Mikilvægi félagsmiðstöðvastarfs

sonja einarsÍ félagsmiðstöðvum víða um land er unnið gott og faglegt starf þar sem starfsmenn setja krafta sína í að veita ungmennum jákvætt og uppbyggjandi umhverfi til að sækja félagsstarf. Á landsbyggðinni er oft minna um fjölbreytni í tómstunda- og íþróttastarfi en gerist í stærri bæjum og á höfuðborgarsvæðinu.
Það er því hægt að ímynda sér hversu mikilvægt æskulýðsstarf er fyrir ungmenni sem búa á landsbyggðinni og hafa ekki úr miklu að velja. Ef lítið eða ekkert stendur til boða í tómstundastarfi er meiri hætta á að ungmenni leiðist út í óæskilega hegðun svo sem áfengis- og vímuefnaneyslu og jafnvel félagslega einangrun. Starfsemi félagsmiðstöðva er stór þáttur í lífi margra unglinga og hefur mikil áhrif á litla bæi á landsbyggðinni. Félagsmiðstöðvar eru vettvangur fyrir alla og eru þar allir jafnir, ungmenni og starfsfólk, en reynt er eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir allra, hvernig sem þeir standa.

Ég sem starfsmaður og jafnframt forstöðumaður félagsmiðstöðvar á landsbyggðinni tel það brýnt að málefni félagsmiðstöðva séu skoðuð og starfið metið að þeim verðleikum sem það á skilið. Oft er eins og starfsemin sé föst í ákveðnum skorðum vegna fornra hugmynda um félagsmiðstöðvastarfsemi og er upplifunin oftar en ekki sú að hún vegi ekki eins mikið og íþróttastarf eða önnur æskulýðsstarfsemi sem fer fram í sveitarfélaginu. Erfitt getur verið að koma upp áhrifaríku og uppbyggjandi starfi þegar maður þarf í leiðinni að beita kröftum sínum í að vekja upp áhuga og benda samfélaginu á mikilvægi félagsmiðstöðvastarfs. Það, ásamt fjármagni sem úthlutað er til félagsmiðstöðvanna, hefur mikið að segja um þær hindranir sem starfið stendur frammi fyrir og þá möguleika sem starfsemin hefur til þess að bjóða upp á gott og gilt starf. En til þess að starfið nýtist sem best og verði sem öflugast verður samfélagið í heild að átta sig á því hversu mikilvæg og áhrifarík þessi starfsemi er fyrir unglinga.

Við sem vinnum með unglingum í félagsmiðstöðvum erum ekki bara að fara í borðtennis, hanga og leika okkur, heldur erum við samferða þeim í gegnum flókinn og erfiðan veg sem unglingsárin eru. Meðal annars með því að velta fyrir okkur öllum mögulegustu hlutum, aðstæðum og hugmyndum sem á allt sinn hlut í því að móta sjálfstæðan einstakling. Nálgun félagsmiðstöðvastarfsmanna á málefni unglinganna er önnur en skólanna þar sem hún er nálægari þeim og óformlegri en í hinu hefðbundna skólastarfi. Unglingarnir eru oft ófeimnari við að ræða og spjalla um ákveðin málefni sem eru þeim hugleikin við starfsfólk félagsmiðstöðva þar sem þeir fá tækifæri til að velta skoðunum sínum og hugmyndum fyrir sér og að eiga samræður um það í návist félaga sinna á óformlegri vettvangi. Það sem hefur einnig mikið að segja í þessu samhengi er að ungmennin hafi jafnt vægi í samræðum við starfsmanninn og reynt er að skoða öll sjónarhorn.

Markmiðið er að starfið sé uppbyggjandi, jákvætt og skemmtilegt og verði að mikilvægum hluta í uppbyggingu heilbrigðra og sterkra einstaklinga inn í samfélagið. Er það því ekki í þágu samfélagsins að félagsmiðstöðvastarf sé virkt, faglegt og hafi áhrif á þá sem starfið sækja? Ég tel svo vera þar sem við sem vinnum í starfinu tökum að okkur hlutverk sem samferðarfólk og vegvísar einstaklinga sem eru að móta sína leið út í lífið.

Sonja Einarsdóttir, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Zveskjunnar á Reyðarfirði og nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands