Brúin milli skólastiga í opnara námsumhverfi

Fjórða grein Heimsmarkmiða (2015) kveður á um menntun fyrir alla. Og samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafa átt aðild að síðan árið 1992 er hægt að vitna í margar greinar sem tengja má við jöfnuð og aðgang að menntun. Í Aðalnámskrá framhaldsskóla (2011) kemur jafnframt í ljós sú staðreynd að framhaldsskólanum beri að sinna öllum nemendum hvernig svo sem undirbúningi þeirra er háttað úr grunnskóla, stuðla að alhliða þroska þeirra, búa þá undir störf í þjóðfélaginu og frekara nám.       

Samkvæmt langtímarannsóknum frá Rannsóknum og greiningu, sem Menntamálastofnun hefur látið gera á þriggja ára fresti síðan árið 2004, má sjá að andlegri heilsu ungmenna hefur hrakað undanfarin ár. Þannig skorar Ísland hæst meðal OECD ríkja, sem samanstendur af 34 ríkjum,  er kemur að brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum, en áætla má að 20% nemenda hverfi frá námi  á ári hverju og er meirihluti þeirra 18 ára og eldri.  Það eru ýmsar ástæður fyrir því að ungmennin okkar hverfa frá námi og má þar kannski helst nefna að ekki virðist nægilega vel komið til móts við þá sem glíma við námsörðugleika eða  hafa íslensku sem annað mál  og svo er stór hópur með greiningar eins og ADHD, kvíða eða aðrar raskanir og fatlanir sem valda því að ungmennin  eiga erfitt með hið hefðbundna framhaldsskólanám.  Brotthvarf getur orðið mörgum dýrkeypt þar sem hluti þeirra sem upplifa þessa höfnun, eignast mikinn frítíma og leita viðurkenningar sem oftar en ekki er fengin innan hópa sem stunda áhættuhegðun, og lenda þá gjarnan í vanda sem erfitt er að uppræta.  Algengt er líka að ungmenni einangrist fyrir framan tölvuskjáinn sem eykur líkur á að viðkomandi komi sér ekki út á vinnumarkað, verði þar af leiðandi bótaþegi og dæmdur af þeim sökum til félagslegrar og efnahagslegrar fátæktar.

Einnig hefur ofangreind rannsókn á vegum menntamálaráðuneytis sýnt fram á að framhaldsskólanemar eigi erfiðara en áður með að skapa traust samskipti við foreldra sína og leita síður til þeirra eftir aðstoð við heimanám. Á sama tíma finna þau fyrir auknum kröfum í námi og ekki síður í jafningjahópnum þar sem áhrif hnattvæðingar á staðalmyndina hafa skekkt sýn þeirra á heilbrigða sjálfsmynd og hækkað markið töluvert þegar kemur að samanburði. Leyfi ég mér að segja að flest okkar finni að einhverju marki fyrir þeim áhrifum.

Sem lýðræðislegt samfélag viljum við að börnin okkar þrói með sér borgaravitund sem gerir þeim frekar kleift að fagna og hampa fjölbreytileikanum. Við viljum að þau hafi rödd og læri að nýta sér hana til framdráttar á uppbyggilegan hátt og á jafningjagrundvelli. Við viljum að börnin okkar eigi sér von um bjarta framtíð og gangi örugg inn í heim fullorðinna þar sem þau eru metin að verðleikum, fái tækifæri til að blómstra á eigin forsendum og að þau alist upp við þá sýn að draumar þeirra geti ræst.

Ungmennin okkar eru að upplifa sig í meira mæli en áður einmana og óörugg og fjöldi ungmenna ræður illa við námsumhverfið og hverfur frekar frá skipulögðu tómstundastarfi ef um slíkt er að ræða. Þetta verður til þess að innri hvati þeirra dofnar. Það kallar á lakari lífsskilning og ungmennin eiga erfiðara með að sjá tilgang með skólagöngu sinni sem skyggir verulega á trausta framtíðarsýn.

Samkvæmt þessu þykir nokkuð ljóst að stuðningur í framhaldsskólum þarf að stóraukast og mæta þarf ólíkum þörfum nemanda með því að byggja trausta brú á milli skólastiga. Þá ætti að byggja nemendur smám saman upp fyrir framhaldsskólana á elsta stigi grunnskólanna, því allt skipulag í framhaldsskólum er gjörólíkt því sem þau eiga að venjast. Má þá ætla að þau séu betur í stakk búin til þess að tileinka sér þá námstækni sem kemur í kjölfar aukinnar sjálfsábyrgðar í námi.

Með þessum orðum hvet ég Barna- og félagsmálaráðherra í samvinnu við  Mennta- og menningarmálaráðuneytið til þess að grípa til aðgerða hið snarasta, því ef miða á við heimsmarkmiðin árið 2030, má ætla að um 9000 nemendur hverfi frá námi á þessum 9 árum. Enn fremur hvet ég það frábæra starfsfólk, sem vinnur með þessum efnilegu ungmennum okkar  innan framhaldsskólanna, að láta í sér heyra því oftar en ekki er það starfsfólkið sem býr yfir lausnunum.  Ef aðgerðir stranda á fjármagni skal ígrunda vel þann kostnað sem aðgerðarleysi í þessum efnum getur haft í för með sér til framtíðar.

Valgerður Erlingsdóttir

 

 

 

 

Heimildir:

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Sótt af:  https://www.barnasattmali.is

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. (2015). Sótt af: https://www.heimsmarkmidin.is/

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Jón Sigfússon, Erla María Tölgyes, Ingibjörg Eva Þórisdóttir, Þorfinnur Skúlason, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Álfgeir Logi Kristjánsson. (2020). Ungt fólk 2020 -framhaldsskólar, staða og þróun meðal 16 til 20 ára framhaldsskólanema yfir tíma.  Rannsóknir og greining, Menntamálaráðuneytið.  Sótt af: https://rannsoknir.is/wp-content/uploads/2021/01/Ungt-folk-_-Framhaldsskolar-2020.pdf

Mennta og menningarmálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá framhaldsskólanna.  Sótt af: https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/MRN/Adalnamskra%20framhaldsskola_2_utg_breyt_2015_.pdf