Grunur um ofbeldi og vanrækslu – Hvað er næsta skref?

Tengsl á milli foreldra og barns virðast skipta miklu máli fyrir framtíð hvers og eins og hvernig við mótumst sem fullorðnir einstaklingar, til dæmis hvernig við hegðum okkur og hvaða gildi við höfum. Í barnæsku er mikilvægt að mynduð séu sterk tengsl á milli foreldra og barns svo að barnið muni þróa með sér góða sjálfsmynd. Ef slík tengsl eru ekki mynduð vegna skorts á getu til að sýna umhyggju er meiri hætta á að seinna meir muni barnið leiðast út í óæskilega hegðun. Foreldrar eða forráðamenn sem hafa ekki tök né yfirsýn á hvaða skyldur þau hafa ná oft á tíðum ekki að sinna skyldum sínum þegar kemur að uppeldi barna sinna. Það getur leitt af sér vanlíðan sem getur þróast út í kvíða, þunglyndi og slakari námsframvindu. Foreldrum ber skylda til að sinna nauðsynja þörfum barna sinna. Af hverju ætti barn að þurfa að búa við vanrækslu? Hvar er skólinn, barnavernd, aðstandendur, frístund?

Tómstunda- og félagsmálafræðingar hafa oft á tíðum mikil áhrif í lífi barnanna og það sama á við um starfsfólk í leik- og grunnskólum svo eitthvað sé nefnt. Það er því mikilvægt að þau séu vel upplýst um verklagsferla þegar grunur er um vanrækslu/ofbeldi hjá barni. Einnig er það mikilvægt að þau séu örugg og tilbúin til að takast á við þau mál, þekki einkennin og leyfi því ekki að fljóta fram hjá sér.  Þeim sem starfa með börnum ber skylda til að tilkynna grun um vanrækslu og ofbeldi til barnaverndaryfirvalda. Í 19. grein í Barnasáttmálanum stendur að stjórnvöld eigi að gefa þeim börnum sem þurfa á því að halda vegna misnotkunar eða vanrækslu vernd og viðeigandi stuðning.

Til þess að stjórnvöld geti sinnt þeim börnum sem þurfa á því að halda þurfa þau að fá upplýsingar um þessi börn sem þarfnast aðstoðar. Þessar upplýsingar koma oft frá kennurum, ráðgjöfum, leikskólakennurum og slíkum fagmönnum en einnig vinna með börnum leiðbeinendur sem ekki búa yfir sömu þekkingu á verkferlum barnaverndarnefndar og hafa því hugsanlega ekki sömu þekkingu. Að mínu mati er því mikilvægt að verklag eins og þetta sé skýrt fyrir nýju starfsfólki og þær upplýsingar séu alltaf aðgengilegar. Almennar upplýsingar um vanrækslu, hvernig getur hún komið fram í hegðun og framkomu og hvernig skal bregðast við finnst mér ábótavant og gott er að vekja athygli á þessari umræðu svo fólk sé meira vakandi. Allir ættu að hafa augun opin. Öll börn ættu að vera örugg í sínu umhverfi og vera umkringd umhyggju og ást.

Ég legg til að nýir starfsmenn fái ítarlega kynningu á málum líkt og þessum. Til dæmis væri hægt að hafa fræðslu eða námskeið fyrir nýja starfsmenn um hvernig skal bregðast við ef grunur um vanrækslu/ofbeldi kemur upp. Verklagið ætti einnig alltaf að vera aðgengilegt á starfsstaðnum. Hlúum að börnunum og sinnum vinnunni okkar fagmannlega!

Una Birna Haukdal Ólafsdóttir