Af hverju þarf ég að skilgreina mig og koma út úr einhverjum skáp?

Og hvaða skápur er þetta?

Þegar ég var yngri vissi ég ekki hvað væri að vera samkynhneigður eða tvíkynhneigður fyrr en ég var í 8.bekk og var það út af því að kennarinn minn fékk kynningu frá samtökunum ´78. Þar komu einstaklingar og kynntu starfið og útskýrðu skilgreiningarnar og þá var það fyrst sem ég skildi tilfinningarnar hjá sjálfri mér og fyrsta skipti sem ég átta mig á sjálfri mér og hver ég væri. En ég faldi alltaf hvernig mér leið og var komin í afneitun á sjálfri mér og var það ekki fyrir en 2016 sem ég samþykki loksins sjálfa mig. En mér finnst samt ég ekki þurfa að koma út. Ég má vera með hverjum sem ég vil og þurfa ekki að skilgreina sjálfa mig.

Ég átti erfitt með að viðurkenna þetta fyrir sjálfri mér því mér fannst eins og það væri búið að gera einhverja staðalímynd af samkynhneigðum konum og ég vildi alls ekki vera sett í svoleiðis. Þannig ég var í afneitun í mörg ár. Svo var alltaf verið að nota orð eins og lessa eða trukkalessa og fannst mér þessi orð ekki falleg og ég vildi ekki flokkast undir þetta því það var notað svo mikið á niðrandi hátt.

Í dag er til frábær félagsmiðstöð fyrir hinsegin krakka sem ekki allir vita af og þarf að laga það og halda kynningar um þær. Eins og ég vissi ekki þegar ég var yngri að það væri til einhver félagsmiðstöð fyrir hinsegin krakka og fattaði aldrei að skoða það því ég vildi ekki trúa að ég væri hinsegin. Þá var þessi félagsmiðstöð pínulítil en orðin mjög stór í dag. Hún opin öllum og það er engin sem mun dæma þig þar og þar getur þú verið þú sjálfur.

Mér finnst í dag miklu meiri fræðsla og fleiri fyrirmyndir fyrir krakka í dag en var þegar ég var yngri. Ég þekkti engan sem var hinsegin eða vissi um. Ég hefði viljað þegar ég var yngri að hafa konur eins og Maríu og Ingileif sem eru með Hinseginleikann  á Instagram sem í dag ég lít mikið upp til. Þær eru algjörar fyrirmyndir og fá fólk til að taka instagrammið og kynnast sér og lífi þeirra. Þar fær maður að kynnast fjölbreytileikanum og þá verða til fleiri fyrirmyndir.

Ég þoli ekki að ég þurfi að skilgreina mig á einhvern hátt, ég er á móti skilgreiningum en þegar ég þarf að skilgreina mig út af hvernig heimurinn er þá er ég samkynhneigð kona. Þá pæli ég oft í því af hverju þarf ég að koma út úr einhverjum skáp? Af hverju þarf fólk sem er gagnkynhneigt ekki að koma út úr skápnum sem gagnkynhneigt?

Nú spyr ég fólk sem les þessa grein sem eru gagnkynhneigðir ; hvenær komst þú út úr skápnum sem gagnkynhneigð? Þetta er eitthvað sem mér finnst að allir ættu að hugsa og pæla í. Þetta er alveg sama spurning og að spyrja samkynhneigðan einstakling hvenær hann kom út úr skápnum.

Hvaða skápur er þetta sem allir eru að tala um?

Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir