Týndu börnin

heida elinHversu oft höfum við ekki séð auglýsingar í fjölmiðlum frá lögreglunni um týnd ungmenni? Hvað er það sem fær þessi börn til fara að heiman? Hvað er hægt að gera til að hjálpa þessum ungmennum áður en þau lenda á jaðrinum á samfélaginu og áður en þau grípa til þess ráðs að strjúka af heiman? Í janúar á þessu ári var Guðmundur Fylkisson aðalvarðstjóri ráðinn í fullt starf við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við leitina á týndu börnunum. Guðmundur hafði sjálfur persónulega reynslu af slíkum málum þar sem hann á dóttur sem hafði lent í slæmum félagsskap og þaðan leiðst út í neyslu vímuefna.

Týndu börnin eru yfirleitt þau ungmenni sem hafa verið á jaðrinum þar sem þau hafa lent í vondum félagsskap, einelti, þjást af andlegum veikindum, neyta áfengis og vímuefna og sum reyndar búa við skítaaðstæður heima fyrir. Þegar ungmenni strjúka að heiman vita þau yfirleitt ekki hvað þau eru að fara út í og hvað það muni hafa mikil áhrif á þau í framhaldinu. Þau eru t.d. látin selja sig eða stunda kynmök fyrir vímuefni, svefnstað og mat á götunni. Það kemur oftar og oftar fyrir segir Guðmundur að hann finnur mjög ungar stelpur hjá mikið eldri karlmönnum sem gefa þeim vímuefni í staðin fyrir kynmök, gistingu og mat.

Flest ungmennin sem leitað er að og finnast fara fyrst í neyðarvistun á Stuðla, þar sem haldið er vel utan um þau og hugað að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra. Mörg hver fara í afvötnun/afeitrun  af þeim vímuefnum sem þau neyttu meðan þau voru týnd. Eftir neyðarvistun á Stuðlum er í boði fyrir foreldrana og ungmennið áframhaldandi dvöl á BUGL og á meðferðarheimilum eins og Laugaland í Eyjafirði, Háholti í Skagafirði, Lækjarbakka á Rangárvöllum, framhaldsmeðferð á Stuðlum á vegum Barnaverndarnefndar og fóstur hvort sem það er tímabundið eða varanlegt.

En hvað er hægt að gera til að varna því að staðan verði svona alvarleg eins og hjá týndu börnunum? Það er mikilvægt fyrir ungmenni að fá að vita hvaða leiðir standa til boða í forvarnarstarfi í skólum og félagsmiðstöðvum. Verkefnið „Að ná tökum á tilverunni“ er þekkt leið til þess að kenna ungmennum að standa upp fyrir sjálfu sér og læra að segja „nei,takk“. Með því læra þau að láta ekki undan hópþrýstingi. Starf í félagsmiðstöðvum, eins og klúbbastarf, hjálpar þeim ungmennum sem eru á jaðrinum oft að finna sig í hópi. Einnig er jafningjafræðsla mjög mikilvæg í forvarnarstarfi og því væri tilvalið að stofna hóp með ungu fólki sem hafa verið á götunni til að segja unglingum frá því hvernig aðstæðurnar sem þau lifðu í voru og hvernig þau unnu sig útúr því.

Einnig þurfu foreldrar að vera virkir í því að fylgja eftir unglingunum sínum, spyrja þá út í hvernig þeim líður og fylgjast með hverjir eru vinir þeirra. Að vera virkur í lífi ungmenna skiptir miklu máli fyrir þann hóp sem er á jaðrinum eins og með öll börn og unglinga. Oft þarf ekki meira til svo ungmenni strjúki ekki að heiman, því það getur verið að unglingarnir finnist þau vera afskipt og vilja skoða hvað mamma og pabbi myndu gera ef þau myndu hverfa að heiman.

Síðast en ekki síst er sá hópur sem þarf á betri heilbrigðisþjónustu að halda. Þeir unglingar sem hafa greinst með ADHD, einhverfu, geðræn vandamál, greindarskerðingu og oft fjölþættari vanda í bland við neyslu vímuefna og hafa átt við hegðunarvanda að stríða í skóla. Þessum unglingum þarf að sinna betur. Það þarf að halda vel utan um þessa unglinga um leið og þau eru greind sem börn. Þau þurfa á fjölþættri aðstoð að halda frá skólakerfinu, frístundasviði, félagsmálastofnun og heilbrigðistofnun sem þurfa að starfa saman í teymisvinnu með þeim börnum og unglingum sem eru í þessum hópi svo þau lendi ekki á jaðrinum og verði  hluti af „týndu börnunum“.

Það er mikilvægt að hugsa hvað hægt er að gera betur og hvað er hægt að bæta í umhverfi unglinganna frá öllum sviðum. Ein leið er að stofna hóp í hópastarfi í félagsmiðstöðvum með þessum unglingum, virkja þau og sýna þeim hversu mögnuð þau eru. Það er skylda okkar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að tryggja velferð allra barna með öllum tiltækum ráðum. Öll börn eiga það skilið að hlúð sé að þeim og þau vernduð gegn áhættuhegðun.

Heiða Elín Aðalsteinsdóttir, nemi í tómstunda – og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.