Skilgreining á hugtökum á vettvangi frítímans

Þegar sessunautur minn á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir rakst á setningu sem stuðaði hann úr nýsamþykktri stefnu í æskulýðsmálum fyrir árin 2014-2018 spruttu fram líflegar umræður um hugtök og hugtakarugling á vettvangi frítímans. Setningin er svohljóðandi:

„Stuðla að jafnvægi milli þátttöku í æskulýðsstarfi, öðru frístundastarfi, fjölskyldulífi og námi.”

(Menntamálaráðuneytið, 2014)

Umræðan sem fór af stað snéri s.s. að því hver væri munurinn á æskulýðsstarfi og öðru frístundastarfi. Allir sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um að frístundastarf og tómstundastarf væri sama hugtakið og að æskulýðsstarf myndi svo flokkast þar undir. Ég viðurkenni að ég var sjálfur ansi hvumpinn yfir þessum hugtakaruglingi en þegar ég les þetta nú aftur er ég hjartanlega sammála þessari setningu.

Ungmenni getur tekið þátt í æskulýðsstarfi, námi, fjölskyldulífi og öðru frístundastarfi sem gæti t.d. verið málfundarfélag með fullorðnum einstaklingum. Það myndi flokkast undir frístundastarf en ekki æskulýðsstarf. En þessar endalausu umræður kalla alltaf eftir því að tekið verði á skarið og hugtök skilgreind.

Nú stendur yfir mikil vinna og er það gott og vel en ég vil leggja mitt á vogaskálarnar og koma með skilgreiningar á þessum helstu hugtökum. Ég vona að sem flestir verði ósammála mér og blandi sér í umræðuna með sínar uppástungur. Svona stilli ég upp hugtökum og uppröðun á þeim. Ég leitast svo við að skilgreina hugtökin fyrir neðan myndina.

Skilgreining á vettvangi frítímans

Skilgreiningar á helstu hugtökum

Frítími (e. free time)

Frítími er allur sá tími sem við höfum til aflögu og ráðum hvernig við ráðstöfum. Með öðrum orðum tími sem við erum ekki bundin verkefnum, starfi, skyldum eða þörfum. Við getum bæði nýtt þennan tíma til góðra hluta og slæmra.

Tómstundir / frístundir (e. leisure)

Engin eðlismunur er á hugtakinu tómstundir og frístundir. Það er hægt að rökræða þetta lengi en þetta er svipað og fólk sem eyðir tíma sínum í að rökræða hvort maður segir „gat” eða „eyða” þegar frí er milli kennslustunda í stundatöflu. Tóm stund eða frí stund er sami hluturinn og smekksatriði hvað fólki finnst fallegra. Það er bara gott og blessað.

„Í grundvallaratriðum má segja að tómstundir eigi sér stað í frítíma. Tómstundir eru því athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum og flokkast sem tómstundir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur á að um tómstundir sé að ræða. Að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif. Kjarni tómstunda má segja að felist í vellíðan og aukningu á lífsgæðum.

Í þessari skilgreiningu er gerður skýr greinarmunur á frítíma og tómstundum. Tómstundir eiga sér yfirleitt stað í frítíma en ekki allur frítími er tómstundir. Afstaða er því tekin gegn þeim sem líta á glæpi og ýmsa niðurbrjótandi hegðun sem tómstundir en með þeim sem líta svo á að tómstundir séu jákvæðar og uppbyggjandi. “

(Vanda Sigurgeirsdóttir, 2010)

Undir tómstundastarf koma svo ýmsir undirflokkar sem skilgreinast einna helst af markhópnum sem starfið snýr að. Dæmi um tómstundastarf er því félög og klúbbar fyrir fullorðna eða blandaða aldurshópa og félagsstarf aldraðra. Æskulýðsstarf flokkast einnig undir tómstundastarf.

Æskulýðsstarf (e. youth work)

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er æskulýðsstarf skilgreint sem:

„Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára.”

Undir æskulýðsstarf flokkast þá:

  • Frístundaheimili
  • Félagsmiðstöðvar
  • Ungmennahús
  • Starf frjálsra félagasamtaka sem snýr að ungu fólki og uppfyllir skilgreininguna hér að ofan
  • Sjálfstætt starf og félög ungs fólks sem uppfylla skilgreininguna hér að ofan

Allir sem starfa sem sjálfboðaliðar eða launaðir starfsmenn við æskulýðsstarf eru kallaðir æskulýðsstarfsmenn (e. Youth worker). Þetta á jafnt við um sjálfboðaliða og starfsmenn sem frá greitt fyrir vinnu sína enda eru hlutverk og markmið þau sömu. Stundum hef ég heyrt að það vefjist fyrir fólki þetta orð „starfsmaður” ef ekki eru greidd laun fyrir. Fyrir þá sem hugsa svoleiðis vil ég vekja athygli á yfirheitinu „æskulýðsstarf” sem gefur til kynna að visst starf sé unnið burt séð frá því hvort greitt sé fyrir vinnuna eða ekki. Einnig er gott að skoða orðræðuna okkar um „að starfa”, t.d. Sigurður hefur gengt ýmsum störfum fyrir samtökin, Sigurður hefur verið virkur í starfinu í mörg ár, Sigurður hefur unnið gott starf fyrir félagið. Við hikum ekki við að tala um störf og starf sem einstaklingar vinna í sjálfboðavinnu og því ekkert að því að kalla þá starfsmenn.

Lokaorð

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta er ekki sú hugtakanotkun sem allir hafa notað alltaf. EN ég tel að þetta séu skýr hugtök og að ef við sem þjóð, starfsvettvangur eða hvað það er sem sameinar okkur, ákveðum að notast við skýr hugtök næstu árin munu allir geta sammælst um merkingu þeirra.

Ég meina gaffall heitir ekki gaffall nema út af því að við ákváðum að kalla hann gaffal!

Heimildir

Menntamálaráðuneytið. (2014). Stefnumótun í æskulýðsmálum 2014-2018. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010, 31. desember). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Sótt 16. janúar 2013 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf.

Æskulýðslög nr. 70/2007.

Er í lagi að skutlast með ungling á einkabíl – Hvað finnst þér?

Við höfum ákveðið að setja inn nýtt siðferðilegt álitamál. Við veltum upp spurningunni:
Er í lagi að skutlast með ungling á einkabíl fyrir, eftir eða á vakt?
Er það alltaf í lagi? Er það aldrei í lagi? Er það í lagi í ákveðnum tilfellum? Er það í lagi við ákveðnar aðstæður?

Við hvetjum alla til að blanda sér í umræðuna og beita rökum með og á móti. Mikilvægt er að fólk sé opið og virði skoðanir annarra. Ef þið hafið siðferðilegt álitamál sem ykkur langar að ræða sendið það endilega á [email protected]. Það má vera raunverulegt úr starfinu ykkar eða aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.

Þjónandi forysta – Eitthvað vælulegt og í besta falli fyrir kerlingar?

Steingerður Kristjánsdóttir
Steingerður Kristjánsdóttir Verkefnisstjóri á skrifstofu frístundamála hjá SFS

Oft er ég spurð hvort þjónandi forysta (e. servant leadership) sé ekki bara einhverjar kerlingabækur, eitthvað fyrir ístöðulausa stjórnendur og undirlægjur? Svarið er nei! Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem mörg stórfyrirtæki hafa tileinkað sér með það að markmiði að hámarka afköst og arð með gæði og starfsánægju í fyrirrúmi. Má þar nefna bandarísk fyrirtæki á borð við South West Arlines, Starbucks, TDIindustries og Zappo svo eitthvað sé nefnt. Íslenskum fyrirtækjum og stofnunum sem tileinka sér þjónandi forystu fer einnig mjög fjölgandi.

Lesa meira “Þjónandi forysta – Eitthvað vælulegt og í besta falli fyrir kerlingar?”

Hópastarf og samvinna

einar_rafnFrítíminn brá sér á starfsdaga SAMFÉS á Úlfljótsvatni nú í september. Meðal margra áhugaverðra erinda þar var erindi Einars Rafns Þórhallssonar, tómstunda- og félagsmálafræðings og framhaldsskólakennara, um samvinnu í hópum. Frítíminn króaði Einar af og spurði hann nánar út í erindið og áhuga hans á hópafræðunum.

Lesa meira “Hópastarf og samvinna”

Jákvæð sálfræði og frístundastarf

Hrefna GuðmundsdóttirÉg átti einu sinni spjall við kennara á grunnskólastigi. Hann barmaði sér yfir því að fyrsta spurning foreldra í foreldraviðtölum væri hvort barn þess ætti vin í bekknum eða ekki. Kennarinn hafði væntingar um að foreldrar hefðu frekar áhuga á hvernig gengi hjá barninu að læra að lesa. Við sem þekkjum frístundastarf skiljum að það eru samskipti sem skipta mestu máli. Að fá að njóta sín, kynnast jafnöldrum, eignast vini og kunningja, að fá að reyna á hæfileika sína og hafa gaman. Lesa meira “Jákvæð sálfræði og frístundastarf”

Ungmennaþing í stað lokaðs ungmennaráðs

ungness logoFyrir fimm árum fórum við á Seltjarnarnesi af stað með eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í þegar við lögðum í það að stofna Ungmennaráð Seltjarnarness eða Ungness. Við nálguðumst verkefnið þannig að Ungness yrði skipað ungmennum sem væru 16 ára og eldri og var markmiðið sem við lögðum af stað með að ráðið yrði bænum til ráðgjafar á stjórnsýslustiginu ásamt því að halda viðburði og fræðslu fyrir ungmenni á menntaskólaaldri á Nesinu.

Við boðuðum nýútskrifuð ungmenni í félagsmiðstöðina og auglýstum kosningar í ráðið. Góð mæting var á þennan stofnfund en 19 ungmenni lögðu leið sína á fundinn og 12 gáfu kost á sér til setu í ráðinu. Haldnar voru framboðsræður og svo kosnir 7 fulltrúar ungmennana í Ungmennaráð Seltjarnarness. Veturinn fór vel af stað og héldum við úti opnun fyrir 16+ einu sinni í viku í félagsmiðstöðinni og var mætingin góð. Þegar líða fór á veturinn fór hópurinn þó að þynnast og hægt og rólega fóru ungmenni sem ekki voru í ráðinu að hætta að mæta.

Þetta fyrsta sumar tókum við þátt í ungmennaskiptum á vegum Evrópu unga fólksins með sænsku ungmennaráði frá Lundi. Þetta sænska ráð hafði verið starfandi frá aldamótum og voru með allt annan strúktúr á sínu ráði en við. Þar var ekki kosið í neitt ráð heldur var ráðið opið öllum sem vildu taka þátt og byggðist starfið upp á ungmennaþingum sem haldin eru fjórum sinnum á ári. Á þessi ungmennaþing eru öll ungmenni Lundar velkomin en í Lundi búa rúmlega 80.000 manns. Þingin eru alltaf með ákveðin þemu og eru fræðsla og umræður út frá þemanu. Á þinginu velja ungmennin sig svo í nefndir og vinna verkefni út frá sinni nefnd.

Eftir að hafa kynnst þessum sænska strúktúr og bera hann saman við okkar ákváð Ungmennaráð Seltjarnarness að breyta sínu fyrirkomulagi og heimfæra sænska stílinn á Seltjarnarnes þar sem búa rúmlega 4000 manns.

Ákveðið var að opna ungmennaráðið og í staðinn fyrir að hafa það lokað ráð með kjörnum fulltrúum, að gera það að opnu ráði þar sem öll ungmenni Seltjarnarness mættu taka þátt í verkefnunum og segja sína skoðun sem. Við tókum upp á því að halda fjögur Ungmennaþing á ári en á þau eru allir Seltirningar á aldrinum 16-25 ára boðaðir og þeir sem mæta á þingin eru með atkvæðis- og tillögurétt. Á þingunum er farið yfir verkefni síðastliðinna þriggja mánaða og næstu þrír skipulagðir. Stundum er skipulagt lengra fram í tímann en þetta er svona grunnstefið sem miðað er við.

Við það að opna ráðið og halda þessi fjögur þing sem virka eins og púlsinn í starfseminni jókst þátttaka til muna og verkefnin samhliða því. Á hverju þingi er ákveðið hvaða verkefni skal ráðast í og skipaðir eru verkefnastjórar eða nefndir fyrir hvert verkefni. Það má í raun segja að í staðinn fyrir að hafa eitt ráð sem hefur yfirumsjón með öllum verkefnum er Ungmennaráðið orðið vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að framkvæma verkefni og myndaðar eru minni nefndir fyrir hvert verkefni af þeim sem vilja koma að því verkefni. Við hugsum þetta sem hugarkort eða bubblukerfi eins og við höfum kallað það.

 

Ungness
Hluti af verkefnum Ungness. Verkefni fæðast út frá ráðinu og allir jafnir.

Eftir að við tókum upp á þessu kerfi hefur ungmennaráðið vaxið og dafnað, endurnýjun hefur verið góð á sama tíma og stofnmeðlimir taka enn þátt í starfinu. Það góða við þetta kerfi er það að þú þarft ekki að vera með í öllum verkefnum og þarft ekki að bjóða þig fram til að vera einn af sjö heldur geturðu valið þér verkefni sem þú hefur áhuga á. Þetta minnkar pressuna á krakkana sem margir hverjir hafa nóg á sinni könnu og þurfa þau ekki að vera all inn alltaf heldur kemur maður í manns stað.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Verkefnastjóri í Selinu og Skelinni