Félagsmiðstöðin og ég

rosa kristinÉg var virk í félagsmiðstöðinni í mínum heimabæ. Ég mætti á alla viðburði og opnu húsin. Þarna komum við krakkarnir eftir skóla og vorum fram að kvöldmat. Þetta var eins og okkar annað heimili, þar sem við fórum í frítímastarf í beinu framhaldi af skólanum. Við tókum þátt í klúbbastarfi og mörgu sem í gangi var í félagsmiðstöðinni og eftir það tóku íþróttaæfingar við. Þæginlegt umhverfi og andi sem myndaði samfellu.

Félagsmiðstöðin er staður þar sem unglingar og börn geta leitað í skipulag starf með jafnöldrum sínum og jafnvel tekið þátt í að skipuleggja það sjálf. Þar eru allir vinir og allir tilbúnir að hjálpa og gera allt fyrir alla. Þegar ég var að stunda félagsmiðstöðina í mínu bæjarfélagi þá voru yngri börn með skipulagða tíma tvisvar í mánuði sem unglingarnir í félagsmiðstöðvaráðinu sáu um að skipuleggja og framkvæma. Við eldri vorum alla virka daga í starfinu, vorum frjáls í félagsmiðstöðinni, fengum að ráða tíma okkar þar og velja þá klúbba sem við vildum taka þátt í. Einnig fengum við svo sjálf að skipuleggja alla viðburði meira og minna eftir okkar höfði. Með þessu fengum við að taka beinan þátt í að skipuleggja og framkvæma innra starfið sem fram fór og tókum þannig þátt í unglingalýðræði sem félagsmiðstöðin starfaði eftir.

Í félagsmiðstöðvum eru starfsmenn, bæði faglærðir og ófaglærðir, sem unglingar geta leitað til og treyst fyrir sínum vandamálum eða fengið ráðleggingar. Á þessu tímabili í lífi unglinga eru foreldrar oft ekki þeir fyrstu sem unglingarnir leita til með sín vandamál. Það hefur sýnt sig að félagsmiðstöðvar eru góður vettvangur fyrir unglinga almennt en sérstaklega þó jaðarhópa sem eru oft að leita að félagsskap. Jaðarhópar þessir eru kannski ekki að taka þátt í neinu öðru  skipulögðu starfi og eru samt að leita fyrir sér varðandi fjör og félagsskap. Oftar en ekki liggur leiðin á rúntinn eða í sjoppur þar sem hópamyndun er oft ekki góð. Þar er ekki um að ræða skipulagt starf undir eftirliti eins og í félagsmiðstöð heldur eru eldri unglingar oft að stýra leiðum unglinganna og jafnvel hvetja þau til neyslu og óæskilegrar hegðunnar.

Einnig er svo gaman að sjá hversu mikið ég lærði á þessum tíma sem ég stundaði starfið. En maður gerði sér ekki grein fyrir því þá enda um óhefðbundið nám að ræða. Þar má nefna t.d félagsþroska, tilfinningaþroska sem er upp og niður á þessum aldri, andlega líðan, samskipti, lýðræði, skipulag, samvinnu og aðra lífsleikni sem maður notar í hinu daglega lífi, eignast nýja vini og margt fleira.

Í dag hugsa ég oft um hversu heppin ég er að hafa fengið tækifæri að stunda félagsmiðstöðvastarf með mínum vinum. Það er ekki sjálfgefið að allir finni sig í skipulögðu íþróttastarfi, skátastarfi, hjálparsveitarstarfi eða kirkjustarfi sem í boði er. Þá þarf að vera einhver staður sem þessir krakkar geta leitað í með sín áhugamál. Að mínu mati er félagsmiðstöðin fullkomin staður fyrir unglinga sem gætu jafnvel tilheyrt jaðarhópum sem finna sig ekki í neinu, þá sérstaklega í bæjarfélögum út á landi, þar sem þekkt er að framboð á skipulagðri afþeyingu er ekki nærri því eins mikið og í stærri sveitarfélögum eða bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Félagsmiðstöðvastarf er mikilvægt starf bæði fyrir þá sem stunda og vinna í félagsmiðstöð. Baklandið innan félagsmiðstöðvastarfs er gott og finna unglingarnir fyrir því þegar þau leita ráða hjá starfsfólki. Félagsmiðstöðin skiptir unglingana gríðalega miklu máli. Þar læra einstaklingarnir það sem ekki er kennt í skólum landsins. Þau fá tækifæri á að blómstra á sínu hæfileika- og áhugasviði, hver og einn einstaklingur.

Rósa Kristín Indriðadóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands