Yndislestur unglinga og stuðningur foreldra

Rósa Kristín Bjarnadóttir

Áður fyrr fór drjúgur tómstundatími unglinga í lestur bóka. Með tilkomu aukinnar tækni og internetsins hefur bóklestur farið mikið niður á við. Einnig hefur aðstaða til íþróttaiðkunar batnað og fleiri valmöguleikar standa unglingum til boða og allt þetta dregur úr því að unglingar finni sér afþreyingu í lestri bóka eða blaða. En allt bóklegt nám byggir á lestri og í aðalnámskrá grunnskóla (2013, bls. 97), er það sagt vera meginmarkmið læsis að gera nemendur færa um að  afla  sér  þekkingar  og geta tjáð sig í töluðu og rituðu máli. Lestur  er  því  afar mikilvægur og nauðsynleg forsenda þess að geta aflað sér þekkingar og verið almennur þátttakandi í þjóðfélaginu. Lestur er mjög flókið  ferli  og  liggur  misvel fyrir hverjum einstaklingi að ná valdi eða færni á honum. Til að ná almennilegum tökum á lestri þarf að æfa hann vel og reglulega. Ég er því þeirrar skoðunar að ýta ætti verulega undir áhuga og efla unglinga til að eyða meiri tíma í lestur.

Skiptir stuðningur foreldra við lestur unglinga máli? Það má leiða getum að því að foreldrar og heimilin spili lykilhlutverk í lestrarþjálfun til að auka færni og efla áhuga.

Máltækið segir ,,Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“. Þau börn sem venjast því frá unga aldri að foreldrar skapi notalega stund við lestur, taki lestur fram yfir skjánotkun og sjónvarpsáhorf eru líklegri til að gera það einnig sjálf. Gefi foreldrar sér góðan tíma til að lesa með barninu og ræði um lesefnið, eykur það líkur á að orðaforði og málvitund barnsins aukist. Til að viðhalda þessum þætti áfram á unglingsárin gætu foreldrar jafnvel lesið þær bækur sem unglingurinn les eða kynnt sér um hvað bókin fjallar þannig að samræðugrundvöllur verði áfram til staðar. Lestur fjölbreyttra bóka ýtir undir aukinn orðaforða sérstaklega ef jafnframt lestrinum verða samtöl eða umræður. Einnig er mikilvægt að velja lesefni sem er spennandi og vekur áhuga. Foreldrar gætu líka sagt unglingum sínum hvaða bækur þeir eru að lesa eða mælt með spennandi bókum (Guðrún Björg Ragnarsdóttir og Sif Stefánsdóttir, 2009, bls. 17).

Gefnar hafa verið út fjölmargar leiðbeiningar sem allar lúta að því að það sé gott og hvetjandi að foreldrar og heimilin komi að lestri og jákvæðri upplifun af honum. Á netsíðunni Lesvefurinn er talað um hugtakið fjölskyldulæsi sem notað er í víðu samhengi um þær athafnir daglegs lífs, sem fram fara á vegum fjölskyldunnar innan og utan heimilisins og tengjast læsi á margvíslegan hátt. Það getur verið auk lesturs bóka lestur leiðbeininga, uppskrifta, minnismiða og ýmiss konar skilaboða. Ritun getur einnig tengst þessu í formi skilaboða t.d. á snjalltækjum. Þær sögur sem heimilisfólk segir hvert öðru í samræðum um það sem það hefur lesið, séð eða upplifað tengist einnig fjölskyldulæsi.

Þeir unglingar sem venjast því frá fyrstu hendi að eðlilegt og sjálfsagt er að þeir verji tíma til lesturs heima með foreldrum sínum verða öruggari með sig þegar þeir koma í skólann og þurfa að sanna sig þar (Clark  og  Hawkins, 2010,  bls. 17–22,  27). Þeir sem eiga í erfiðleikum með lestur upplifa oft margar hindranir í skólanum og umhverfinu og færast þá erfiðleikarnir yfir á fleiri námsgreinar þar sem lesturinn kemur nánast alls staðar á einhvern hátt við sögu.

Til að draga úr þessum neikvæðu áhrifum geta foreldrar gert  börnunum skiljanlegt að það er í lagi að gera mistök, unglingarnir eru ekki gagnrýndir, þeir fá að lesa á sínum forsendum og þannig  eflist öryggistilfinning þeirra.  Foreldrar geta hjálpað unglingum sínum að setja sér raunhæf markmið og haft einhvers konar hvetjandi umbun þegar þeim er náð.

Í ljósi framangreindra þátta orkar það ekki tvímælis hjá mér, að stuðningur foreldra við lestur  auki færni til lesturs, heldur þvert á móti.  Að mínu mati gegna foreldrar lykilhlutverki í því að hvetja unglinga sína til lesturs og efla áhuga þeirra. Hvers konar stuðningur foreldra í hvaða tómstundastarfi sem er eykur líkur á því að unglingurinn stundi tómstundastarfið og á það einnig við um lestur.  

Rósa Kristín Bjarnadóttir

Verum fyrirmyndir

Dóra Eggertsdóttir

Sú sem hér ritar hefur mikið verið að hugsa um kvíða barna og ungmenna undanfarið vegna BA ritgerða skrifa um kvíða barna. Við þekkjum örugglega öll tillfinninguna að upplifa kvíða af einhverju tagi eða við ákveðnar aðstæður. Margir eiga börn og ungmenni sem eiga við kvíðavandamál að stríða. Að vera ungmenni í dag getur ekki verið auðvelt.

Annars eru unglingsárin sjaldan auðveldur tími en með hröðum tækni- og samfélagsbreytingum getur undirritaður ímyndað sér að það sé ansi erfitt að standast ýmsar kröfur og væntingar sem unglingar standa frammi fyrir í nútímasamfélagi. Kvíði er hugtak sem  lýsir ótta, hræðslu og áhyggjum. Kvíði er eðlileg tilfinning sem getur verið bæði neikvæð og jákvæð. Þegar kvíði er jákvæður er það tilfinning sem er hluti af lífinu og getur bætt einbeitingu og frammistöðu. Þegar kvíði hefur heftandi áhrif á líf unglings og kallar á óeðlileg viðbrögð við aðstæður sem ættu ekki að kalla fram kvíða er það neikvæður kvíði sem er orðin að kvíðaröskun.

En hver getur verið ástæða þess að börn og unglingar eru kvíðnari í dag en áður fyrr?  Kannski er bara meira talað um það nú til dags og einstaklingar eru opnari. Margir þættir koma til greina sem orsakar kvíða og hafa rannsóknir sýnt að þessir þættir eru meðal annars: áhrif samfélagsmiðla, prófkvíði og fjárhagur foreldra. Kvíði ungmenna hefur aukist verulega og er talið að eitt af hverju tíu börnum þjáist af kvíða. Kvíði stúlkna hefur farið vaxandi síðan árið 2000 og er sérstaklega slæmur hjá stúlkum á aldrinum 13-15 ára.

Samfélagsmiðlar setja gríðarlega pressu og óraunhæfar kröfur á unglinga. Margir upplifa kvíða vegna samfélagsmiðla sem getur þróast yfir í kvíðaröskun sem er mun alvarlegri og þá upplifir einstaklingur mikla hræðslu og áhyggjur í aðstæðum sem ekki ættu að kalla á slík viðbrögð. Sumir geta ekki borðað kvöldmat eða sofið heila nótt án þess að kíkja í símann og fylgjast með hvað aðrir eru að gera. Með því fara einstaklingar ósjálfsrátt að bera sitt líf saman við glansmynd samfélagsmiðla og getur andleg líðan versnað við þann stanslausa samanburð. Sumir upplifa kvíða bara við þá hugsun að síminn gleymist eða sé batteríslaus og ekkert hleðslutæki til staðar. Hjá mörgum ungmennum skiptir mestu máli að fá sem flest like og ef það gerist ekki verður að eyða myndinni eða færslunni út vegna þess að það hefur áhrif á ímynd þeirra innan ákveðins samfélagsmiðils. Samfélagsmiðlar eru alls ekki bara slæmur vettvangur fyrir ungmenni og aðra einstaklinga. Samfélagsmiðlar geta haft jákvæð áhrif á samskipti við vini og ættingja, félagslegan stuðning og vettvangur þar sem hægt er að tjá skoðanir sínar. En því miður hafa samfélagsmiðlar líka neikvæðar afleiðingar á andlega líðan ungmenna. Sum ungmenni upplifa einangrun, kvíða og neteinelti.

En hvað getum við sem foreldrar, uppalendur og virkir þátttakendur í lífi ungmenna gert? Samfélagsmiðlar eru komnir til að vera og það þarf að aðlagast því. Mikilvægt er að ræða við börn og ungmenni um hvernig sé hægt að nota samfélagsmiðla á jákvæðan hátt. Það skiptir líka miklu máli að þau geri sér grein fyrir því að allt sem fer inn á þessa miðla eru þau búin að missa úr höndunum og er ekki eign þeirra lengur. Foreldrar þurfa að gera grein fyrir þeim hættum og neikvæðu afleiðingum sem samfélagsmiðlar hafa í för með sér og kenna ungmennum að bera virðingu fyrir öllum. Þó svo að manneskjan sjái þig ekki geta orð sært og haft alvarlegar afleiðingar fyrir báða aðila ef neteinelti á sér stað.

Foreldrar og aðrir uppalendur þurfa að vera vakandi, vera fyrirmyndir og upplýstir um líðan barna og unglinga. Mikilvægt er að þeir viti hvað ungmennin þeirra eru að skoða á netinu, hvaða forrit og leiki þau eru að nota og hverja þau eiga í samskiptum við. Ef tekið er eftir kvíðaeinkennum í sambandi við samfélagsmiðla og netnotkun eru mikilvægt að taka á því strax. Með því að taka strax á kvíðaeinkennum og hjálpa börnum og unglingum að takast á við hræðslu og ótta er hægt að koma í veg fyrir að kvíðinn verði alvarlegri og hafi heftandi áhrif á líf þeirra.  Börn og ungmenni sem nota samfélagsmiðla og netið þurfa að læra hvernig hægt er  að nota þessa miðla á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þau þurfa að læra að bera virðingu fyrir hvert öðru, að orð og gjörðir geta sært og haft gríðarlegar afleiðingar.

Verum fyrirmyndir og sýnum ungmennum okkar gott fordæmi um hegðun á samfélagsmiðlum og netinu.

Dóra Eggertsdóttir

Bætt samskipti – Betri heimur

Sigrún Vatnsdal Bjarnadóttir

„Það er miðvikudagskvöld og ég er að labba heim úr félagsmiðstöðinni. Palli og Gummi eru á rúntinum. Þeir stoppa bílinn og bjóða mér far. Ég á ekki langt labb eftir heim, en það er rigning úti svo ég þigg farið. Ég sest aftur í. Gummi kemur strax í aftursætið og segir „Ég ætla að ríða þér!“ Þeir rúnta fáfarinn veg á meðan Gummi gerir akkúrat það, og skila mér svo á sama stað og þeir pikkuðu mig upp. Ég geng heim. Segi engum frá. Ég er 15 ára stúlka.“

 „Það er miðvikudagskvöld og ég er að labba heim úr félagsmiðstöðinni. Fimm strákar elta mig uppi og ráðast á mig. Þeir berja mig og sparka í mig. Kalla mig öllum illum nöfnum. Hlæja. Taka það upp á símana sína og senda á vini sína. Fara svo þegar þeir hafa fengið nóg. Ég geng heim. Segi engum frá. Ég er 15 ára strákur.“ Lesa meira “Bætt samskipti – Betri heimur”

Hver á að taka „spjallið“? Hugleiðingar til foreldra unglinga

Helga Vala Gunnarsdóttir

Þegar börn komast á unglingsárin þarf að huga að ýmsu. Unglingar finna fyrir miklum breytingum á líkama sínum, hugsunum og líðan. Þau verða sjálfstæðari, leita meira til vina og spegla sig og umhverfi sitt við jafningjahópinn.

Uppeldi er viðkvæmt og vandasamt. Ýmsar áhyggjur blossa upp þegar kemur að unglingsárum og foreldrar spyrja sig jafnvel hvernig mun þessi einstaklingur spjara sig í hinum stóra heimi, mun hann taka „réttar“ ákvarðanir og á ég sem foreldri að leiðbeina honum í einu og öllu eða leyfa honum að læra af mistökum? Lesa meira “Hver á að taka „spjallið“? Hugleiðingar til foreldra unglinga”

Að viðhalda gæðum í starfi – Skiptir máli hvaðan peningarnir koma?

Ég átti áhugavert spjall við vinkonu mína sem kemur frá öðru landi en ég. Við eigum það sameiginlegt að vinna bæði með ungu fólki í frítímaþjónustu. Spjallið snéri að fjárveitingu til æskulýðsstarfs. Ekki hætta að lesa, þetta verður áhugavert þrátt fyrir þetta há pólitíska orð; fjárveiting.

Það er nefnilega þannig þar sem hún hafði starfað í sínu heimalandi, að þar var nánast ekkert æskulýðsstarf (e. Youth work) rekið með fjármunum frá sveitarfélögum eða ríkissjóði. Til þess að halda úti starfi þar þurfa samtök og stofnanir sem halda úti æskulýðsstarfi, að sækja um styrki frá öðrum stofnunum, sjóðum eða fyrirtækjum. Ef að þú kæri lesandi hefur nokkur tímann unnið styrkumsókn, veist þú að þar þarf ýmislegt að koma fram.

Gjarnan þarf að gera skilmerkilega grein fyrir þeim markmiðum sem þitt verkefni hefur að leiðarljósi. Í stuttu máli mætti segja, að þú þurfir að útskýra hvers vegna í ósköpunum styrkveitandinn eigi að treysta þér fyrir því að nýta fjármunina vel, þannig að þeir skili einhverju til samfélagsins. Í hennar heimalandi þurfa stofnanir og samtök að gera skýrar útlínur af sínu starfi áður en þau fá fjármagn. Þegar tímabilinu er síðan lokið þarf gjarnan að fylgja einhver skýrsla um það hvernig til tókst.

Þetta þótti henni þó síðra kerfi en það sem við vinnum eftir hér á landi, því er ég sammála. Ókostirnir við þetta fyrirkomulag eru kannski helst að þarna er ekki verið að tryggja öllum jafnt aðgengi að góðu æskulýðsstarfi, sem mér þykir mikilvægt að allir hafi. Þó situr eftir þetta með leiðarljósið. Þarna þurfa leiðtogar í æskulýðsstarfi sífellt að líta innávið og spyrja sig; fyrir hvað stöndum við? Af hverju ætti okkar æskulýðsstarf að fá þennan styrk? Þarna sýnist mér vera ákveðinn hvati fyrir því að viðhalda gæðum í starfi. Hvati sem er kannski ekki jafn skýr þegar það er nánast sjálfgefið að starfið sem þú heldur úti, verði ennþá til á næsta ári.

Ekki misskilja mig, ég er alls ekki að kasta skugga yfir það starf sem fer fram í tómstunda- og félagsmiðstöðvum á Íslandi. Ég veit að þar starfar fagfólk sem hugsar um gæði starfsins. Ég veit að í mörgum bæjarfélögum þarf reglulega að gera gæðamat á starfinu. En þú skilur kannski hvað ég er að benda á?

Vikum seinna fór ég í starfskynningu hjá velferðasviði sveitarfélags á Höfuðborgarsvæðinu. Það vakti margt áhuga minn við þeirra starf, sérstaklega að þar geta foreldrar valið hvaða skóla sveitarfélagsins sem er fyrir barnið sitt. Eins hefur þetta í mínum huga svipuð áhrif á þeirra starf, þarna þurfa þessar stofnanir sífellt að líta innávið og spyrja sig; hvers vegna ætti foreldri að vilja eiga barn í skólanum okkar? Hvers vegna ættu börn að velja að vera í því umhverfi sem við erum að búa til hér?

Ég hugsa í það minnsta að mér væri hollt sem leiðbeinandi, að horfa oftar innávið og velta þessu fyrir mér. Hvað ætla ég að standa fyrir? Er það alltaf það sama? Þarf ég að aðlaga mig að því sem er í gagni núna? Hvernig ætli sé hægt að gera þessa ígrundun að föstum hluta í öllu starfi, án þess þó að tilvera starfsins hangi á bláþræði, eins og í heimalandi vinkonu minnar?

Bergþór Bjarki Guðmundsson

Sjálfsmynd unglingsstúlkna

Sjálfsmynd unglingsstúlkna er málefni sem hefur verið mér mjög ofarlega í huga. Þetta er nú ekkert nýtt málefni, en í dag eru samfélagsmiðlar farnir að hafa gífurleg áhrif á þessar ungu stúlkur sem eru enn að þroskast og móta sjálfsmynd sína fyrir komandi framtíð. Ég tala nú ekki um alla þessa óheilbrigðu sjálfsdýrkun og að stelpur í dag setja varla inn mynd á miðla sína án þess að breyta henni allsvakalega, minnka þetta, stækka hitt og nánast búa til einhverja manneskju sem er ekki til, gefa henni nýtt útlit. Ég er á því að ansi margar af þessum snapchat, instagram eða samfélagsmiðla stjörnum séu alls ekki góðar fyrirmyndir og sérstaklega hvað varðar útlit.

En er það eitthvað sem við getum gert í ? Getum við bannað þessum markhópi að fylgjast með þessum samfélagsmiðlum og ekki leyft þeim að fylgjast með fjölmiðlum og tískublöðum sem nánast sérhæfa sig í að segja hvernig við eigum að vera og hvernig við eigum ekki að vera? Það finnst mér ansi ólíkleg lausn á þessu vandamáli. Mér finnst sorglegt hvað þetta hefur mikil áhrif á alltof margar stúlkur, hvað þetta er farið að vera alltof algengt vandamál í samfélaginu okkar. Megum við ekki bara vera eins og við erum, þurfum við alltaf að vera að reyna að vera eins og einhver annar?

Auðvita er þetta vissulega erfiður aldur og er mjög mikilvægt á þessum árum að maður falli inn í hópinn og sé ekki öðruvísi. Stelpur hafa því mikið fyrir því að reyna að vera eins og þær vinsælu og einnig farnar að líta alltof mikið upp til samfélagsmiðlastjarnanna. Útlit virðist vera unglingum mjög svo ofarlega í huga og því er mikilvægt að fylgja þeim normum.

Sjálf hef ég oft orðið vitni af óöryggi meðal unglinngsstúlkna sem eru að setja út á hitt og þetta hjá sjálfri sér og óska þess að þær væru öðruvísi en þær eru. Alltaf að bera sig saman við einhverja aðra og halda að þeim líði betur ef þær væru öðruvísi. Oft vildi ég að ég gæti haft áhrif á þessar ungu stúlkur á unglingsárum og auðvitað reyni ég mitt allra besta til að láta þeim líða vel í eigin skinni og vera bara eins og þær eru. Því jú öll erum við einstök eins og við erum. Þetta er eflaust eitthvað sem flestar stelpur muna eftir á unglingsárunum að hafa upplifað og sett út á sjálfa sig útaf þessum miklu kröfum gagnvart útliti og eflaust margar óskað þess að hafa verið grennri, haft stærri brjóst, stærri rass, minni læri svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknir hafa sýnt að samskiptamiðlar séu að hafa verulega slæm áhrif á unglingsstúlkur og séu að ýta undir bæði kvíða og þunglyndiseinkenni. Einnig er öll þessi símanotkun, þar með talin samskiptamiðlanotkun, farin að hafa verulega slæm áhrif á svefn unglinga, þar sem allt of margir eru gjörsamlega orðnir háðir símunum sínum og geta varla lagt þá frá sér allan sólahringinn. Þetta helst því miður alltof mikið í hendur, símarnir og óöryggi og vanlíðan hjá ungum stúlkum.

Berglind Dana Maríasdóttir