Vissir þú þetta um félagsmiðstöðvastarfsmenn?

ÞVE myndFélagsmiðstöðvar hafa verið til í einhverri mynd síðan 1956 sem afdrep fyrir unglinga. Undanfarin ár hefur orðið gífurleg þróun í starfi félagsmiðstöðva, allavega í Reykjavík, og fagstarfið sem þar er unnið skákar oft á tíðum því sem best gerist annars staðar í heiminum. Undirritaður hefur rekið sig á stórskemmtilega fordóma gagnvart starfi félagsmiðstöðva og bakgrunn félagsmiðstöðvarstarfsmanna; talið að þeir séu bara að leika sér og jafnvel í einhverri pattstöðu í lifinu. Því fer ansi fjarri raunveruleikanum.

Vissir þú að…

… forstöðumaður félagsmiðstöðvar þarf að hafa lokið háskólaprófi á uppeldissviði?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn ná stundum að mynda tengsl og vera betur meðvitaðir um félagslegan bakgrunn unglinganna en foreldrar þeirra?

… foreldrar unglinga í vímuefnavanda leita stundum til félagsmiðstöðvastarfsmanna í úrræðaleysi sínu til að reyna tjónka við unglingi?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru stundum einu aðilarnir sem unglingurinn treystir fyrir vandamálum og vangaveltum sínum?

… barnavernd fær einna flestar tilkynningar frá félagsmiðstöðvum  (enda ber þeim skylda að tilkynna skv. tilkynningarskyldu) á eftir lögreglu?

… í sumum hverfum Reykjavíkur leggja nánast allir unglingar leið sína í félagsmiðstöðina einhverntíman yfir skólaárið en að ca helmingur reykvískra unglinga mætir vikulega eða oftar?

… félagsmiðstöðvar í Reykjavík fara eftir þremur höfuðgildum; forvarnargildum, menntunargildum og afþreyingargildum. Og að allt starf er skipulagt með þessi gildi að leiðarljósi?

… allir nýir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík fara á grunnnámskeið um starfsemi félagsmiðstöðva, skyndihjálparnámskeið og fræðsludag um verklag í félagsmiðstöðvum. Auk þess að forstöðumaður handleiðir nýjan starfsmann markvisst inn í starfið eftir móttökuáætlun félagsmiðstöðvarinnar?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru oft meðvitaðri um félagslega stöðu unglinga en margir aðrir í umhverfinu þeirra?

… félagsmiðstöðvar eru með facebook-síður og einn tilgangur þess er að fylgjast með netvenjum unglinganna og grípa inn óviðeigandi  í aðstæður?

… hver einasta félagsmiðstöð í Reykjavík rýnir í rannsóknir um hagi og líðan unglinga í sínu hverfi og skipuleggur starfsemina út frá þeim?

… hugsanlega er hvergi að finna jafn margar verklagsáætlanir og í starfi félagsmiðstöðva?

… flestir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík eru í eða hafa lokið háskólanámi?

… þessi listi gæti verið miklu lengri?

Með þessum orðum hnykki ég á því að félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru ekki að gera bara eitthvað í sínu starfi. Þeir eru fagmenn fram í fingurgóma að vinna markvisst fagsstarf í viðleitni sinni til að skila sjálfsstæðum, sjálfsöruggum, umburðarlyndum og lífsglöðum einstaklingum út í lífið. Og það sem meira er; flestir félagsmiðstöðvarstarfsmenn elska vinnuna sína.

Þorsteinn V. Einarsson
Deildarstjóri unglingastarfs
Frístundamiðstöðin Kampur

Gæðamat á frístundastarfi

sigrun_sveinbjornsdottirGæði frístundastarfs hefur í gegnum tíðina verið umræðuefni þeirra sem að því standa og sitt sýnist hverjum um hvað sé gott frístundastarf og hvernig ná skuli fram því besta hjá þeim sem þar eru þátttakendur. Sigrún Sveinbjörnsdóttir er uppeldis- og menntunarfræðingur og hefur starfað að frístundamálum hjá Reykjavíkurborg hátt á annan áratug. Hún hefur ásamt Björk Ólafsdóttur, matsfræðingi, leitt þar vinnu við gerð gæðaviðmiða fyrir frístundastarf og Frítíminn forvitnaðist um þetta verkefni hjá Sigrúnu.

Lesa meira “Gæðamat á frístundastarfi”

Þjónandi forysta – Eitthvað vælulegt og í besta falli fyrir kerlingar?

Steingerður Kristjánsdóttir
Steingerður Kristjánsdóttir Verkefnisstjóri á skrifstofu frístundamála hjá SFS

Oft er ég spurð hvort þjónandi forysta (e. servant leadership) sé ekki bara einhverjar kerlingabækur, eitthvað fyrir ístöðulausa stjórnendur og undirlægjur? Svarið er nei! Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem mörg stórfyrirtæki hafa tileinkað sér með það að markmiði að hámarka afköst og arð með gæði og starfsánægju í fyrirrúmi. Má þar nefna bandarísk fyrirtæki á borð við South West Arlines, Starbucks, TDIindustries og Zappo svo eitthvað sé nefnt. Íslenskum fyrirtækjum og stofnunum sem tileinka sér þjónandi forystu fer einnig mjög fjölgandi.

Lesa meira “Þjónandi forysta – Eitthvað vælulegt og í besta falli fyrir kerlingar?”

Jákvæð sálfræði og frístundastarf

Hrefna GuðmundsdóttirÉg átti einu sinni spjall við kennara á grunnskólastigi. Hann barmaði sér yfir því að fyrsta spurning foreldra í foreldraviðtölum væri hvort barn þess ætti vin í bekknum eða ekki. Kennarinn hafði væntingar um að foreldrar hefðu frekar áhuga á hvernig gengi hjá barninu að læra að lesa. Við sem þekkjum frístundastarf skiljum að það eru samskipti sem skipta mestu máli. Að fá að njóta sín, kynnast jafnöldrum, eignast vini og kunningja, að fá að reyna á hæfileika sína og hafa gaman. Lesa meira “Jákvæð sálfræði og frístundastarf”

Spennandi ár framundan hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu

DSC_0095-2

Nú þegar sumarið fer að líða undir lok og fólk mætir aftur til vinnu eftir sumarfrí þá fer starfsemi Félags fagfólks í frítímaþjónustu á fullt. Við í stjórn FFF ásamt nefndum höfum verið útbúa starfsáætlun fyrir veturinn og hefur hann sjaldan litið jafn vel út. Nú þegar er skráning hafin á námskeið fyrir leiðbeinendur í Reynslunámi en það er haldið í samstarfi við Áskorun ehf og má nálgast frekari upplýsingar hér en örfá sæti eru laus á þetta spennandi námskeið.

Í vetur stefnir fagfélagið á að halda 2 hádegisfyrirlestra á önn en þeir hafa verið vel sóttir síðastliðin ár. Fagfélagið mun í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn halda fimm námskeið í Litla Kompás víðsvegar um landið á haustönn. Einnig stefnum við á að halda fleiri námskeið í samstarfi við Háskóla Íslands en það samstarf hófst á síðasta ári og lukkaðist afar vel.

Ein spennandi nýjung sem við í stjórninni erum þegar byrjuð að undirbúa er námsferð sem fagfélagið stefnir á að fara í á næsta ári. Stefnan væri þá að ferðast til Evrópu, kynnast systrasamtökum FFF ásamt því að fá innsýn inn í það nýjasta í frístundastarfinu úti.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í spennandi starfi fagfélagsins í vetur þá hvetjum við þig til að skrá þig í félagið en það er gert með einföldum hætti hér.

Hér má svo lesa starfsáætlun stjórnarinnar í heild sinni.
Likeaðu við FFF á Facebook

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu

 

Veitum ungmennum raunveruleg áhrif – lækkum kosningaaldur

árnigVeik rödd

Við sem höfum starfað að velferðaramálum barna og ungmenna  um langa hríð  höfum ekki farið varhluta af því hve börn og ungmenni eiga sér veika rödd í samfélaginu. Margt hefur áunnist en það er ennþá langt í land hvað varðar raunveruleg áhrif ungmenna, bæði í samfélaginu og í nærumhverfi sínu.  Á níunda áratug síðustu aldar innleiddu félagsmiðstöðvar hérlendis starfsaðferðir unglingalýðræðis sem tæki og lið í valdeflingu ungmenna. Aðferð sem byggir á lífsleikni og er menntandi í víðasta skilningi þess orðs. Starfsaðferðir unglingalýðræðis ganga út á það að efla getu einstaklings og/eða hópa til þess að vinna með öðrum á lýðræðislegum forsendum og að takast á við tilveruna í öllum hennar margbreytileika.  Ungmennin öðlast með virkni í starfinu aukna félagslega hæfni og þroska með sér jákvæða sjálfsmynd sem fæst með þátttöku í þeim fjölmörgum verkefnum og viðfangsefnum sem starfsemi félagsmiðstöðva inniheldur

Æskulýðslög

Þessi þróun hefur m.a leitt til þess að í æskulýðslögum (17.mars/2007/11.gr.) er ákvæði um heimild um stofnun ungmennaráða í sveitarfélögum en þar segir: „Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.“ Flest sveitarfélög hafa nýtt þetta heimildarákvæði en ekki öll. Í Hafnarfirði var ákveðið fyrir margt löngu að fulltrúi unglinga ætti sæti í Íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins með áheyrnar- og tillögurétt  á sama hátt og fulltrúi íþróttahreyfingarinnar.

Ungmennaráð

Starfsemi ungmennaráða hafa víða um land gengið vel ekki síst hér í Hafnarfirði en hér var búið að koma á ungmennaráði löngu áður en ákvæði um slíkt kom í lög. Ungmennaráðið/in hér í bæ hafa ýmsu áorkað í gegnum árin.  Hinu er þó ekki að leyna að þegar að kemur að stóru málunum þá verður oft brestur á, ekki bara hér í firðinum heldur víðar þar sem ungmennaráð starfa. Það má velta fyrir sér hvers vegna ungmennaráð eru ekki höfð með í ráðum í stærri málum. Ég minnist mikils niðurskurðar til æskulýðsmála hér í bæ fyrir nokkrum árum. Á þeim tímapunkti sýndu hafnfirsk ungmenni sterka lýðræðisvitund, efndu til fjölmennrar mótmælagöngu og  sýndu hug sinn í verki.  Í þessu ljósi má velta fyrir sér hvers vegna er verið að tala um unglingalýðræði og til hvers er fyrirkomulag eins og Ungmennaráð  ef það hefur ekkert um brýn hagsmunamál ungs fólks að segja þegar virkilega á reynir? Mynd af brosandi stjórnmálamönnum og ungmennaráðum er vissulega hugguleg en hefur ekkert vægi umfram það ef starfsemi ráðanna fylgja ekki raunveruleg völd.

Lækkum kosningaaldur

Gæti verið að ungt fólk þ.e.a.s. þau sem ekki eru kjörgeng eigi sér í raun enga rödd eða málsvara í samfélaginu þegar að raunverulega blæs á móti?  Ég minnist þess fyrir allmörgum árum þegar að stjórnmálamenn fóru allt í einu að tala um framhaldsskólann sem var í velflestum tilfellum í beinu samhengi við lækkun kjörgengis í 18 ár. Getur verið að áherslur stjórnmálamanna miðist nær eingöngu við áhuga virkra atkvæða sbr. foreldramiðuð skólaumræða? Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka kjörgengi í 16 ára og jafnvel 15 ára aldur og með því gefa ungmennum raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á mótun samfélagsins, ekki síst nærsamfélagsins og á þau mál sem á þeim brennur. Unglingalýðræði í núverandi mynd virkar ekki þegar á móti blæs. Ég tel því einu raunhæfu leiðina að lækka kjörgengi og því fyrr því betra. Ég veit sem er að við slíkt myndu málefni unglinga ekki verða sú afgangsstærð í  þjóðfélaginu sem því miður oft vill verða. Það hefur ekkert samfélag efni á slíku fálæti og allra síst á tímum eins og þeim sem við lifum á.

Árni Guðmundsson M.Ed  félagsuppeldisfræðingur