Að vera unglingur á gervihnattaöld

drofn jonsdottirUpp úr þrítugsaldrinum eru mörg okkar farin að gleyma því að eitt sinn vorum við unglingar. Við höfum gleymt því að þegar við vorum á þeim aldri fannst okkur allir þeir sem væru þrítugir, eða eldri, væru orðnir óttalega gamlir og ekki langt í dvölina á elliheimilinu. Þetta hefur verið svona og verður væntanlega alltaf svona. Hver kannast ekki við það? Nýjasta dæmið um áhyggjur okkar fullorðna fólksins af unga fólkinu er notkun þeirra á snjalltækjum. Til að mynda er mikið rætt um mikla notkun snjallsíma og að frítími unga fólksins fari allur í að skoða samfélagsmiðla á vefnum. Við teljum að unga fólkið sé hætt að tala saman, nema þá í gegnum netið. Á sama tíma heyrast háværar raddir í samfélaginu um að allir skólar ættu nú að spjaldtölvuvæðast. Erum það við fullorðna fólkið eða eru það unglingarnir sem krefjast þess?

Ég hef velt þessu mikið fyrir mér. Ég hef sjálf farið í nokkra hringi í afstöðunni með eða á móti þessu og þá með eina spurningu að leiðarljósi, er þetta eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af?

Sumir skólar eru að reyna að snúa þessari þróun við og banna símanotkun í skólanum. Sem má að sjálfsögðu færa rök fyrir að sé réttlætanlegt inni í skólastofunum þar sem kennsla fer fram. En þegar kemur að frímínútum og matarhléum set ég spurningarmerki við hvort það sé nauðsynlegt. Ég hef gert mjög óvísindalegar rannsóknir á hegðun unglinga og símanotkun þeirra. Einfaldlega með því að fylgjast með unglingum og símanotkun þeirra. Þegar þau eru með símana uppi þá sitja þau oftar en ekki mjög nálægt hvert öðru og þau eru oftar en ekki að ræða það sem þau eru að fást við hverju sinni í símanum. Sem sagt nándin er meiri. Þegar þau eru ekki með símann uppi þá sitja þau ekki jafn þétt saman og oftar en ekki má finna hálfsofandi unglinga hér og þar og mér finnst þá vanta nándina sem ég sé meira af þegar þau eru með símana. Ég get ekki heldur séð að þau eigi endilega eitthvað uppbyggilegri samræður séu þau símalaus. Það er meira svona eins og þau láti sér leiðast.

Ég held að áhyggjur okkar fullorðna fólksins af þessum hlutum séu kannski ástæðulausar og séu meira bundnar við að við eigum erfitt með að sætta okkur við breytingar. Af því að við gerðum ekki svona þegar við vorum unglingar, þá er þetta eitthvað hræðilegt. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem ráða ekki við netnotkun sína og það er áhyggjuefni en að við ætlum að fara að sporna við þessari þróun og reyna að stoppa unga fólkið af er fáránlegt. Þá held ég að við þyrftum fyrst að byrja á að skoða okkur sjálf og hvað við erum að gera. Það er líka þannig að unga fólkið er að máta sig inn í heim fullorðinna, eini munurinn er að ungt fólk hefur yfirleitt meiri réttlætiskennd en við sem eldri erum og þau eru oftast full meðvitundar um hvernig rétt sé að gera hlutina, frekar en við.

Þá er vafalaust einhver sem kemur með þau rök á móti og segir að einelti hafi stóraukist með tilkomu samskipta unglinga á netinu. Ég spyr þá á móti er það eitthvað sannað að einelti hafi aukist með aukinni netnotkun unglinga. Er ekki bara raunin að það er sýnilegra þegar hægt er að staðfesta það? Er það ekki líka ákveðin kostur að það er einfaldara að uppræta og koma í veg fyrir það einelti þegar hægt er að leggja fram sönnunargögn í myndrænu formi? Það skal þó tekið fram að greinarhöfundur er algjörlega á móti einelti í nokkurri mynd og að einelti er aldrei réttlætanlegt sama í hvaða mynd það birtist.

friminuttÞessi mynd hefur verið tekin sem dæmi á íslenskum samskiptasíðum um hversu slæm þróunin meðal unga fólks sé orðin, með vísun í að æskan sé hætt að leika sér og hangi bara í símanum. Báðar myndirnar hafa hinsvegar bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Sú fyrri sýnir vissuleg börn sem stunda hreyfingu en þar má líka greina barn sem stendur eitt undir skólavegg. Sú neðri sýnir hinsvegar börn sem sitja þétt saman og eru í símunum sínum og þau fá reyndar enga hreyfingu en þau eru í mikilli nánd með vinum sínum.

Ég held að gamla Grýlan um að unglingar séu á villigötum sé eina ferðina enn á sveimi. Við eigum flotta unglinga sem eru fullir meðvitundar um hvað þau eru að gera og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því að mikil símanotkun geri þau að aumingjum. Þau eru framtíðin og í nútíma heimi, með tæknina allsráðandi getum við verið örugg um að þau eiga eftir að standa sig vel.

Dröfn Jónsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ