa þeim að komast að því afhverju þeim líður eins og þeim líður. Við verðum að kenna unglingunum okkar að enginn sé 100 prósent. Það sé  gott fyrir sálina að gráta. Foreldrar þurfa að hlusta á unglinga sína. Þau eru bara að reyna að losa sig við streitu eða einhverja spennu. Það getur stundum verið erfitt að stjórna sér.

Við fullorðna fólkið látum ekki aðra stjórna því hvernig við hegðum okkur. Við eigum öll rétt á okkar tilfinningum. Þessvegna verðum við að virða börnin okkar, koma fram við hvort annað sem jafningjar.

Með því að sýna virðingu fyrir öðrum þá getum við komið í veg fyrir að barn vaxi upp óhamingjusamt. Unglingsárin geta orðið erfið, en með því að fara rétt að í uppeldinu, þá getum við auðveldað þróunina að hamingjunni. Traust á milli foreldris og barns er mikilvægt. Við viljum öll lifa hamingjusömu lífi.

Auður Rakel Georgsdóttir

 

Er starfandi félagsmiðstöð í þínu hverfi?

Ég hef unnið í tómstunda- og frístundstarfi undanfarin 15 ár með hléum, hef starfað sem aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð, frístundaleiðbeinandi, aðstoðarverkefnastjóri í frístund og svo aftur aðstoðarverkefnastjóri í félagsmiðstöð.

Ég byrjaði óvart að vinna í félagsmiðstöð í Hafnarfirði þegar ég var 20 ára og vissi hreinlega ekkert út í hvað ég var að fara. Ég fann strax að þetta var eitthvað sem hentaði mér en ég var samt alltaf alveg að fara að hætta. Samfélagið, vinir og vandamenn áttu það til að spyrja mig: „Hvenær ertu svo að að fara að hætta að vinna í þessari félagsmiðstöð?“ Ég tel að margir viti ekki alveg út á hvað félagsmiðstöðvastarf gengur. Við erum ekki alltaf bara í borðtennis eða í playstation.

Tímarnir hafa breyst þessi ár sem ég hef unnið á vettvangi og er frítíminn því stundum svolítið þaulskipulagður og stjórnaður af okkur fullorðna fólkinu, bæði foreldrum og okkur sem störfum á vettvangi. Ég hef sjálf dottið í að vera að stjórna of mikið og við verðum að passa okkur að leyfa unga fólkinu að hafa frumkvæði, virkja hugmyndaflæðið þeirra og leyfa þeim að njóta unglingsáranna með því að njóta starfsins sem félagsmiðstöðvarnar hafa upp á að bjóða.

En hvaða fyrirbæri er félagsmiðstöð?

Helstu markmið félagsmiðstöðva almennt eru að auka félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks, sinna forvörnum og veita börnum og unglingum stuðning og tækifæri til að sinna áhugamálum sínum. Að félagmiðstöðvar notast við leiðir unglingalýðræðis eins vel og hægt er, bjóða upp á starf þannig að það sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi og að starfsfólkið tengjist börnunum og unglingunum með samtölum og virkri hlustun og mæti þeim einnig á þeirra forsendum og þeim sé sýnd virðing í leik og starfi.

Þar er frábært starfsfólk á gólfinu sem tekur á móti börnunum og unglingum ykkar með bros á vor og alltaf tilbúið í spjall. Sumar félagsmiðstöðvar bjóða upp á starf fyrir 5.-10. bekk á meðan aðrar sjá kannski aðeins um unglingastig.  Opnunartíminn er mismunandi eftir sveitafélögum en það er oftast lagt upp með að það sé að minnsta kosti opið þrisvar sinnum í viku.

Undanfarin ár hefur þekking starfsfólks á gólfinu í félagsmiðstöðvum verið efld þar sem Háskóli Íslands heldur úti námsbraut sem kallast tómstunda- og félagsmálafræði. Fagmanneskan í starfinu er því orðin mikil þar sem þeir starfsmenn sem eru tómstunda- og félagsmálafræðingar koma með aukna fagþekkingu inn í starfið.

Það fer fram svokallað óformlegt nám í félagsmiðstöðunum en þá er unnið að fyrirfram settum markmiðum og starfsfólk félagsmiðstöðvanna veitir þann stuðning sem þarf til að þau náist innan ákveðins tímaramma. Mannleg samskipti koma sterk inn og á tímum snjallforrita þá er frábært að það sé í boði fyrir barnið, unglinginn þinn að kíkja í félagsmiðstöðina í sínu skólahverfi og geta spurt og spjallað við starfsmann félagsmiðstöðvarinannar um allt milli himins og jarðar.

Unglingarnir og börnin okkar hafa svo margt í sér, við verðum að virkja þau og sköpunarkraft þeirra og þar kemur félagsmiðstöðin sterk inn og tekur á móti öllum hugmyndum. Starfsfólkið hjálpar þeim að útfæra hugmyndirnar, t.d. ef þau koma með hugmynd að klúbbastarfi, langi þau að halda bingó, íþróttamót, stofna jafnréttisráð o.s.frv.

Ef þú átt ungling eða barn í 5.-10.bekk athugaðu hvað er í boði í félagsmiðstöðinni í þínu hverfi. Taktu upp tólið og hringdu í félagsmiðstöðina, skoðaðu heimasíðuna, samfélagsmiðlana eða kíktu bara í heimsókn.

Þórunn Þórarinsdóttir

Höfundur er nemi á öðru ári í Tómstunda- og félagsmálafræði

 

Samfélagsmiðlar og snjalltæki að taka yfir?

Að mínu mati eru unglingar í dag minna úti heldur en hér áður fyrr eða eins og ég upplifi það þá eru krakkar og unglingar meira inni að „hanga“ í tölvunni og símanum. Samfélagsmiðlar eru hægt og rólega að taka yfir líf ungra einstaklinga. Sumir segja meira að segja að það sé nú þegar orðið þannig að samfélagsmiðlar hafa tekið yfir lífið hjá mörgum ef ekki flestum unglingum.

En hvað væri þá hægt að gera fyrir þessa unglinga eða hvað geta þau gert er spurning sem margir hafa ef til vill spurt sig. Sú spurning brennur helst á vörum á sumrin þegar unglingavinnan klárast. Vinna sem þau fá í nokkra tíma á dag í aðeins nokkrar vikur af sumrinu. Hvað eiga unglingarnir að gera við allan þann frítíma sem þau þá hafa yfir sumarið?

Hér koma nokkrar lausnir sem gætu hent þér eða ef þú ert foreldi þá gæti eitthvað af eftirfarandi hentað unglingnum þínu.

  1. Útivera. Ég sjálf hef nýtt mér útiveru og náttúruna til þess að minnka samfélagsmiðlanotkun og svokallaðan skjátíma. Útivera hefur virkilega góð áhrif á alla til að ná aðeins að komast í núið og að vera í núinu. Komast út úr þeim ham sem hversdagsleikinn er.
  2. Yndislestur. Lesa bók eða hlusta á bók getur gefið manni svo mikið. Það að setjast bara einn með sjálfum sér með eitt stykki bók og lesa, leyfa sér að gleymda sér í bókinni. Yndislestur er vanmetin tómstund sem ég tel að þurfi að auka meira í nútímanum. Það hefur verið ákveðin aukning á lestri á bókum eða réttara sagt hlustun á bókum með nýjum forritum í snjalltækjum eins og Storytel. Storytel er forrit sem er með allar helstu bækur teknar upp og þú getur hlustað á þær hvar sem er og hvenær sem er.
  3. Ný áhugamál. Sama á hvaða aldri þú ert er alltaf hægt að finna sér ný áhugamál eða taka upp gömul áhugamál og þar má nefna ýmislegt sem ég gæti stungið upp á.
    • Bakstur, eldamennska, þrifaður, líkamsrækt eða hreyfing.
    • Fyrir foreldra væri hægt að skoða hvað væri í boði í nágrenninu og í því bæjarfélagi sem þið búið í.
  1. Sjálfboðastarf. Það er alltaf hægt að skrá sig í sjálfboðastarf og taka þátt í því, hvort sem það sé á vegum Rauða krossins eða skátastarfsins eða jafnvel bara bjóða þig fram til þess að hjálpa til heima svo eitthvað sé nefnt.
  2. Kynnast nýju fólki. Kíktu út og reyndu að kynnast eitthverjum nýjum.
    – Fyrir foreldra. Fáðu þau til að kíkja út og mögulega kíkja í félagsmiðstöðina.
  3. Líttu inn á við. Reyndu á þína innri föndur hæfileika svo sem teikna, mála eða þess háttar og prófaðu þig áfram.
    Fyrir foreldra. Leyfðu þeim að prófa sig áfram og hjálpaðu þeim með því að sýna þeim hvað hægt sé að gera.
  4. Skáldskapur. Prófaðu að taka blað og penna og skrifa sögu, ljóð eða lag. Hver veit nema þú búir yfir þeim hæfileika að geta skrifað gott lag sem gæti mögulega verið það flott að það kæmist í útvarpið einn daginn.
    Fyrir foreldra. Ýttu undir að þau prófi sig áfram og jafnvel sýna þeim hvað hægt er að gera með nýrri tækni.
  5. Fáðu þér gæludýr. Til dæmis hund og farðu í göngutúr með hann, kenndu honum ný trix, sem dæmi að setjast og sækja. Ef þú átt ekki hund farðu þá í göngutúr með nágrannahundinn eða hundinn hjá frænda eða frænku.
    – Fyrir foreldra. Ef keyptur er hundur þarf að kenna unglingum að sjá um hundinn. Virkja unglinginn með í að taka þátt í uppeldi á hundinum.
  6. Vertu meira með fjölskyldunni þinni. Farðu með ömmu þinni í búð eða kíktu í heimsókn til frænku og frænda.
    – Fyrir foreldra. Eyddu meiri tíma með unglingnum þínum, geriði eitthvað saman sem fjölskylda.

Þetta er aðeins brot af því sem hægt væri að gera fyrir unglingana. Með smá hjálp væri hægt að minnka samfélagsmiðlanotkun og fá unglingana til að eyða minni tíma inni í tölvunni.

María Lilja Fossdal