Stytting framhaldsskóla – Af hinu góða?

Nám til stúdentsprófs var stytt haustið 2015 og var námið stytt úr 4 árum niður í 3 ár. Þegar ég var sjálf í menntaskóla var ekki búið að samþykkja þessa styttingu og átti ég vini sem kláruðu á 3,5 ári og sumir meiri segja á 2,5 ári. Það var þeirra val að klára á styttri tíma en 4 árum. En fyrir suma er nógu erfitt að klára námið á 4 árum. Sumir þurfa líka að vinna með námi og þá er ennþá erfiðara að stunda nám, sinna vinnu, stunda tómstundarstarf og hafa tíma fyrir félagslífið. Einnig spyr maður sig hvaða áhrif styttingin hafi á tómstundarstarf nemendanna? En tómstundarstarf hefur gífurleg áhrif á fólk og sérstaklega unglinga.

Það er mikið forvarnargildi í því að stunda tómstundir eða íþróttir og er það ein öflugasta leiðin til þess að byggja félagsleg tengsl. Með styttingu námstímans hlýtur álagið að vera meira núna á nemendur heldur en áður og þrátt fyrir það að í dag sé meiri vitundarvakning í samfélaginu um kulnun í starfi og mikilvægi þess að taka sér ekki of mikið fyrir hendur þá erum við sífellt uppteknari en áður. Þess vegna er það sérstakt að fara að auka álag á ungt fólk á þessum tímum sem við erum meðvituð um það hversu mikilvægt það er að slaka á og njóta þess að gera hlutina sem þau eru að sinna og gera það vel. Það væri líka áhugavert að skoða hvort að styttingin sé ekki erfiðari fyrir þá sem eiga í námserfiðleikum og þá sem glíma við andleg veikindi.

Samkvæmt skýrslu sem Menntamálastofnun gaf út árið 2018 kom í ljós að 752 nemendur hættu í framhaldsskóla áður en til lokaprófa kom haustið 2017 og af þeim voru 141 nemandi sem sagði ástæðuna vera andleg veikindi. Sumum fannst þetta frábærar fréttir og öðrum ekki. Að mínu mati hefði ekki átt að stytta námið vegna þess að þeir sem að vilja klára á styttri tíma gátu það fyrir, það var þá þeirra val.  Mér finnst eins og það sé sett meiri pressa á nemendur að þurfa að klára námið á þremur árum og fólk fer kannski frekar að bera sig saman við aðra af því að þessi þrjú ár eru núna ramminn utan um það sem tekur til að klára stúdentinn. Það er ekki komin langur tími frá því að styttingin var samþykkt og eru því ekki til margar rannsóknir um áhrif styttingarinnar. En það verður fróðlegt að sjá þegar að lengri tími er liðinn hver áhrifin verða af styttingunni og vonandi er hún af hinu góða.

Persónulega hefði þessi breyting ekki hentað mér þar sem ég átti nú þegar í erfiðleikum með að klára námið á réttum tíma. Ég var að vinna, í kór skólans og var öflug í félagslífinu. Einnig var nógu erfitt að vera eftir vinkonum mínum í skólanum því þær áttu auðveldara með að læra og hvað þá ef að námsálagið hefði verið meira. Ég er því ekki hlynnt þessari breytingu þó hún henti eflaust mörgum.

Bjarnveig Dagsdóttir