Er ég velkominn hér?

Flestir hafa lent í því að finnast þeir ekki velkomnir einhversstaðar. Hvort sem það er á vinnustað, heima hjá einhverjum sem er manni nærri eða bara meðal fólks sem maður þekkir ekki. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að finnast við vera velkomin og það skiptir ekki máli á hvaða aldri við erum. Mér finnst gott að heyra góðan daginn þegar ég fer í búðina eða að hótelherbergið mitt sé vel upp á búið og hreint þegar ég leyfi mér þannig munað, það er búið að sjá um hlutina þannig að mín upplifun sé góð og að ég upplifi að ég sé velkominn aftur.

Á unglingsárunum erum við sífellt að máta okkur félagslega við hitt og þetta og prófa okkur áfram. Við prófum íþróttir, höngum með nýjum vinum eða förum í félagsmiðstöðina að hitta annað fólk. Félagsmiðstöðvar eru eins misjafnar og þær eru margar. Sumar eru í skólum, sumar alveg sér og sumar eru með aðra starfsemi á daginn. Opnunartími er misjafn og klúbbastarf þekkist sumsstaðar en annarsstaðar ekki.  Flestar vinna þó hart að því að búa þannig um hnútana að unglingunum finnist þeir velkomnir svo þeir vilji koma aftur.

Undirritaður vinnur í félagsmiðstöð úti á landi sem er alla jafna mjög vel sótt. Félagsmiðstöðin er í fínu húsnæði með gott aðgengi fyrir alla þrátt fyrir að vera á efri hæð. Í húsnæðinu er lyfta, það er þröskuldalaust með breiðum hurðum og aðgengi að salerni er mjög gott. Húsnæðið er nýtt á daginn sem frístund fyrir þriðja til fjórða bekk og dagstarf fyrir eldri börn sem þurfa stuðning. Það starf hentar ágætlega í húsinu þó að full þröngt sé orðið um starfið enda fjöldi barna þar nánast þrefaldast á þremur árum og starfsfólki fjölgað um leið.

Með fjölgun tómstundafræðinga og meira af menntuðu fólki er starfið að vaxa og dafna. Tómstundafræðingar vilja, og þurfa, frelsi til að þróa starfið í sínu bæjarfélagi og vinna að því að gera það betra til að ná til sem flestra. En til að það gerist þurfum við að fá frelsi í því húsnæði sem við erum í og finnast við velkomin til að gera það. Einnig þurfa þeir sem nota þjónustuna, unglingarnir okkar, að finnast þeir velkomnir svo að þau geti látið sitt ljós skína. Þegar starfsemin er orðin þannig að lítið má hreyfa við herbergjum út af plássleysi eða að það myndi bitna á „hinni starfseminni“ að þá eru strax komnar hindranir sem erfitt er að fara yfir. Hér er einungis verið að tala út frá félagsmiðstöðinni en ekki frístundinni en auðvitað á frístundin jafnan rétt og félagsmiðstöðin að vera í húsinu og er ég alveg viss um að þetta bitnar líka á yngri krakka starfinu.
Svona samstarf þar sem tvær einingar deila húsnæði getur alveg gengið á pappír. En þegar einingarnar stækka og börnum og starfsfólki fjölgar að þá hlýtur eitthvað að bresta og einhverjum finnst hann ekki velkominn.

Ég hef undanfarnar vikur átt óformlegt samtal við unglingana sem sækja félagsmiðstöðina og hef komist að því að þeim finnst þau ekki alltaf velkomin. Undirritaður getur bara talað fyrir sinni reynslu og hún er almennt góð af því að deila húsnæði og allir hafa unnið saman að því að gera vel fyrir hina. En þegar starfsemin stækkar og stækkar en húsnæðið ekki að þá endar þetta með því að húsnæðið er bara of lítið til að deila því. Þegar það gerist upplifum við að við séum ekki velkomin og er það hornsteinninn í því starfi sem við erum að vinna, að bjóða ungt fólk velkomið og hlúa að þeim eins og við getum og viljum.

Ársæll Rafn