Tónlist fyrir alla?

rutEkki er ólíklegt að tónlist, á einhverju formi, hafi fylgt manninum alla tíð. Talið er að frummaðurinn hafi þróað með sér hæfni til tónlistarlegra samskipta þar sem hún færði honum auknar lífslíkur umfram þá sem ekki höfðu yfir slíkri hæfni að ráða. Manneskjunni hefur alla vega um mjög langa tíð verið hugleikið hver uppruni og tilgangur tónlistar væri og hugmyndir um það þróast í aldanna rás. Flestir ættu að geta verið sammála um að tónlist skiptir okkur félagslega miklu máli. Þannig er tónlist yfirleitt órjúfanlegur þáttur á stórum tímamótum hvort sem það er í gleði eða sorg. Óháð menningu virðist það vera sameiginlegt manninum, allsstaðar í heiminum, að syngja fyrir ungviðið eða rugga því taktfast. Þegar barn stálpast er misjafnt hvaða tónlistarlegu samskipti taka við en víða skipar tónlist stóran sess í starfi með börnum eins og á leikskólum.

Unglinsárin er það tímabil í lífi hverrar manneskju sem að fylgir hvað mest tilfinningalegt umrót. Tímabil sem oft er líkt við rússíbanaferð þar sem allt hringsnýst á ofurhraða. Unglingurinn stígur að henni lokinni ringlaður inn í fullorðinsárin og reynir að ná jafnvægi. Á þessu tímabili lífsins eignast fólk yfirleitt eftirminnilegustu upplifanir sínar af tónlist. Sumir myndu jafnvel segja að ástríða fyrir tónlist sé sterkasta einkenni unglingsáranna. Tónlist er því stór þáttur í lífi unglinga, skapar þeim sameiginlegan vettvang og er mikilvæg í samskiptum.

Rannsóknir sýna að unglingar virðast í raun nota tónlist sem einhverskonar bjargráð við lausn ýmissa vandamála og jafnvel gagngert til þess að hafa áhrif á andlega líðan sína. Sjálfsmyndin er oftast ómótuð og verður tónlistin mikilvæg fyrir þá ímynd sem unglingurinn reynir að skapa sér. Tónlistarsmekkurinn sem viðkomandi aðhyllst getur hugsanlega skapað greiðari leið að myndun félagahópa og haft áhrif á félagsleg samskipti unglingsins (Miranda og Claes, 2009).

Í mínum huga er það óumdeilanlegt að tilfinninganleg upplifun fylgir því að hlusta á tónlist. Hver sú upplifun er, og hversu sterk hún verður, ræðst aftur á móti af ýmsum ólíkum þáttum bæði persónulegum og úr umhverfinu. Þannig þróar einstaklingurinn með sér tónlistarsmekk sem er persónubundinn en um leið getur hann sameinað og skapað félagslega einingu. Við notum oft tónlist til að hafa áhrif á tilfinningar okkar, endurspegla þær eða miðla þeim.  Hvort sem það er reiði eða ofsakæti, fögnuður eða söknuður. Tónlist er því í eðli sínu samskiptaform.

Lifandi tónlistarflutningur er einstakur fyrir margra hluta sakir. Með honum getur skapast einstakt andrúmsloft á milli flytjanda og hlustenda. Upplifunin af tónlistinni verður þá enn sterkari fyrir vikið. Í kjölfar hinna miklu tæknibreytinga sem hafa orðið í miðlun tónlistar hefur tónlistarhlustun aukist gífurlega. Lítið mál er að nálgast tónlist með því að hlaða henni niður af veraldarvefnum á stafrænu formi og vista til afspilunar síðar meir af snjallsíma. Eða streyma henni beint í eyrun ef að nettengingar bjóða upp á það. Þetta aukna aðgengi að tónlist hefur dregið úr hefðbundinni plötu- og geisladiska útgáfu þar sem kaupendahópurinn hefur minnkað. Tónlistarmenn telja slíka útgáfustarfsemi ekki standa undir kostnaði. Þessum breyttu aðstæðum hafa margir tónlistarmenn svarað með auknu framboði á lifandi tónlistarflutningi.

Til þess að fara á tónleika hjá helstu átrúnaðargoðum sínum er margur unglingurinn, sama á hvað aldri hann er, tilbúinn til að leggja allt í sölurnar. Að fá að berja augum, og taka þátt í algleymi fjölmennra tónleika, fræga listamenn sem hafa jafnvel komið um langan veg til að skemmta er eitthvað sem greipist í minni manns. Upplifun og tilfinning sem að þú manst alla tíð. Og enn minnisstæðara er það ef um heimsfræga listamenn er að ræða sem að þú hefur fylgst lengi með. Þá fer allt lífið að snúast um að komast á þennan tiltekna viðburð.

Ég er með meðfædda CP fötlun og þarf því að nota hjólastól. Til þess að geta sótt tónleika þarf ég á aðstoðarmanneskju að halda. Á stærri tónleikum hérlendis eru oftast sérstök svæði fyrir hjólastóla og þá stóll fyrir aðstoðarmanneskjuna. Í nágrannlöndum okkar, Danmörku og Svíþjóð, kaupirðu einn  miða á tónleika í hjólastólasvæði óháð því að þurfa aðstoð. Til að sannreyna þetta snéri ég mér til AMEX vettvangsins í Stokkhólmi þar sem Eurovision 2016 var haldið. Og mikið rétt, einn miði fyrir einn tónleikagest – óháð því hvar hann situr. Á Íslandi hef ég sótt tónleika með Justin Timberlake og Jessie J.  Á báða þessa tónleika þurfti ég að kaupa tvo miða sem kostaði mig því 30.000 kr og 22.000 kr. í stað 15.000 og 11.000 kr. Einn miða fyrir mig og einn fyrir aðstoðarmanneskju mína. Þeir sem eru í forsvari fyrir tónleikahúsin vísa á tónleikahaldarana og segja að þetta sé þeirra ákvörðun að rukka fatalaða tvöfalt. Líklega óttast tónleikahaldarar tekjumissi og að fatlaðir einstaklingar hópist á tónleikana með aðstoðarfólk sem hefði annars sótt þá. Í mínum tilfelli hafði aðstoðarmanneskjan ekki áhuga eða smekk fyrir tónlistinn sem var flutt og var eingöngu að sinna vinnunni sinni.

Kannski finnst ófötluðu fólki þetta eðlilegir viðskiptahættir en mér finnst þetta mismunun. Þetta er ekki mitt val og það er ekkert sem að ég þrái frekar en að fara á tónleika án aðstoðar.

Rut Þorsteinsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði