Að elska sjálfan sig

Fyrir mér er það að læra að elska sjálfan sig eins og maður er ótrúlega mikilvægt. Frá því að ég var barn hef ég haft mjög lítið sjálfsöryggi og það var verst á unglingsaldri. Ég var alltof feit, ekki nógu flott, o.fl. Ég sé svo eftir því að hafa ekki bara elskað sjálfa mig eins og ég var í staðin fyrir að rífa mig niður. Ég hefði óskað þess að einhver hefði sýnt mér að hver og einn er sérstakur á sinn hátt og það er engin ein rétt leið þegar kemur að útliti. Ég tel að lykilinn að hamingju sé að læra að elska sjálfan sig fyrst og fremst. Það eru alltof fáir sem elska sjálfan sig eins og þau eru.

Þetta er mikilvæg umræða og sérstaklega fyrir börn og unglinga. Við þurfum að setja góð fordæmi og kenna þeim að elska sjálfan sig eins og þau eru frá unga aldri. Ég hef unnið með börnum og unglingum núna í nokkur ár og mér finnst sorglegt hvað stór hluti af þeim hefur lítið sem ekkert sjálfstraust. Það er skrítið hvernig við leyfum okkur að tala um okkur sjálf, við segjum margt um okkur sjálf sem við myndum aldrei segja við aðra manneskju. Það er alltof mikið af ungu fólki og þá sérstaklega stelpum sem hata hvernig þau líta út og þá í samanburði við það sem er „samfélagslega rétta útlitið“.

Mér finnst samfélagsmiðlarnir vera okkar stærstu óvinir þegar kemur að þessu. Á samfélagsmiðlunum er verið að senda okkur óbein skilaboð hvernig við eigum að vera og hvað við þurfum að gera til að verða samþykkt af samfélaginu. Mér finnst önnur hver auglýsing vera um hvernig maður á að grenna sig og oft á mjög óheilbrigðan hátt. Við þurfum að læra að elska okkur sjálf áður en við elskum aðra og leyfum öðrum að elska okkur. Það tekur tíma að læra að elska sjálfan sig, hlusta ekki á samfélagslegan þrýsting gagnvart útliti en þegar upp er staðið er það þess virði.

Það vantar meiri umræðu og fræðslu fyrir börnin og unglingana. Ef við byrjum nógu snemma að kenna þeim að elska sig sjálf þá verður þetta eitthvað sem við gerum sjálfkrafa. Við eigum að fagna því að við séum fjölbreytt, það væri ekkert gaman ef allir væru eins. Ég átta mig ekki á því af hverju það er stimplað svona fast inní hausinn á okkur að við þurfum að vera grönn, alveg sama hvort það sé gert á heilbrigðan hátt eða ekki. Ef við förum með þetta í öfgar þá myndi ég halda að það væri erfiðara að vinna sig uppúr anorexíu en offitu. Ég veit um nokkrar stelpur sem litu út fyrir að vera í mjög góðu líkamlegu formi en þær voru að svelta sig og hreyfingin var komin í öfgar. Með því að grennast á óheilbrigðan hátt er mjög líklegt að heilsan hrynji og maður verði lengi að ná sér eftir það. Svo lengi sem við erum heilbrigð og borðum hollan og næringarríkan mat þá erum við í góðum málum sama hvernig holdafarið er.

Samfélagsmiðlarnir eru aðeins að breytast og sýna réttu hliðarnar en ekki bara glans hliðarnar. Það eru margir áhrifavaldar farnir að sýna hvað uppstilling skiptir miklu máli þegar myndir eru teknar og þau bera saman uppstillta mynd og svo venjulega mynd og þar sést mikill munur.

Að elska sjáfan sig eru stærstu skref sem fólk getur tekið í lífinu.

Guðbjörg Halldórsdóttir