Hver eru þín mörk?

Þetta er spurning sem allir ættu að kunna svar við. Það ætti að vera skylda að kenna börnum og unglingum að þau eiga rétt á því að setja sín eigin mörk og kenna þeim að vera meðvituð um hvar þeirra mörk liggja.

Það hefur margt breyst frá því ég var unglingur hvað varðar þetta málefni og þegar ég horfi til baka sé ég svo margt sem þótti „í lagi“ á þeim tíma sem í dag þykir fara vel yfir öll mörk. Ég er af kynslóðinni sem var barn þegar tölvur voru að koma inn á hvert heimili og almenningur var að fá internettengingu. Kynslóðinni sem notaði Irc-ið og MSN þegar ég var unglingur. Á sama tíma er ég af þeirri kynslóð unglinga sem vissi ekki hvað var í lagi að fá sent og hvað ekki. Hver mörkin voru. Ég fékk ýmsa hluti senda og mér barst alls konar myndir sem ekkert barn eða unglingur ætti að fá frá mönnum á öllum aldri, jafnvel á aldri við foreldra mína. Á þeim tíma voru spjöllin oftar en ekki nafnlaus og auðvelt fyrir hvern sem er að senda hverjum sem er án þess að hægt væri að tengja það við sendanda. En ég vissi ekki þá hvað væri í lagi og hvað væri ekki í lagi að fá sent og hafði ekki þekkingu á hvað var óviðeigandi. Ég í rauninni áttaði mig ekki á því fyrr en ég var orðin fullorðin og leit til baka að margt af þessu gekk langt yfir öll mörk. En það hefur sem betur fer mikið breyst með tímanum. Unglingar eru orðnir meira vakandi fyrir því sem þeir eru að fá sent. En því miður hefur það ekki breyst, að enn eru þessi skilaboð að berast til ungs fólks.

Undanfarið hefur verið mikil vitundarvakning varðandi þetta og á Instagram síðan Fávitar stóran part í þeirri jákvæðu þróun. Síðan er „Átak gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi“, en þar birtast skjáskot af skilaboðum sem í flestum tilfellum karlmaður sendir á unga stelpu. Skilaboð sem ganga vel út yfir öll mörkin. Ég er virkilega þakklát fyrir að slíkur vettvangur sé til og fyrir það að verið sé að fræða ungar stúlkur og drengi um að það sé í lagi að setja sín mörk og að enginn eigi rétt á því að vaða yfir þau. En á sama tíma er ég einnig afar sorgmædd yfir því að slíkur vettvangur þurfi að vera til. Samskipti í dag fara af stórum hluta fram í stafrænu formi og eru til óteljandi stefnumótasíður. Mörgum virðist þykja erfitt að þekkja muninn á daðri og áreitni og hvar þau mörk liggja. Svarið er einfalt – mörkin liggja þar sem þú setur þau og ekki hika við að láta í ljós hver þau eru.

Það er ekki einungis á ábyrgð uppalenda og þeirra sem starfa með börnum og unglingum að kenna þeim að setja sín mörk og standa með þeim heldur er það einnig ábyrgð þeirra að kenna þeim að virða mörk annara. Sem verðandi tómstunda- og félagsmálafræðingur finnst mér ég bera ábyrgð á að leggja mitt að mörkum en ábyrgðin er okkar allra. Höldum áfram að vekja athygli á því hvað sé og hvað sé ekki í lagi. Kennum börnum og unglingum það að allir eiga rétt á að setja sín mörk. Og síðast en ekki síst að öðrum ber að virða þau.

Sandra Ósk Ingvarsdóttir