Mikilvægi félagsmiðstöðvastarfs

sonja einarsÍ félagsmiðstöðvum víða um land er unnið gott og faglegt starf þar sem starfsmenn setja krafta sína í að veita ungmennum jákvætt og uppbyggjandi umhverfi til að sækja félagsstarf. Á landsbyggðinni er oft minna um fjölbreytni í tómstunda- og íþróttastarfi en gerist í stærri bæjum og á höfuðborgarsvæðinu.
Það er því hægt að ímynda sér hversu mikilvægt æskulýðsstarf er fyrir ungmenni sem búa á landsbyggðinni og hafa ekki úr miklu að velja. Ef lítið eða ekkert stendur til boða í tómstundastarfi er meiri hætta á að ungmenni leiðist út í óæskilega hegðun svo sem áfengis- og vímuefnaneyslu og jafnvel félagslega einangrun. Starfsemi félagsmiðstöðva er stór þáttur í lífi margra unglinga og hefur mikil áhrif á litla bæi á landsbyggðinni. Félagsmiðstöðvar eru vettvangur fyrir alla og eru þar allir jafnir, ungmenni og starfsfólk, en reynt er eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir allra, hvernig sem þeir standa.

Ég sem starfsmaður og jafnframt forstöðumaður félagsmiðstöðvar á landsbyggðinni tel það brýnt að málefni félagsmiðstöðva séu skoðuð og starfið metið að þeim verðleikum sem það á skilið. Oft er eins og starfsemin sé föst í ákveðnum skorðum vegna fornra hugmynda um félagsmiðstöðvastarfsemi og er upplifunin oftar en ekki sú að hún vegi ekki eins mikið og íþróttastarf eða önnur æskulýðsstarfsemi sem fer fram í sveitarfélaginu. Erfitt getur verið að koma upp áhrifaríku og uppbyggjandi starfi þegar maður þarf í leiðinni að beita kröftum sínum í að vekja upp áhuga og benda samfélaginu á mikilvægi félagsmiðstöðvastarfs. Það, ásamt fjármagni sem úthlutað er til félagsmiðstöðvanna, hefur mikið að segja um þær hindranir sem starfið stendur frammi fyrir og þá möguleika sem starfsemin hefur til þess að bjóða upp á gott og gilt starf. En til þess að starfið nýtist sem best og verði sem öflugast verður samfélagið í heild að átta sig á því hversu mikilvæg og áhrifarík þessi starfsemi er fyrir unglinga.

Við sem vinnum með unglingum í félagsmiðstöðvum erum ekki bara að fara í borðtennis, hanga og leika okkur, heldur erum við samferða þeim í gegnum flókinn og erfiðan veg sem unglingsárin eru. Meðal annars með því að velta fyrir okkur öllum mögulegustu hlutum, aðstæðum og hugmyndum sem á allt sinn hlut í því að móta sjálfstæðan einstakling. Nálgun félagsmiðstöðvastarfsmanna á málefni unglinganna er önnur en skólanna þar sem hún er nálægari þeim og óformlegri en í hinu hefðbundna skólastarfi. Unglingarnir eru oft ófeimnari við að ræða og spjalla um ákveðin málefni sem eru þeim hugleikin við starfsfólk félagsmiðstöðva þar sem þeir fá tækifæri til að velta skoðunum sínum og hugmyndum fyrir sér og að eiga samræður um það í návist félaga sinna á óformlegri vettvangi. Það sem hefur einnig mikið að segja í þessu samhengi er að ungmennin hafi jafnt vægi í samræðum við starfsmanninn og reynt er að skoða öll sjónarhorn.

Markmiðið er að starfið sé uppbyggjandi, jákvætt og skemmtilegt og verði að mikilvægum hluta í uppbyggingu heilbrigðra og sterkra einstaklinga inn í samfélagið. Er það því ekki í þágu samfélagsins að félagsmiðstöðvastarf sé virkt, faglegt og hafi áhrif á þá sem starfið sækja? Ég tel svo vera þar sem við sem vinnum í starfinu tökum að okkur hlutverk sem samferðarfólk og vegvísar einstaklinga sem eru að móta sína leið út í lífið.

Sonja Einarsdóttir, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Zveskjunnar á Reyðarfirði og nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands

Siggu Dögg kynfræðing í grunnskólana

drofn freysdottirKynfræðsla unglinga er ákaflega mikilvæg. Það er virkilega áríðandi að þau fái kynfræðslu áður en þau fara að þreifa sig áfram í kynlífi og að þau viti hvað er að gerast hjá þeim við kynþroskann og allar þær tilfinningar sem þau eru að upplifa á unglingsárunum. Það er frekar seint í rassinn gripið að fræða unglinga um getnaðarvarnir þegar barn er komið undir eða þau komin með kynsjúkdóma. Kynfræðsla er ekkert nema forvarnir. Þau þurfa að fá fræðslu um allar þessar langanir og tilfinningar sem þau hafa og þau þurfa að vita að þessar hugsanir og tilfinningar séu ósköp eðilegar en ekki afbrigðilegar, sem mörgum finnst þar sem að þetta er allt svo mikið tabú.  Þau þurfa að vita hvað sé eðlilegt kynlíf og hvað sé afbrigðilegt kynlíf, hvaða getur fylgt því s.s. kynsjúkdómar og að það sem sýnt er í klámmyndum er ekki kynlíf. Lesa meira “Siggu Dögg kynfræðing í grunnskólana”

Ungt fólk á að hafa áhrif – Unglingalýðræði í starfi félagsmiðstöðva

daniel birgirFélagsmiðstöðvarstarf er góður grunnur  þegar kemur að því að efla og byggja upp ungu kynslóðina. Ekki má hugsa um félagsmiðstöðvarstarf eins og það sé leikvöllur fyrir unglinga. Starf félagsmiðstöðva er ígrundað og faglegt en almenningur kemur oft ekki  auga á mikilvægi og áhrif þessarar starfsemi á unglinga. Almenningur tengir starfið oft við leiki, s.s. borðtennis, leikjatölvur, böll, billjard og aðra skemessir þættir í starfinu hafa ákveðinn tilgang því þeir vekja áhuga og fá unglinga frekar til að taka þátt í öllu starfinu. Skemmtangildi og að ná til  unglinga í gegnum áhugasvið þeirra límir saman starfið innan félagsmiðstöðvanna og gerir það að verkum að starfsmenn ná til þeirra í mikilvægum atriðum samhliða leik og skemmtun. Lesa meira “Ungt fólk á að hafa áhrif – Unglingalýðræði í starfi félagsmiðstöðva”

Félagsmiðstöð.xlsx

gislifelixHugtakið félagsmiðstöð er flestum kunnugt og skilgreina það eflaust margir út frá þeirri  aðstöðu sem þar má finna. Að félagsmiðstöðin sé eins konar „hangout“ unglinga þar sem þeir geta hist, spilað borðtennis og pool og mætt á böll. Raunin er sú að í félagsmiðstöðvum er unnið margþætt starf sem allt miðar að því að efla unglinginn sem einstakling og hjálpa honum að móta með sér heildstæða sjálfsmynd. Þarfir unglinganna sem félagmiðstöðina sækja eru fjölbreyttar og ólíkar og tekur starfið ávallt mið af þessum þörfum. Það þýðir að starfsemi félagsmiðstöðvarinnar er síbreytileg og eiga unglingarnir sjálfir stóran þátt í að móta hana í samvinnu við starfsfólk. Lesa meira “Félagsmiðstöð.xlsx”

Því fleiri unglingar, því meiri gæði?

inga bjorkUndanfarnar vikur hef ég mikið pælt í gæðum félagsmiðstöðva hér á klakanum  og þá sérstaklega þeim á landsbyggðinni, þar sem ég ólst upp úti á land. Ég gekk í lítinn skóla sem staðsettur var í sveitahreppnum sem ég bjó í og frá fyrsta upp í sjöunda bekk samanstóð bekkurinn minn af tveimur nemendum og var skólanum skipt í tvær deildir sem virkuðu eins og tveir bekkir. Í áttunda, níunda og tíunda bekk fór ég svo í fjölmennari skóla, hver árgangur var frekar lítill og aðeins einn bekkur í hverjum árgangi. Þetta voru miklar breytingar fyrir mig og stórar breytingar að vera allt í einu í tuttugu manna bekk og þar fyrst kynntist ég félagsmiðstöð. Hún var í boði annan hvern fimmtudag í tvo og hálfa klukkustund í senn, engin formleg dagskrá var yfir daginn og einungis það í boði sem starfsmennirnir höfðu áhuga á. Þar sem ekki var möguleiki á að unglingarnir kæmu sér sjálf heim eftir félagsmiðstöðina, sá skólabíllinn um að keyra börnin heim eftir að henni lauk á kvöldin. Lesa meira “Því fleiri unglingar, því meiri gæði?”

Kynfræðsla, ekki kynhræðsla!

ivar orri aronssonKynfræðsla, ekki kynhræðsla! Þetta voru upphafsorð Eyrúnar Magnúsdóttur, fulltrúa í Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis, á borgarstjórnarfundi á dögunum. Þar kom hún fyrir borgarstjórn og lagði fram tillögu að aukinni kynfræðslu í grunnskólum borgarinnar. Fyrir nokkrum vikum birtist grein í Fréttatímanum þar sem tekið var viðtal við nokkra nemendur í efstu bekkjum grunnskóla um kynfræðslu. Viðmælendur töldu kynfræðsluna vera til skammar, kennslubókin sem notast er við er 18 ára gömul og úrelt. Viðmælendur rifjuðu upp hversu oft þau hafa fengið kynfræðslu og töldu upp 2 skipti, í 6. bekk og síðan í 9. bekk. Einn viðmælandi sagðist hafa lært meira á svokölluðu Tabú kvöldi í félagsmiðstöðinni sinni en í kynfræðslu í skólanum. Þar gátu krakkarnir skrifað nafnlausar spurningar og vangaveltur á miða og síðan var tekin umræða um það með öðrum unglingum og starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar. Lesa meira “Kynfræðsla, ekki kynhræðsla!”