Eflum sjálfstæði unglinga

Sjálfstæði unglinga hefur alltaf verið mér hugleikið og byrjaði þegar ég var sjálf unglingur sem þráði sjálfstæði og virðingu þeirra fullorðnu í kringum mig. Seinna fór ég að velta þessu hugtaki fyrir mér sem móðir, skátaforingi og ekki síst eftir að ég gerðist nemi í tómstunda- og félagsmálafræði.

Sem ungabörn lærum við um orsök og afleiðingu, við hendum frá okkur hlutum og til að byrja með þá er einhver sem að réttir okkur hlutinn til baka, sem sagt engin afleiðing og þetta verður að hinum skemmtilegasta leik. En það kemur að því að hinn aðilinn þreytist á leiknum og hættir að rétta okkur hlutinn. Á þennan hátt lærum við hægt og rólega að hætta að henda frá okkur því hluturinn skilar sér ekki alltaf til baka.

Það ætti því ekki að vera erfitt að kenna unglingum um orsök og afleiðingu en samt eigum við, hin fullorðnu, það til að hlífa unglingunum við nákvæmlega því. En erum við að gera þeim greiða með því að láta þau ekki takast á við afleiðingar gjörða sinna eða bera ábyrgð á sínu lífi? Ég er í það minnsta alveg viss um að það hjálpar hvorki þeim né okkur.

Mín skoðun er sú að ef við byrjum nógu snemma að kenna þeim þá verður þetta sjaldnast nokkuð mál. Til að mynda það að hjálpa til á heimilinu kennir þeim ábyrgð, að ekkert gerist af sjálfu sér og að samvinna skilar árangri. Þetta þurfa ekki að vera stór eða flókin mál að takast á við en það er samt mikilvægt fyrir unglinga að fá að spreyta sig og að þau læri að við grípum þau ekki alltaf. Ef foreldrar eða forráðamenn kenna börnum sínum vel þá er auðveldara fyrir þau að verða sjálfstæð og takast á við þau verkefni sem að bíða þeirra í lífinu.

Það er þó ekki öll von úti fyrir þá unglinga sem að fá ekki tækifæri til að láta á þetta reyna heima við. Við sem að störfum með unglingum getum einnig kennt þeim og stutt þau í átt að auknu sjálfstæði svo sem með því að færa þeim skipulagsvald yfir dagskrá félagsmiðstöðvarinnar eða að skipuleggja dagskrá flokksins í skátastarfi. Við getum þá verið þeim innan handar og einnig hjálpað þeim áleiðis með því að setja þeim ákveðinn ramma sem að þau geta unnið innan. Það er nefnilega mín reynsla að of mikið frelsi getur verið erfitt fyrir ungling sem ekki hefur lært á það. Markmið okkar er ekki að auka vanda þeirra heldur kenna þeim að leysa úr honum, ramminn getur því gagnast vel til að byrja með.

Í gegnum tíðina hefur oft verið rætt um kosningarétt unglinga og í þeirri umræðu koma stundum upp þau mótrök frá hinum fullorðnu að unglingarnir séu ekki nógu þroskaðir og myndu ekki kunna að fara með þá ábyrgð sem að felst í kosningarétti. En hvernig læra þau öðruvísi en að prófa? En svo þeim væri nú ekki hent út í djúpu laugina ósyndum þá væri hægt að koma kennslu um kosningarétt inn í lífsleiknikennslu hjá unglingum, kenna þeim um mikilvægi þess að mynda sér skoðun og að nýta þetta vald sitt. Kosningaréttur unglinga myndi án efa mynda smá pressu á stjórnmálaflokkana að vinna betur að hag ungu kynslóðarinnar. Ekki veitir af í þeim efnum enda situr sá málaflokkur oft á hakanum þar sem að þau hafa ekki alltaf nægjanlega sterka rödd án kosningaréttar!

Staðreyndin er sú að við erum ekki enn komin á þann stað að unglingar fái að kjósa. Það sakar ekki að byrja að vinna markvisst að því að auka sjálfstæði unglinga svo þetta geti orðið að veruleika!

Sigríður Vigdís Þórðardóttir