Er ég velkominn hér?

Flestir hafa lent í því að finnast þeir ekki velkomnir einhversstaðar. Hvort sem það er á vinnustað, heima hjá einhverjum sem er manni nærri eða bara meðal fólks sem maður þekkir ekki. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að finnast við vera velkomin og það skiptir ekki máli á hvaða aldri við erum. Mér finnst gott að heyra góðan daginn þegar ég fer í búðina eða að hótelherbergið mitt sé vel upp á búið og hreint þegar ég leyfi mér þannig munað, það er búið að sjá um hlutina þannig að mín upplifun sé góð og að ég upplifi að ég sé velkominn aftur. Lesa meira “Er ég velkominn hér?”

Þeirra annað heimili

Af hverju skiptir það máli að hafa sérhúsnæði fyrir frístundastarf?

Húsnæði fyrir félagsmiðstöðvar sem og frístundaheimili er grundvöllur þess að halda úti góðu og virku starfi. Í húsnæðinu þarf að vera gott flæði þar sem mikil starfsemi fer fram. Húsnæðið þarf að hafa mikið rými svo að krakkarnir hafi pláss til að leika sér. Það er gríðarlega mikilvægt starf sem fer fram í félagsmiðstöð eða á frístundaheimili. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vellíðan barna og ungmenna eykst með frítímastarfi eða tómstundastarfi. Í starfinu sjálfu er einnig lögð áhersla á gildi forvarna, sköpunargleði og að starfsemi sé fagleg og byggi á uppeldisgildum frítímans. Að vera með eigið húsnæði fyrir frístunda- og félagstarf í skólum er mikilvægt vegna þess að það skapar öryggi hjá þeim sem sækja starfið. Þegar starfið fer fram í föstu húsnæði þá þekkja krakkarnir það og það dregur úr kvíða og óvissu hjá börnum því að þetta er staður sem þau þekkja sig á. Þetta er þeirra staður. Að hafa stað þar sem allir í hverfinu, börn og unglingar, geta leitað í til að sinna frístunda- og tómstundastarfi, er mikilvægt. Í sumum tilfellum eru þessi hús einhverskonar annað heimili barnanna og viljum við að þetta húsnæði sé þeirra og að þau séu alltaf velkomin.

Reynsla Maríu
Reynsla mín af því að hafa haft sér húsnæði fyrir starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva er til fyrirmyndar. Þar sem ég ólst upp var sér húsnæði fyrir þessa starfsemi og húsnæðið byggt nýtt fyrir aðeins þessa starfsemi. Í þessu húsnæði var og er nóg svæði fyrir allt og alla sem vilja þar vera með í starfinu. Í húsnæðinu er mikið opið rými og mörg minni rými sem var hægt að nýta í allt á milli himins og jarðar. Allir árgangar höfðu rými til þess að nýta sér húsnæðið þó ekki allir á sama degi á sama tíma en skipulag og góð nýting skiptir öllu máli. Eldhús, matsalur, hjólastólaaðgengi, salur fyrir böll, leikrými fyrir yngri árgangana og svo mætti lengi telja.  

Hér er ég með þau forréttindi að hafa fengið þetta húsnæði og notið góðs af. Af hverju eru ekki allir með sömu réttindin og fá húsnæði sem hentar þeim?

Reynsla Margrétar
Ég vinn í einum af stærstu grunnskólum landsins og eru margir krakkar sem taka þátt í frístundastarfinu hjá okkur. Við höfum lent í vandræðum með húsnæðið og var það einfaldlega út af því að aðstaðan var orðin of lítil til að koma til móts við alla krakkana. Starfið var staðsett inn í grunnskólanum í endanum á einum ganginum þar sem voru í raun tvær stofur og eitt millirými. Einstaka sinnum fengum við afnot af stofum en það voru ekki vinsælar lausnir á meðal kennara. Við vorum oft sökuð um að ganga illa um og fara ekki vel með dótið inn í stofunum. Við þurftum því oft að sætta okkur við litla hornið okkar. Á svona litlu svæði geta myndast mikil læti. Þessi læti höfðu slæm áhrif á bæði starfsmennina og krakkana. Ég man oft eftir því að hafa komið heim þreytt og með hausverk og veit ég að það voru fleiri sem fundu fyrir þessu. Lítil svæði útiloka líka þann möguleika að krakkarnir geti farið og verið í friði þegar þau þurfa á því að halda. Þannig getur myndast pirringur hjá krökkunum sem ýtir undir stress og vinnu hjá starfsfólkinu.

Við höldum að húsnæðismálum fyrir frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sé oft ábótavant og gleymist þegar kemur að því að byggja upp hverfi. Nú er endalaust verið að byggja ný húsnæði. Það er talað um að bæta við íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Það er verið að tala um að byggja nýja grunnskóla og leikskóla en hvað með að byggja gott frístundaheimili eða félagsmiðstöð? Það að byggja aðstöðu fyrir krakkana til að geta komið og leikið sér án þess að vera hrædd um að stíga á tærnar á næsta manni ætti að vera eitt af forgangsatriðum þegar kemur að því að byggja upp hverfi. Í sumum hverfum eru húsnæðisaðstæður fyrir þessa starfsemi til fyrirmyndar en í öðrum hverfum er hægt að gera betur.

Margrét Stefanía Þorkelsdóttir og María Lilja Fossdal eru nemendur í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands