Að vera „gamall“ forstöðumaður í félagsmiðstöð

Sigga Lísa er forstöðumaður ElítunnarÁrið 2014 fékk ég starf sem forstöðumaður í félagsmiðstöð þá fertug að aldri. Fyrir það vann ég sem grunnskólakennari en hafði verið viðloðandi félagsmiðstöðvarstarfið í 11 ár bæði sem starfsmaður og sem tengiliður skólans við félagsmiðstöðina. Mér mætti furðulegt viðmót, það upplifði ég frá kollegum mínum í grunnskólanum sem og mörgum öðrum í kringum mig.  Af hverju að fara að vinna í félagsmiðstöð lærður grunnskólakennari? Ertu þá ekki alltaf að vinna á kvöldin? Hvað ertu að gera í vinnunni, spila borðtennis? Svo lítið vissi fólk um þetta starf og mér fannst ég alltaf þurfa að vera að verja þessa ákvörðun mína og starfið mitt. Að vinna sem forstöðumaður í félagsmiðstöð er nefnilega ekki bara það að spila borðtennis þó sannarlega sé það kostur að geta gripið í spaðann með unglingunum og þannig ná góðu spjalli.

Ég ákvað á sínum tíma að fara í kennaranámið vegna þess að mig langaði að vinna með unglingum. Mig langaði að afsanna margt sem ég hafði upplifað á minni eigin skólagöngu. Mig langaði að geta verið kennari og vinur, lána eyra og öxl þegar á þurfti. Mig langaði að nota þennan grundvöll til að auka sjálfstraust nemenda minna og fá þau til að vera sátt við sjálf sig. Ég sá fljótt að lítill tími var til þessara hugsjóna minna í kennslu. Aðalnámskráin og alls kyns önnur störf auk kennslunnar tóku of mikið pláss. Mér fannst ekki rúm til að sinna hverjum einstaklingi eins og ég hefði viljað og eins fannst mér ákveðnir fordómar fyrir kennurum eins og mér sem voru til í að loka bókinni endrum og eins bara til að spjalla. Ég hef á mínum sjö árum sem forstöðumaður oft heyrt þessa setningu; já ertu forstöðumaður, er það ekki meira þú? Ég var lengi ekki viss hvort að þetta væri hrós eða last. Í dag lít ég á þetta sem stórt hrós því aldrei hef ég unnið eins gefandi starf. Gömlu hugsjónirnar hafa eignast líf og hvert sinn sem ég sé ungling blómstra þá veit ég að ég tók rétta ákvörðun.

En að því sem þessi hugleiðing átti að snúast um. Aldur forstöðumanna og starfsmanna í félagsmiðstöð hefur verið mér hugleikinn síðustu misseri. Að mér hafa læðst hugsanir inn á milli um hvort ég sé of gömul til að vera forstöðumaður í félagmiðstöð svona langt gengin inn í fimmtugsaldurinn. Kannski er það vegna þess að þegar ég byrjaði að vinna í félagsmiðstöð þá var þetta svolítið eins og var gert grín að í áramótaskaupi, þe. að vera starfsmaður í félagsmiðstöð þýddi að maður varð að vera endalaust hress, kunna lingoið hjá unglingunum og vera hálfgerður unglingur sjálfur. Í dag snýst þetta um svo miklu meira.

Árið 2018 fórum ég og starfsfólkið mitt í vettvangsheimsóknir til Danmerkur og Svíþjóðar. Þar mætti mér annar raunveruleiki. Starfsfólkið sem tók á móti okkur voru á svipuðu reki og ég og sumir eldri. Ég ákvað að skoða mig sem forstöðumann upp á nýtt. Hverjir eru kostirnir og gallarnir við að vera „gamall“ starfsmaður í félagsmiðstöð. Niðurstaða mín er að kostirnir eru bara mun fleiri en gallarnir á meðan ég brenn fyrir starfinu mínu. Ég er svona mamman á staðnum og unglingunum finnst gott að leita til „mömmu“ til að fá ráð, spjalla eða bara til að fá plástur. Þau treysta mér á annan hátt en þau treysta þeim sem yngri eru. Að vera stjórnandi hefur nefnilega meira að gera með hæfni manns til persónulegra samskipta heldur en aldur. En hlutir eins og að setja mörk og þora að segja hlutina eins og þeir eru á góðan hátt koma oft með aldri og reynslu. Unglingarnir ætlast ekki til að ég sé unglingur eða kunni lingoið. Þeir vilja bara hafa „mömmu“ á staðnum sem lánar eyra og öxl. „Mömmu“ sem kann ekki að spila tölvuleiki, heldur að það að „daba“ sé enn töff og kallar „Anime“ japanskar teiknimyndir.

Sigga Lísa,

forstöðumaður Elítunnar