Brotna kynslóðin

ingolfurKannski er réttara að kalla hana ,,hina greindu kynslóð“. Í dag er nánast annað hvert barn með einhverja greiningu; ofvirkni, athyglisbrest, lesblindu o.s.fr. Það hefur orðið jákvæð vakning í samfélaginu og kerfið hefur áttað sig á því að við erum ekki öll eins. Viðbrögðin eru svo  að greina mismunandi eiginleika og þarfir barna og unglinga. Í framhaldi hafa svo verið settar að stað hinar ýmsu aðgerðir til að bregðast við þessum mismunandi þörfum.

En bíðum við.

Í þessu greiningarferli kemur í ljós að stórt hlutfall barnanna okkar er greinilega stórgallað, með bresti, raskanir og blindur. Sá sem á erfitt með að sitja kyrr er of-virkur, sú sem er ekki með góðan stafrænan hæfileika er les-blind og sá sem á erfitt með að einbeita sér að einum hlut er með athyglis-brest. Vitanlega eiga mörg börn við vandamál að stríða. En hjálpar það börnunum að við séum stanslaust að segja þeim hvað þau séu nú gölluð og að við munum nú reyna að styðja þau í gegnum þeirra galla svo að þau dragist nú ekki of mikið aftur úr heilbrigðu börnunum?

Hversu mörg lesblind börn hafa fengið að heyra þá staðreynd að þessi blinda er sérhæfing í heilanum en ekki galli og að þau hafi að öllum líkindum betra mynd- og þrívíddarminni en heilbrigðu börnin? Eða að NASA ræður reglulega lesblint fólk í vinnu nákvæmlega vegna þess að það á auðveldara með að hanna og hugsa í þrívídd?

Hversu margir ofvirkir fá að heyra það að stór hluti afreksmanna í íþróttum og dugnaðarforkar á vinnumarkaði eru bullandi ofvirkir, einfaldega vegna þess að þeir hafa nær óþrjótandi orkulind?

Hversu oft bendum við börnum með athyglisbrest á að stór hluti frumkvöðla og verkefnastjóra séu með athyglisbrest eða að þetta sé einfaldlega hæfileikinn til að hugsa um fleira en þrennt í einu sem þarf að temja?

Tölum upp til barnanna okkar

Hættum að rífa börnin okkar niður og minna þau daglega á hvað aðrir geta gert betur en þau. Hættum að kalla hæfileika barna okkar ljótum nöfnum. Hættum að brjóta sjálfsímynd þessara gimsteina, fægjum þá frekar.

Hvernig væri að við minntum börnin frekar á hæfileika þeirra. Minnum þau á það í hverju þau eru góð á sama tíma og við þjálfum upp kunnáttu á veiku hliðunum. Það gæti komið ykkur á óvart en það er raunveruleg hætta á að þið endið með sterka, sjálfsörugga einstaklinga sem rökræða við ykkur í stað brotinna skugga sem helst vilja ekki mæta í skóla vegna mótlætis.

Skóli fyrir alla?

Skólakerfið okkar kemur að kjarnanum til frá tímum iðnbyltingarinnar og fjöldaframleiðslu, er hannað fyrir „heilbrigðu“ börnin. Þau sem sitja kyrr, þegja og gera eins og þeim er sagt. Öll hegðun sem er út fyrir þennan ramma krefst greiningar, svo skólinn fái auka fjármagn og helst stuðningsfulltúa fyrir barnið/börnin. Varla er hægt að kenna fjársveltum skólanum um. Eða dauðþreyttum kennaranum sem er einn með stóran krakkahóp. Því að kerfið okkar í dag er ekki hannað fyrir virku snillingana okkar sem þrífast ekki sitjandi kyrrir þegjandi að lesa. Meðan vanvirk börn, myndblind börn og börn með skerta athygli falla vel inn í með heilbrigðu börnunum og enginn sinnir þeim, því þau eru þægileg.

Er kannski kominn tími á að við viðurkennum fjölgreind í raun en ekki bara að nafninu til og endurskoðum kerfið okkar? Leyfum öllum gimsteinunum að skína, en ekki bara úrvöldum sem að passa inn í gamla úrelta kassann. Byrjum að minnsta kosti að byggja börnin okkar upp í stað þess að endalaust brjóta þau niður. Þau mæta nægu mótlæti annarsstaðar.

Foreldrar. Boltinn er hjá ykkur. Hrósum okkar eigin börnum, látum þau skína og þrýstum á kerfið að stíga inn í nútímann.

Ingólfur Már Grímsson, hársnyrtimeistari, skátaforingi og kennaranemi.

Höfundur er tveggja barna faðir, með óþægilega mikla orku, fjölhygli og sterkt myndminni umfram stafrænt minni.