Transbörn

Ég hef  aldrei leitt hugan að trans fólki, hvað þá að það væru til trans börn. Ég hef ekkert á móti þeim sem eru öðruvísi. Þau eru bara venjulegar persónur eins og ég. Það hafði ekki hvarflað að mér að börn gætu verið svona ung og verið búin að uppgötva það að þau væru kannski stelpa en ekki strákurinn sem þau voru þegar þau fæddust. Þegar börn tengja ekki við það kyn sem þau fæddust með, fer í gang ferli þar sem farið er í viðtöl hjá sálfræðingum og geðlæknum að meðtöldum stuðningi frá foreldrum.

Það er misjafnt hvað þau eru ung þegar þau uppgötva að þau eru ekki fædd í réttum líkama miðað við kynið sem þeim finnst þau vera. Þetta er mikið áfall bæði fyrir þau og foreldra þeirra. Mörg þeirra eru bara á leikskóla þegar þau finna þetta hjá sjálfu sér. Sem betur fer er fólk orðið opnara fyrir því að það séu ekki allir eins. Algengast er að börn uppgötvi þetta um kynþroskaaldurinn. Þá fer ýmislegt að gerast í líkama þeirra sem þau eru bara alls ekki sátt við.

Þá kemur einmitt erfiðasti hluti ævi þeirra en það er þegar þau komast á kynþroska-stigið. Þá er mikil hætta á að þau verði þunglynd, glími við átraskanir og jafnvel sjálfsvígshugsanir eða tilraunir. Það er hægt að gefa þeim lyf sem hægja á kynþroskanum og svo þegar þau eru 16 ára gömul er þeim gefin svokölluð krosshormón, sem eru hormómar öfugir við þeirra eigin hormóna. Það er ekki fyrr en á kynþroskaaldri þar sem hægt er að byrjar með læknisfræðilegt inngrip, en þá eru þeim gefnir hormónablokkerar. Þeir hægja á kynþroskanum og þeir koma í veg fyrir mikla vanlíðan og fleira sem getur fylgt því þegar kynþroskinn fer að koma fram.

Á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL, hefur verið haldið úti transteymi sem hefur verið með sérhæfða þjónustu fyrir trans börn. Þann 6. júlí 2019 tóku í gildi lög um kynrænt sjálfræði. Í 13. grein laganna segir að á Bugl skuli starfa teymi sérfræðinga um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni. Teymið á að vera skipað fagfólki með viðeigandi reynslu og þekkingu. Um síðustu áramót 2019-2020 varð að leggja þetta teymi niður vegna þess að fjármagn frá ríkinu skilaði sér ekki til Bugl. Eins hafa verið miklar mannabreytingar í teyminu sem kemur sér líka illa, því börnum og unglingum finnst óþægilegt að vera alltaf að tala við nýja og nýja persónu. Þetta setur líf 48 trans barna í algert uppnám og sumir foreldrar hafa þurft að vera á sjálfsvígsvakt allan sólarhringinn.

Það getur verið snúið fyrir trans börn að fara í skólann, hvort sem það er leikskóli eða grunnskóli. Því hefur verið komið upp gátlistum fyrir skóla og leikskóla, hvernig þeir geta stutt við trans barn í skólanum. Það er mælt með því að upplýsa foreldra og forráðamenn um að allir séu meðvitaðir um stöðu og þarfir barnsins og fá fræðslu fyrir starfsfólk. Einnig þarf að vera ókynjamerkt klósett.

Innan Samtakanna ’78 er starfrækt félagsmiðstöð samtakanna og eru trans börn og ungmenni tíðir gestir þar. Þar væri alveg kjörið tækifæri að hafa tómstunda- og félagsmálafræðing að störfum. Þar væri hægt að setja af stað hópavinnu með þessum börnum og unglingum. Þar kæmi Lífsleikni kunnáttan sér vel. Það væri hægt að fara í hópeflisleiki. Það væri líka hægt að taka bara gott  spjall.

Ég vona svo innilega að teymið fyrir trans börnin verði endurvakið og að peningarnir skili sér til Bugl. Þessi börn eiga það svo sannarlega skilið. Ég get ekki orðið annað en reið þegar maður heyrir um hluti eins og þetta að peningar sem eru eyrnamerktir viðkomandi verkefni skuli ekki skila sér þangað sem þeirra er þörf.

Aðalbjörg Runólfsdóttir

Hver eru þín mörk?

Þetta er spurning sem allir ættu að kunna svar við. Það ætti að vera skylda að kenna börnum og unglingum að þau eiga rétt á því að setja sín eigin mörk og kenna þeim að vera meðvituð um hvar þeirra mörk liggja.

Það hefur margt breyst frá því ég var unglingur hvað varðar þetta málefni og þegar ég horfi til baka sé ég svo margt sem þótti „í lagi“ á þeim tíma sem í dag þykir fara vel yfir öll mörk. Ég er af kynslóðinni sem var barn þegar tölvur voru að koma inn á hvert heimili og almenningur var að fá internettengingu. Kynslóðinni sem notaði Irc-ið og MSN þegar ég var unglingur. Á sama tíma er ég af þeirri kynslóð unglinga sem vissi ekki hvað var í lagi að fá sent og hvað ekki. Lesa meira “Hver eru þín mörk?”

Hvenær eru tómstundir orðnar kvöl og pína?

Flestir ef ekki allir unglingar nú til dags stunda tómstundir. Þær geta verið af ýmsu tagi; æfa íþróttir, læra á hljóðfæri eða slaka á í góðra vina hópi svo eitthvað sé nefnt. Tómstundir eru jákvæðar, uppbyggjandi og skemmtilegar en hvenær fara þær að verða kvöð og pína? Eru unglingarnir að stunda þær fyrir sig sjálf eða til þess eins að þóknast öðrum? Lesa meira “Hvenær eru tómstundir orðnar kvöl og pína?”

Samvera skiptir máli

Foreldrar eða forráðamenn spila mikilvægt hlutverk í lífi barnanna sinna og það breytist ekkert þegar barnið fer á unglingsárin. Þegar barnið verður unglingur er það visst um að það viti allt og skilji allt. Unglingum finnst hann vera orðinn fullorðinn og geti stjórnað lífi sínu sjálfur. Þá er rosa hallærislegt að eyða tíma með foreldrum sínum. Ég held samt að þetta sé einmitt tíminn sem maður þarf mest á þeim að halda. Á unglingsárunum er margt að gerast sem unglingurinn hefur ekki stjórn á og þá er gott að hafa gott tengslanet í kringum sig. Lesa meira “Samvera skiptir máli”

Frístundastyrkir

Margrét Kristinsdóttir

Fyrir ekki svo löngu sá ég birtan lista yfir þau sveitarfélög sem greiða út svokallaðan frístundastyrk til barna á aldrinum 3-18 ára. Listinn sýndi mismunandi upphæðir styrkja og mismunandi aldur þiggjenda eftir sveitarfélögunum. Þetta fyrirbæri, frístundarstyrkur er ætlaður til þess að koma til móts við foreldra varðandi kostnað fyrir frístundir barna þeirra. Sveitarfélögin bjóða upp á frístundarstyrk til foreldra að ákveðinni upphæð sem foreldrar geta svo notað til þess að greiða fyrir frístund barna sinna. Markmiðið með frístundastyrknum er að öll börn hafi tækifæri til þess að stunda að minnsta kosti eina frístund.

Talað er um að frístund sé besta forvörnin fyrir börnin okkar. Það að vera hluti af hópi og eiga sér áhugamál komi í veg fyrir að börn lendi í slæmum félagsskap eða tileinki sér slæmt líferni. Samvera og iðkun á áhugamáli sé leiðin að heilbrigðu líferni félagslega. Frístund á Íslandi er mjög kostnaðarsöm, hvort sem það er íþrótt, tónlistarnám eða annars konar listnám. Með tilkomu frístundarstyrksins hefur börnum verið gert kleift að stunda frístund en ég spyr mig, „Er það nóg?“ Ef frístund er forvörn og við viljum það sem er best fyrir börnin okkar, af hverju þá ekki að hafa alla frístund aðgengilega fyrir öll börn?

Ég er þeirrar skoðunar að leggja eigi niður frístundastyrki og að þeir sem starfi við frístundir fari á launaskrá hjá sveitarfélögunum. Launakostnaður er aðal ástæða hárra gjalda frístundar og með því að setja þennan launakostnað á sveitarfélagið væri hægt að fella niður gjöld og æfingargjöld. Þjálfarar hjá íþróttafélögum, tónlistarkennarar, listakennarar svo dæmi séu nefnd. Laun þeirra við að kenna og byggja upp börnin okkar myndi koma frá sveitarfélaginu en ekki foreldrunum í formi gjalda og æfingargjalda. Á þann hátt gætu börnin prófað sig áfram og fundið það áhugasvið sem hentaði þeim best. Allt of oft hef ég heyrt að börn megi aðeins vera í einni íþrótt eða einni frístund og miðað við kostnaðinn að þá er það skiljanlegt að meðalfjölskylda hafi ekki ráð á meiru. Ef sveitarfélögin myndu taka sig til og styðja við börnin á þennan hátt þá teldi ég að það myndi skila sér aftur út í samfélagið. Börnin yrðu ánægðari. Þau myndu geta stundað sín áhugamál og ræktað sjálfsmyndina á jákvæðan og uppbyggilegan hátt áhyggjulaus.

Ef pólitíkin í landinu setur fyrir sig orðið frítt og telur of mikinn kostnað í því að fjárfesta í æskunni á þennan hátt, þá er möguleiki á að koma til móts við þann kostnað sveitarfélaga með því að setja lágmarks gjald sem hluta af útsvari barna fjölskyldna. Þannig myndu barnafjölskyldur greiða eitt lágt gjald fyrir börnin sem gæfi þeim tækifæri til að stunda þá frístund sem þau vildu. Ég hins vegar myndi líta á þetta sem bestu fjárfestingu sveitarfélagsins því það er engin betri fjárfesting en börnin okkar. Þau eru framtíðin og hvað er betra en að fjárfesta í framtíðinni.

Á listanum sem ég sá voru tvö sveitarfélög sem greiddu engan frístundastyrk. Ekki er tekið fram í greininni af hverju það er ekki greiddur styrkur heldur er það látið líta út eins og þessi tvö sveitarfélög hugsi ekki um æskuna. Þvert á móti þá er ástæðan sú að þessi tvö sveitarfélög bæði niðurgreiða og greiða frístundir barnanna og þeim frjálst að stunda þá frístund sem þau kjósa. Þessi sveitarfélög eru Grindavíkurbær, þar sem eitt gjald er innheimt óháð fjölda íþróttagreina og Ísafjarðarbær sem styrkir íþróttaskóla HSV og gerir því börnum 4-9 ára kleift að æfa íþróttir að kostnaðarlausu. Þessi tvö sveitarfélög eru til fyrirmyndar í uppbyggingu æskunnar. 

Margrét Kristinsdóttir

„Hvað meinaru?“

Er spurning sem ég er farin að fá oftar og oftar, og áherslan á „hvað meinaru“ ? verður sterkari og háværari með hækkandi unglingsaldri barnanna minna. Byrjaði sem saklaust „ha“? Þegar börnin voru rétt að byrja að tala, þá var „ha“ oftast svarið sem ég fékk við nánast öllu. „Af hverju“ orðasamsetningin kom svo á eftir „ha“ tímabilinu. Meira segja þegar þau vissu vel „af hverju“ þá var það eins og einhver þörf hjá þeim að bæta við „af hverju“? Lesa meira “„Hvað meinaru?“”