Tölvunotkun unglinga og mikilvægi tómstundamenntunar

birgir steinnÉg velti því oft fyrir mér hvort að þróun tækninnar hafi slæm eða góð áhrif á mannkynið. Við vitum öll að tölvur verða sífellt mikilvægari í nútíma samfélagi. Fyrir suma eru þær meira að segja nauðsynlegar til þess að geta sinnt vinnu eða skóla. Það er hinsvegar staðreynd að tölvunotkun unglinga hefur stóraukist á síðustu árum. Spurningin er þó hvað unglingar gera þegar þeir eru í tölvunni og hvað það er sem hefur orsakað þessa auknu tölvunotkun. Nota þeir tölvur fyrir lærdóm eða vinnu, hanga þeir aðallega á samfélagsmiðlum eins og Facebook, eða sitja þeir gjarnan og spila tölvuleiki? Það getur verið ansi erfitt að rannsaka hver megin tilgangur tölvunotkunar unglinga sé.

Vissulega er stór hluti þeirra unglinga sem notar tölvur mikið að nota þær í skólaverkefni, skrifa tölvupósta, leita heimilda og skrifa ritgerðir en aðeins brot af heildartímanum fer í þætti sem þessa. Það er því ekki nema von að maður skuli velta vöngum yfir því hvað unglingar eru eiginlega að gera í tölvunum ef aðeins lítið magn af tímanum fer í skólatengda þætti. Ég rakst á eina rannsókn úr lokaritgerð um tölvufíkn unglinga eftir tvo stráka, þá Guðmund og Reyni. Í þessari rannsókn lögðu þeir spurningalista fyrir 119 unglinga á aldrinum 14-16 ára, 60 stráka og 59 stelpur. Megin markmið þeirra var að komast að því hvort unglingar nú til dags ættu við tölvufíkn að stríða og hvort að slík fíkn hefði eitthver áhrif á námsárangur og heilbrigði unglinga. Niðurstöðurnar voru að mínu mati sláandi.

Í þessari rannsókn kom í ljós að hátt hlutfall þátttakenda telja sig eyða u.þ.b. einum til þremur klukkustundum við tölvuna á dag, nánar tiltekið 56 af alls 119 unglingum. Hinsvegar töldu 39% unglinga sig eyða yfir þremur klukkustundum í tölvunotkun á dag, og það var að þeirra mati of mikill tími. Þegar þeir litu nánar á hvað það er sem heillar unglingana svona mikið við skjáinn kom í ljós að töluverður munur var á milli kynja. Strákarnir sögðust mest nota tölvur undir fjölnotendaleiki en stelpurnar virtust hinsvegar hafa lítinn sem engan áhuga á tölvuleikjum, en 66% þeirra sögðust eyða mestum tíma sínum á samfélagsmiðlinum Facebook.

Eins og ég tók fram hér fyrr þá skiptir miklu máli að unglingar noti frítíma sinn á eins jákvæðan hátt og kostur er. Fyrir mér eru rúmlega þrjár klukkustundir hreinlega of mikill tími þar sem tölvunotkunin er að öllum líkindum farin að stytta þann tíma sem unglingar hafa í tómstundir eins og t.d. útiveru, íþróttir og önnur áhugamál. Þá er ekki nema von að maður hugsi; ,,Hvernig fáum við unglinga nú til dags til þess að nota frítíma sinn á uppbyggjandi hátt og notast frekar við jákvæðar tómstundir heldur en að eyða of miklum tíma í tölvuleiki og síður eins og Snapchat og Facebook?”

Svarið er einfalt. Við þurfum að leggja mun meiri áherslu á tómstundamenntun fyrir unglinga. Best væri auðvitað að hafa tómstundarmenntun sem skyldufag í grunnskólum og menntaskólum. Sjálfur hafði ég ekki hugmynd um hversu miklu máli það skiptir að læra hvernig við eigum í raun og veru að nota frítíma okkar til þess að hann hafi góð áhrif á okkur líkamlega og andlega. Tómstundamenntun er vissulega ekki nógu þekkt fyrirbæri og að mínu mati mjög vanmetin. Við megum ekki leggja útiveru og önnur áhugamál til hliðar og gleyma okkur í tölvunum og þar með gleyma æskunni eins og ég heyrði einusinni.
Með vitundarvakningu og samvinnu er auðvelt að auka þekkinguna á tómstundamenntun í öllum skólum því hún er ekki einungis bráðnauðsynleg heldur líka ótrúlega skemmtileg.

Birgir Steinn Stefánsson, háskólanemi í tómstunda- og félagsmálafræði.