Okkur líður öllum allskonar

Tilfinningar eru flókið fyrirbæri sem eiga þó alltaf rétt á sér. Það er okkur mannlegt eðli að upplifa tilfinningar, þær eru margvíslegar og þjóna allar ákveðnum tilgangi. Tilfinningar koma við ýmsar aðstæður, ást, ástarsorg, reiði, hamingja, gleði, kvíði, hræðsla, ótti og svo framvegis. Það er mikilvægt að vita að það er í lagi að vera ekki upp á sitt besta, að eiga góða og slæma daga. Oft og tíðum vitum við nefnilega ekkert endilega af hverju þessar tilfinningar eru til staðar. Af hverju okkur líður eins og okkur líður. Á unglingsaldri eigum við oft erfitt með að skilja þessar flóknu tilfinningar og bregðumst við þeim á mismunandi hátt, byrgjum þær jafnvel inni vegna þess að við skömmumst okkar fyrir þær. En að byrgja tilfinningar inni gerir illt verra og á endanum springa þær út.

Unglingsaldurinn er viðkvæmur. Við þurfum að læra að tala um tilfinningarnar okkar og standa saman. Við þurfum að hjálpa unga fólkinu okkar, gefa því rödd og leyfa því að finna fyrir tilfinningum sínum. Kenna þeim að það má tala opinskátt um tilfinningar og fá hjálp ef þörf er á. Það er líka mikilvægt að við lærum að við erum ekki tilfinningarnar okkar og þær ákveða ekki hver við erum. Tilfinningar eru tímabundið og breytilegt ástand, koma og fara. Við getum fundið fyrir mismunandi tilfinningum á sama tíma. Það sést ekki alltaf utan á okkur og bakvið eitt lítið bros geta leynst margar tilfinningar. Við vitum aldrei hvað fólk er að bera þunga hluti á bakinu, hvað þau hafa eða eru að ganga í gegnum og því er mikilvægt að koma fram við náungan eins og þú vilt að komið sé fram við þig. Við erum góð í allskonar niðurrifi og gagnrýni en eigum erfiðara með að hrósa og athuga með fólkið okkar.

Það er eðlilegt að eiga slæma daga. Það eru ekki allir dagar og við erum ekki fullkomin. Það væri mjög óeðlilegt ef við ættum aldrei slæma daga og fyndum aldrei fyrir vondum tilfinningum. Okkur líður öllum allskonar. Tilfinningar eru oft tabú og fólki finnst erfitt og skömmustulegt að tala um þær. Sem er svo sem ekkert svo skrítið þegar viðbrögð annars fólks geta verið ,,hvað hefurðu ekki húmor?” Húmor er oft notaður til að afsaka slæma hegðun í garð annarra. ,,Þú ert ,,klikkuð/klikkaður” og ,,þú ert of viðkvæm/viðkvæmur”. Viðkvæmni er til dæmis ekki veikleiki. Það er ekki veikleikjamerki að finna fyrir tilfinningum. Þessar tilfinningar koma af ástæðu, þær innihalda hugsanir og líðan vegna ákveðins hlutar eða atburðar í umhverfinu. Samfélagið hefur sagt okkur að tilfinningar séu tabú, og að það eigi ekki að ræða þær. Oft og tíðum þegar unglingsstelpur reyna að tjá sig eða bregðast við einhverju á hátt sem ekki þykir ,,eðlilegur” eru þær kallaðar dramadrottningar eða þeim sagt að vera ekki með þetta drama. Þá erum við um leið að þagga niður og gera lítið úr tilfinningum þeirra og að hunsa þarfir. Strákum er kennt frá unga aldri að vera sterkir, gráta ekki og sýna ekki tilfinningar. Þeim er í raun sagt að byrgja þær inni.

Þessu þarf að breyta. Með meiri samfélagsumræðu, samkennd og samstöðu. Við þurfum að koma tilfinningum okkar oftar í orð, sérstaklega ef um vondar tilfinningar er að ræða. Enginn á að burðast einn með sársauka.

Hólmfríður Svala Ingibjargardóttir