Mitt innra nörda sjálf

Sem foreldrar, kennarar eða starfsmenn skóla og félagsmiðstöðva gerum við okkar besta til þess að koma í veg fyrir það að börn og unglingar verði fyrir neikvæðum áhrifum frá umheiminum. Við teljum okkur hæf í að meta hvað skuli varast og hvað sé eðlileg hegðun. Við teljum til dæmis óeðlilegt að börn eða unglingar hangi ekki eftir skóla með vinum sínum eða stundi ekki tómstundir eins og fótbolta eða skátastarf. Foreldrar sem eiga unglinga sem spila mikið af tölvuleikjum og eyða jafnvel yfir 15 klukkustundum á viku inn í herberginu sínu að spila líta á veruleika barnsins sem verulegt vandamál sem þurfi að laga án þess að hafa kynnt sér ástæður barnsins fyrir þessari ákveðnu tómstund.

Hér á eftir kemur sagan mín þar sem að ég varð fyrir þeirri uppljómun að komast að því að ég á mitt innra nörda sjálf. Lesa meira “Mitt innra nörda sjálf”

Útivera fyrir alla

kristin kristinsdottirAð vera úti er hollt og gott fyrir alla og bætir heilsuna, hvort sem að það er andlega heilsan eða líkamlega. Ég tel að það sé mikilvægt að börn og fullorðnir séu duglegir að fara út, anda að sér fersku lofti og tæma hugann í fallegu náttúrunni okkar. Sjálf hef ég mikinn áhuga á útivist og er sannfærð um að það sé besta meðalið við þeim kvillum sem geta hrjáð okkur. Lesa meira “Útivera fyrir alla”

Skilgreining á hugtökum á vettvangi frítímans

Þegar sessunautur minn á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir rakst á setningu sem stuðaði hann úr nýsamþykktri stefnu í æskulýðsmálum fyrir árin 2014-2018 spruttu fram líflegar umræður um hugtök og hugtakarugling á vettvangi frítímans. Setningin er svohljóðandi:

„Stuðla að jafnvægi milli þátttöku í æskulýðsstarfi, öðru frístundastarfi, fjölskyldulífi og námi.”

(Menntamálaráðuneytið, 2014)

Umræðan sem fór af stað snéri s.s. að því hver væri munurinn á æskulýðsstarfi og öðru frístundastarfi. Allir sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um að frístundastarf og tómstundastarf væri sama hugtakið og að æskulýðsstarf myndi svo flokkast þar undir. Ég viðurkenni að ég var sjálfur ansi hvumpinn yfir þessum hugtakaruglingi en þegar ég les þetta nú aftur er ég hjartanlega sammála þessari setningu.

Ungmenni getur tekið þátt í æskulýðsstarfi, námi, fjölskyldulífi og öðru frístundastarfi sem gæti t.d. verið málfundarfélag með fullorðnum einstaklingum. Það myndi flokkast undir frístundastarf en ekki æskulýðsstarf. En þessar endalausu umræður kalla alltaf eftir því að tekið verði á skarið og hugtök skilgreind.

Nú stendur yfir mikil vinna og er það gott og vel en ég vil leggja mitt á vogaskálarnar og koma með skilgreiningar á þessum helstu hugtökum. Ég vona að sem flestir verði ósammála mér og blandi sér í umræðuna með sínar uppástungur. Svona stilli ég upp hugtökum og uppröðun á þeim. Ég leitast svo við að skilgreina hugtökin fyrir neðan myndina.

Skilgreining á vettvangi frítímans

Skilgreiningar á helstu hugtökum

Frítími (e. free time)

Frítími er allur sá tími sem við höfum til aflögu og ráðum hvernig við ráðstöfum. Með öðrum orðum tími sem við erum ekki bundin verkefnum, starfi, skyldum eða þörfum. Við getum bæði nýtt þennan tíma til góðra hluta og slæmra.

Tómstundir / frístundir (e. leisure)

Engin eðlismunur er á hugtakinu tómstundir og frístundir. Það er hægt að rökræða þetta lengi en þetta er svipað og fólk sem eyðir tíma sínum í að rökræða hvort maður segir „gat” eða „eyða” þegar frí er milli kennslustunda í stundatöflu. Tóm stund eða frí stund er sami hluturinn og smekksatriði hvað fólki finnst fallegra. Það er bara gott og blessað.

„Í grundvallaratriðum má segja að tómstundir eigi sér stað í frítíma. Tómstundir eru því athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum og flokkast sem tómstundir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur á að um tómstundir sé að ræða. Að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif. Kjarni tómstunda má segja að felist í vellíðan og aukningu á lífsgæðum.

Í þessari skilgreiningu er gerður skýr greinarmunur á frítíma og tómstundum. Tómstundir eiga sér yfirleitt stað í frítíma en ekki allur frítími er tómstundir. Afstaða er því tekin gegn þeim sem líta á glæpi og ýmsa niðurbrjótandi hegðun sem tómstundir en með þeim sem líta svo á að tómstundir séu jákvæðar og uppbyggjandi. “

(Vanda Sigurgeirsdóttir, 2010)

Undir tómstundastarf koma svo ýmsir undirflokkar sem skilgreinast einna helst af markhópnum sem starfið snýr að. Dæmi um tómstundastarf er því félög og klúbbar fyrir fullorðna eða blandaða aldurshópa og félagsstarf aldraðra. Æskulýðsstarf flokkast einnig undir tómstundastarf.

Æskulýðsstarf (e. youth work)

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er æskulýðsstarf skilgreint sem:

„Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára.”

Undir æskulýðsstarf flokkast þá:

  • Frístundaheimili
  • Félagsmiðstöðvar
  • Ungmennahús
  • Starf frjálsra félagasamtaka sem snýr að ungu fólki og uppfyllir skilgreininguna hér að ofan
  • Sjálfstætt starf og félög ungs fólks sem uppfylla skilgreininguna hér að ofan

Allir sem starfa sem sjálfboðaliðar eða launaðir starfsmenn við æskulýðsstarf eru kallaðir æskulýðsstarfsmenn (e. Youth worker). Þetta á jafnt við um sjálfboðaliða og starfsmenn sem frá greitt fyrir vinnu sína enda eru hlutverk og markmið þau sömu. Stundum hef ég heyrt að það vefjist fyrir fólki þetta orð „starfsmaður” ef ekki eru greidd laun fyrir. Fyrir þá sem hugsa svoleiðis vil ég vekja athygli á yfirheitinu „æskulýðsstarf” sem gefur til kynna að visst starf sé unnið burt séð frá því hvort greitt sé fyrir vinnuna eða ekki. Einnig er gott að skoða orðræðuna okkar um „að starfa”, t.d. Sigurður hefur gengt ýmsum störfum fyrir samtökin, Sigurður hefur verið virkur í starfinu í mörg ár, Sigurður hefur unnið gott starf fyrir félagið. Við hikum ekki við að tala um störf og starf sem einstaklingar vinna í sjálfboðavinnu og því ekkert að því að kalla þá starfsmenn.

Lokaorð

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta er ekki sú hugtakanotkun sem allir hafa notað alltaf. EN ég tel að þetta séu skýr hugtök og að ef við sem þjóð, starfsvettvangur eða hvað það er sem sameinar okkur, ákveðum að notast við skýr hugtök næstu árin munu allir geta sammælst um merkingu þeirra.

Ég meina gaffall heitir ekki gaffall nema út af því að við ákváðum að kalla hann gaffal!

Heimildir

Menntamálaráðuneytið. (2014). Stefnumótun í æskulýðsmálum 2014-2018. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010, 31. desember). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Sótt 16. janúar 2013 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf.

Æskulýðslög nr. 70/2007.

Spennandi ár framundan hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu

DSC_0095-2

Nú þegar sumarið fer að líða undir lok og fólk mætir aftur til vinnu eftir sumarfrí þá fer starfsemi Félags fagfólks í frítímaþjónustu á fullt. Við í stjórn FFF ásamt nefndum höfum verið útbúa starfsáætlun fyrir veturinn og hefur hann sjaldan litið jafn vel út. Nú þegar er skráning hafin á námskeið fyrir leiðbeinendur í Reynslunámi en það er haldið í samstarfi við Áskorun ehf og má nálgast frekari upplýsingar hér en örfá sæti eru laus á þetta spennandi námskeið.

Í vetur stefnir fagfélagið á að halda 2 hádegisfyrirlestra á önn en þeir hafa verið vel sóttir síðastliðin ár. Fagfélagið mun í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn halda fimm námskeið í Litla Kompás víðsvegar um landið á haustönn. Einnig stefnum við á að halda fleiri námskeið í samstarfi við Háskóla Íslands en það samstarf hófst á síðasta ári og lukkaðist afar vel.

Ein spennandi nýjung sem við í stjórninni erum þegar byrjuð að undirbúa er námsferð sem fagfélagið stefnir á að fara í á næsta ári. Stefnan væri þá að ferðast til Evrópu, kynnast systrasamtökum FFF ásamt því að fá innsýn inn í það nýjasta í frístundastarfinu úti.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í spennandi starfi fagfélagsins í vetur þá hvetjum við þig til að skrá þig í félagið en það er gert með einföldum hætti hér.

Hér má svo lesa starfsáætlun stjórnarinnar í heild sinni.
Likeaðu við FFF á Facebook

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu

 

Tómstundamenntum þjóðina!

Innsend grein frá Agnari Júlíussyni tómstunda- og félagsmálafræðingi


Eitt sinn þegar ég var að gramsa á internetinu vegna verkefnis sem ég þurfti að skila af mér í háskólanáminu rakst ég á frétt í Viðskiptablaðinu frá 1. janúar 2010 sem nefndist “Kostnaður vegna öldrunar hleðst upp” og byggði hún meðal annars á grein sem finna má á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þar kemur meðal annars fram að fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri kemur til með að tvöfaldast á næstu fjórum áratugum í hlutfalli við fólk á vinnumarkaðsaldri ef við getum kallað það svo, það er að segja í Evrópu. Vegna þessa munu útgjöld vegna heilbrigðis- og lífeyrismála stóraukast og Framkvæmdastjórn ESB áætlar að þau muni aukast að jafnaði um 3.4% af landsframleiðslu á ári, 2.3% vegna lífeyris og 1.1% vegna heilbrigðis og umönnunar aldraðra.

Verg landsframleiðsla á Íslandi í krónum talið var 1.537.106.000.000 (rúmlega 1.537 milljarðar ISK). Ef við tökum lífeyrinn út og reiknum bara með heilbrigðismálum og umönnun aldraðra þá gæti kostnaðurinn verið um það bil 1.7 milljarður ISK sem hann hækkar ár frá ári. Heildarútgjöld til þjónustu vegna aldraðra í árslok 2010 var 7.209.000.000 kr (rúmlega 7 milljarðar ISK).

Í framhaldinu af þessu fór ég á vef Hagstofu Íslands og kannaði fjölda aldraðra á Íslandi. Í ársbyrjun 2010 voru íslendingar 65 ára og eldri 38.069 manns, þar af voru 3.079 manns sem þurftu að leita til hjúkrunar- og dvalarheimila eða á öldrunar- og hjúkrunarlækningarými sjúkrahúsanna. Hlutfall þeirra af heildarfjölda einstaklinga yfir 65 ára aldri er því 8%.

Ef við gefum okkur að þetta hlutfall muni haldast óbreytt (8%) og heimfærum það upp á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, þá má áætla að fjöldi þeirra sem þurfa að leita til öldrunar- og hjúkrunarlækningarýma og dvalarheimila verði hátt í 8.000 manns árið 2060, miðað við að fjöldi íslendinga 65 ára og eldri verða 110.964.

Hafi menn haft ærna ástæðu til þess að kvarta undan ICESAVE-reikningnum á sínum tíma, þá er komin hér nægjanleg góð ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af framtíð hagkerfis Íslands.

En hvað er ég að tuða, tómstunda- og félagsmálafræðingurinn um hagtölur og hagkerfi Íslands?

Ástæðan er einfaldlega sú að með þátttöku í heilbrigðum skipulögðum tómstundum viðheldur maður félagslegri færni, viðheldur andlegu og líkamlegu heilbrigði og þar með er kannski hægt að minnka líkurnar á því að maður þurfi á dýrri þjónustu að halda þegar á efri árin er komið.

Grískir heimspekingar forðum bentu á að ef það væri vinnan sem göfgaði manninn, þá væru það tómstundirnar sem mótuðu hann. Það er, hvernig einstaklingurinn nýtir frítíma sinn, getur haft gríðarleg áhrif á hvernig hann mótast sem samfélagsþegn. Lausnin er því að tómstundamennta þjóðina með því markmiði að auka ánægju hvers og eins einstaklings í frítíma sínum.

Með hugtakinu tómstundamenntun er átt við ferli sem á að leiða til þess að einstaklingurinn nái að hámarka ánægju sína í tómstundum sínum. Það er að segja renna styrkari stoðum undir einstaklinginn þannig að hann geti valið sér tómstund við hæfi og þroskast á þann veg að útkoman verði öllu samfélaginu til góða á endanum. Tómstundamenntun ætti að koma í námsskrá grunnskólanna. Í gegnum tómstundamenntun má t.d. auka trúna á sjálfan sig og eigin getu, sem gerir manni jafnvel kleift að standast ýmsar freistingar sem eru í boði í samfélaginu í dag og ógna jafnvel velferð þess.

Tómstundamenntun getur líka nýst við starfslok síðar á ævinni þegar maður stendur frammi fyrir þeim tímamótum að hafa allt í einu nægan tíma til þess að gera allt sem mann langar til að gera en hefur ekki hugmynd um hvað mann langar til eða hvað er í boði. Tómstunda- og félagsmálafræðingar á Íslandi telja nú vel fyrir hundraðið. Er ekki kominn tími á að nýta sér þeirra sérþekkingu?

„Ekkó bjargaði unglingsárum mínum“ : viðhorf einstaklinga sem voru virkir í félagsmiðstöðinni Ekkó

Um verkefnið

Verkefni þetta er lokaritgerð til BA prófs í tómstunda- og félagsmálafræði. Leiðbeinandi verkefnsins er Árni Guðmundsson félagsmiðstöðvamógúll. Höfundar verkefnisins höfðu unnið saman í félagsmiðstöðvastarfi og voru einnig samferða í náminu. þeir luku námið í febrúar 2012. Þegar kom að því að ákveða viðfangsefni ritgerðarinnar vildum þeir báðir leggja lóð á vogaskálarnar og upplýsa fólk um mikilvægi félagsmiðstöðvastarfs og áhrif þess á einstaklinga í framhaldinu framkvæmadu þeir minniháttar rannsókn og athuga viðhorf einstaklinga sem voru virkir í félagsmiðstöðvastarfinu hér á árum áður.til félagsmiðstöðvarinnar.  

Útdráttur

Í þessari rannsóknarritgerð byrjum við á að fjalla stuttlega um unglingsárin og þau vandamál sem þeim fylgja. Því næst fjöllum við um tómstundir almennt og þrengjum rammann að félagsmiðstöðvastarfi. Félagsmiðstöðvastarf í Kópavogi er kynnt auk þess sem farið er í sögu og þróun félagsmiðstöðvarinnar Ekkó í Kópavogi. Hrafnhildur Ásbjörnsdóttir fyrrum forstöðumaður Ekkó til 19 ára gefur okkur sína sýn og skoðun á félagsmiðstöðvastarfi. Eigindleg rannsókn var framkvæmd þar sem viðmælendur voru 8 einstaklingar sem höfðu öll tekið virkan þátt í starfi Ekkó. Markmið rannsóknarinnar var að fá fram viðhorf þeirra til starfsins og hvaða þættir í starfinu mótuðu viðhorf þeirra. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að félagsmiðstöðin er mikilvægur staður til að eflast og þroskast félagslega. Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar getur skipað stóran sess í lífi unglingsins og getur haft gífurleg áhrif á hann. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að gefa starfsfólki í frítímaþjónustu hugmynd um hvað það er sem virkilega skiptir máli í frítímaþjónustu unglinga og hversu mikilvægt hlutverk þeirra er.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni

Um höfundana

1082717_10151772202789860_1648688873_nBjarki Sigurjónsson er fæddur árið 1988 og er uppalinn í Kópavogi. Hefur hann starfað á vettvangi frítíans frá árinu 2007. Hann hefur komið víða við hefur meðal annars unnið í Félagsmiðvunum Þebu, Fókus og Bústöðum og frístundaheimilinu Krakkakoti. Starfar hann núna sem frístundaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Laugó. Síðasta vor lauk hann framhaldsprófi í raftónlist við tónlistarskólann í Kópavogi.

 

 

 

 

 

Snorri PállSnorri Páll er fæddur árið 1986 og er uppalinn Kópavogsbúi. Hann hefur stundað íþrótta- og tómstundastarf í Kópavogi frá blautu barnsbeini. hefur starfað í Kópavogsbæ um árabil og í félagsmiðstöðum Kópavogsbæjar frá árinu 2007. Starfar nú sem frístundastaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Ekkó í Kópavogi.