Skilgreining á hugtökum á vettvangi frítímans

Þegar sessunautur minn á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir rakst á setningu sem stuðaði hann úr nýsamþykktri stefnu í æskulýðsmálum fyrir árin 2014-2018 spruttu fram líflegar umræður um hugtök og hugtakarugling á vettvangi frítímans. Setningin er svohljóðandi:

„Stuðla að jafnvægi milli þátttöku í æskulýðsstarfi, öðru frístundastarfi, fjölskyldulífi og námi.”

(Menntamálaráðuneytið, 2014)

Umræðan sem fór af stað snéri s.s. að því hver væri munurinn á æskulýðsstarfi og öðru frístundastarfi. Allir sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um að frístundastarf og tómstundastarf væri sama hugtakið og að æskulýðsstarf myndi svo flokkast þar undir. Ég viðurkenni að ég var sjálfur ansi hvumpinn yfir þessum hugtakaruglingi en þegar ég les þetta nú aftur er ég hjartanlega sammála þessari setningu.

Ungmenni getur tekið þátt í æskulýðsstarfi, námi, fjölskyldulífi og öðru frístundastarfi sem gæti t.d. verið málfundarfélag með fullorðnum einstaklingum. Það myndi flokkast undir frístundastarf en ekki æskulýðsstarf. En þessar endalausu umræður kalla alltaf eftir því að tekið verði á skarið og hugtök skilgreind.

Nú stendur yfir mikil vinna og er það gott og vel en ég vil leggja mitt á vogaskálarnar og koma með skilgreiningar á þessum helstu hugtökum. Ég vona að sem flestir verði ósammála mér og blandi sér í umræðuna með sínar uppástungur. Svona stilli ég upp hugtökum og uppröðun á þeim. Ég leitast svo við að skilgreina hugtökin fyrir neðan myndina.

Skilgreining á vettvangi frítímans

Skilgreiningar á helstu hugtökum

Frítími (e. free time)

Frítími er allur sá tími sem við höfum til aflögu og ráðum hvernig við ráðstöfum. Með öðrum orðum tími sem við erum ekki bundin verkefnum, starfi, skyldum eða þörfum. Við getum bæði nýtt þennan tíma til góðra hluta og slæmra.

Tómstundir / frístundir (e. leisure)

Engin eðlismunur er á hugtakinu tómstundir og frístundir. Það er hægt að rökræða þetta lengi en þetta er svipað og fólk sem eyðir tíma sínum í að rökræða hvort maður segir „gat” eða „eyða” þegar frí er milli kennslustunda í stundatöflu. Tóm stund eða frí stund er sami hluturinn og smekksatriði hvað fólki finnst fallegra. Það er bara gott og blessað.

„Í grundvallaratriðum má segja að tómstundir eigi sér stað í frítíma. Tómstundir eru því athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum og flokkast sem tómstundir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur á að um tómstundir sé að ræða. Að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif. Kjarni tómstunda má segja að felist í vellíðan og aukningu á lífsgæðum.

Í þessari skilgreiningu er gerður skýr greinarmunur á frítíma og tómstundum. Tómstundir eiga sér yfirleitt stað í frítíma en ekki allur frítími er tómstundir. Afstaða er því tekin gegn þeim sem líta á glæpi og ýmsa niðurbrjótandi hegðun sem tómstundir en með þeim sem líta svo á að tómstundir séu jákvæðar og uppbyggjandi. “

(Vanda Sigurgeirsdóttir, 2010)

Undir tómstundastarf koma svo ýmsir undirflokkar sem skilgreinast einna helst af markhópnum sem starfið snýr að. Dæmi um tómstundastarf er því félög og klúbbar fyrir fullorðna eða blandaða aldurshópa og félagsstarf aldraðra. Æskulýðsstarf flokkast einnig undir tómstundastarf.

Æskulýðsstarf (e. youth work)

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er æskulýðsstarf skilgreint sem:

„Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára.”

Undir æskulýðsstarf flokkast þá:

  • Frístundaheimili
  • Félagsmiðstöðvar
  • Ungmennahús
  • Starf frjálsra félagasamtaka sem snýr að ungu fólki og uppfyllir skilgreininguna hér að ofan
  • Sjálfstætt starf og félög ungs fólks sem uppfylla skilgreininguna hér að ofan

Allir sem starfa sem sjálfboðaliðar eða launaðir starfsmenn við æskulýðsstarf eru kallaðir æskulýðsstarfsmenn (e. Youth worker). Þetta á jafnt við um sjálfboðaliða og starfsmenn sem frá greitt fyrir vinnu sína enda eru hlutverk og markmið þau sömu. Stundum hef ég heyrt að það vefjist fyrir fólki þetta orð „starfsmaður” ef ekki eru greidd laun fyrir. Fyrir þá sem hugsa svoleiðis vil ég vekja athygli á yfirheitinu „æskulýðsstarf” sem gefur til kynna að visst starf sé unnið burt séð frá því hvort greitt sé fyrir vinnuna eða ekki. Einnig er gott að skoða orðræðuna okkar um „að starfa”, t.d. Sigurður hefur gengt ýmsum störfum fyrir samtökin, Sigurður hefur verið virkur í starfinu í mörg ár, Sigurður hefur unnið gott starf fyrir félagið. Við hikum ekki við að tala um störf og starf sem einstaklingar vinna í sjálfboðavinnu og því ekkert að því að kalla þá starfsmenn.

Lokaorð

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta er ekki sú hugtakanotkun sem allir hafa notað alltaf. EN ég tel að þetta séu skýr hugtök og að ef við sem þjóð, starfsvettvangur eða hvað það er sem sameinar okkur, ákveðum að notast við skýr hugtök næstu árin munu allir geta sammælst um merkingu þeirra.

Ég meina gaffall heitir ekki gaffall nema út af því að við ákváðum að kalla hann gaffal!

Heimildir

Menntamálaráðuneytið. (2014). Stefnumótun í æskulýðsmálum 2014-2018. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010, 31. desember). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Sótt 16. janúar 2013 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf.

Æskulýðslög nr. 70/2007.

Tómstundamenntum þjóðina!

Innsend grein frá Agnari Júlíussyni tómstunda- og félagsmálafræðingi


Eitt sinn þegar ég var að gramsa á internetinu vegna verkefnis sem ég þurfti að skila af mér í háskólanáminu rakst ég á frétt í Viðskiptablaðinu frá 1. janúar 2010 sem nefndist “Kostnaður vegna öldrunar hleðst upp” og byggði hún meðal annars á grein sem finna má á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þar kemur meðal annars fram að fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri kemur til með að tvöfaldast á næstu fjórum áratugum í hlutfalli við fólk á vinnumarkaðsaldri ef við getum kallað það svo, það er að segja í Evrópu. Vegna þessa munu útgjöld vegna heilbrigðis- og lífeyrismála stóraukast og Framkvæmdastjórn ESB áætlar að þau muni aukast að jafnaði um 3.4% af landsframleiðslu á ári, 2.3% vegna lífeyris og 1.1% vegna heilbrigðis og umönnunar aldraðra.

Verg landsframleiðsla á Íslandi í krónum talið var 1.537.106.000.000 (rúmlega 1.537 milljarðar ISK). Ef við tökum lífeyrinn út og reiknum bara með heilbrigðismálum og umönnun aldraðra þá gæti kostnaðurinn verið um það bil 1.7 milljarður ISK sem hann hækkar ár frá ári. Heildarútgjöld til þjónustu vegna aldraðra í árslok 2010 var 7.209.000.000 kr (rúmlega 7 milljarðar ISK).

Í framhaldinu af þessu fór ég á vef Hagstofu Íslands og kannaði fjölda aldraðra á Íslandi. Í ársbyrjun 2010 voru íslendingar 65 ára og eldri 38.069 manns, þar af voru 3.079 manns sem þurftu að leita til hjúkrunar- og dvalarheimila eða á öldrunar- og hjúkrunarlækningarými sjúkrahúsanna. Hlutfall þeirra af heildarfjölda einstaklinga yfir 65 ára aldri er því 8%.

Ef við gefum okkur að þetta hlutfall muni haldast óbreytt (8%) og heimfærum það upp á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, þá má áætla að fjöldi þeirra sem þurfa að leita til öldrunar- og hjúkrunarlækningarýma og dvalarheimila verði hátt í 8.000 manns árið 2060, miðað við að fjöldi íslendinga 65 ára og eldri verða 110.964.

Hafi menn haft ærna ástæðu til þess að kvarta undan ICESAVE-reikningnum á sínum tíma, þá er komin hér nægjanleg góð ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af framtíð hagkerfis Íslands.

En hvað er ég að tuða, tómstunda- og félagsmálafræðingurinn um hagtölur og hagkerfi Íslands?

Ástæðan er einfaldlega sú að með þátttöku í heilbrigðum skipulögðum tómstundum viðheldur maður félagslegri færni, viðheldur andlegu og líkamlegu heilbrigði og þar með er kannski hægt að minnka líkurnar á því að maður þurfi á dýrri þjónustu að halda þegar á efri árin er komið.

Grískir heimspekingar forðum bentu á að ef það væri vinnan sem göfgaði manninn, þá væru það tómstundirnar sem mótuðu hann. Það er, hvernig einstaklingurinn nýtir frítíma sinn, getur haft gríðarleg áhrif á hvernig hann mótast sem samfélagsþegn. Lausnin er því að tómstundamennta þjóðina með því markmiði að auka ánægju hvers og eins einstaklings í frítíma sínum.

Með hugtakinu tómstundamenntun er átt við ferli sem á að leiða til þess að einstaklingurinn nái að hámarka ánægju sína í tómstundum sínum. Það er að segja renna styrkari stoðum undir einstaklinginn þannig að hann geti valið sér tómstund við hæfi og þroskast á þann veg að útkoman verði öllu samfélaginu til góða á endanum. Tómstundamenntun ætti að koma í námsskrá grunnskólanna. Í gegnum tómstundamenntun má t.d. auka trúna á sjálfan sig og eigin getu, sem gerir manni jafnvel kleift að standast ýmsar freistingar sem eru í boði í samfélaginu í dag og ógna jafnvel velferð þess.

Tómstundamenntun getur líka nýst við starfslok síðar á ævinni þegar maður stendur frammi fyrir þeim tímamótum að hafa allt í einu nægan tíma til þess að gera allt sem mann langar til að gera en hefur ekki hugmynd um hvað mann langar til eða hvað er í boði. Tómstunda- og félagsmálafræðingar á Íslandi telja nú vel fyrir hundraðið. Er ekki kominn tími á að nýta sér þeirra sérþekkingu?

Fjölbreytileiki mikilvægur í tómstundastarfi fyrir aldraða

Aldraðir og tómstundirfélagsstarf á Hrafnistu
Í dag eru rúmlega 37.000 einstaklingar á Íslandi sem eru 67 ára og eldri og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er talið að þeir verði um 52.000 eftir aðeins 10 ár. Þetta merkir hraða fjölgun hjá þeim sem standa frammi fyrir starfslokum og þar með ákveðnum tímamótum í lífinu. Margir hverjir finna sér ný hlutverk, tómstundir eða fara að eyða meiri tíma í þau verk sem þau voru vön að stunda samhliða vinnu, s.s. að sinna viðhaldi á eigin húsnæði, garðyrkju, eyða meiri tíma með barnabörnunum svo eitthvað sé nefnt. Með tómstund er átt við allt það sem hinn aldraði tekur sér fyrir hendur sér til dægrastyttingar og veitir honum ánægju. Margir aldraðir eru einnig farnir að hugsa meira um eigin heilsu og eru virkir þátttakendur í ýmsum íþróttum og hreyfingu þrátt fyrir hækkandi aldur. Má þar t.d. nefna gönguhópa, golf og aðrar boltaíþróttir, fimleika, sund, dans og ýmsa þjálfunarhópa á vegum líkamsræktarstöðva ætlaða öldruðum. Svo eru það þeir sem leggja mikinn metnað í að sækja sér nýja þekkingu, njóta þess að vera skapandi og hafa þörf fyrir að gefa af sér eins og t.d. í sjálfboðavinnu á fyrrum vinnustað, hjá Rauða krossinum eða innan félagsmiðstöðva eldri borgara. Þeir sækja námskeið innan menntakerfisins, tölvunámskeið og fjölbreytt handverksnámskeið s.s. myndlist, leir-, gler-, trévinnslu eða annað sem vekur áhuga þeirra. Þróunin síðustu ár og áratugi hefur sýnt að aldraðir eru virkari þátttakendur í samfélaginu eftir starfslok. Ástæða þessa er hækkandi lífaldur beggja kynja ásamt bættri heilsu vegna þróunar innan læknavísindanna og aukinni áherslu á heilsusamlegan lífstíl og vellíðan.

Heilsa, búsetuform og hjúskaparstaða

Rannsóknir sýna að heilsufar, búsetuform og hjúskaparstaða hafa mikil áhrif á hversu virkur þátttakandi hinn aldraði er innan og utan heimilisins. Góð heilsa og vellíðan er grunnurinn að lífsgæðum einstaklinga. Veikindi, sjúkdómar og skert hreyfigeta hafa áhrif á þau tækifæri sem einstaklingnum býðst til að vera virkur ásamt búsetuformi. Aðgengi innan og utan heimilis og fjarlægð í mikilvæga þjónustu, s.s. verslanir, apótek, heilsugæslu og félagsmiðstöðvar skipta einnig miklu. Hjúskaparstaðan getur líka haft áhrif á hversu mikinn þátt einstaklingurinn tekur í félagslegum afþreyingum utan heimilis. Sýnt hefur verið fram á að giftir eldri borgarar, sér í lagi karlmenn, taka síður þátt í félagsstarfi utan heimilis en það getur einnig átt við um eldri karlmenn sem eru ógiftir eða ekklar. Eldri konur virðast vera öflugri í að sækja í félagsskap utan heimilisins og tómstundir þótt engar staðfestar tölur liggi fyrir um það. Flest okkar eigum við það sameiginlegt að hafa þörf fyrir tilgang í lífinu. Það að hafa ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana, líka þegar við erum komin á efri ár.

Félagsstarf, bæði skipulagt og óskipulagt

Mikil vitundavakning hefur átt sér stað um málefni aldraðra síðustu áratugi og hafa sveitarfélög víðs vegar um landið komið til móts við þarfir eldri borgara um félagsstarf og tómstundir. Mörg þeirra bjóða uppá fjölbreytt starf í þjónustumiðstöðvum fyrir aldraða, í félagsheimilum eða innan stofnana fyrir eldri borgara. Þjónustan er mismikil yfir árið eftir landshlutum og ekki ólíklegt að fjöldi þeirra sem nýti sér hana hafi áhrif á það. Þeir sem ekki geta sótt félagsstarf af sjálfsdáðum, búa enn heima og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur hafa rétt á að sækja um sérstakt þjónustuúrræði sem ýmist kallast dagvistun eða dagþjálfun en sú þjónusta hefur það markmið að bjóða hinum aldraða uppá fjölbreytta þjónustu í formi hreyfingar, félagsstarfs og tómstunda með meira utan um haldi og sumum tilfellum aðgengi að þjálfun. Þá mætir hinn aldraði að morgni til og fer svo aftur heim samdægurs um miðjan daginn, oftast með aðstoð akstursþjónustu en hægt er að sækja um þá þjónustu hjá því sveitarfélagi sem viðkomandi býr í. Þess má einnig geta að margar kirkjur bjóða uppá sérstakt kirkjustarf ætlað eldri borgurum þar sem í boði eru samverustundir, söngur, helgihald, sjálfboðastarf og margt fleira.

Þetta er allt þjónusta sem flokkast undir skipulagða þjónustu en svo má ekki gleyma að nefna allt það óskipulagða félagsstarf sem á sér stað víðs vegar um landið í gegnum félagslegt samneyti af ýmsum toga. Þar sem eldri borgarar hittast í heimahúsum, á kaffi- og veitingahúsum, fara á tónleika, listasöfn, í leikhús, ferðalög innan- og utanlands eða annað slíkt án aðkomu þjónustu fyrir aldraða.

Þökk sé þróun á sviði tækninnar og samskiptabúnaðar, þá hefur hinn aldraði fleiri tækifæri á að vera í góðum samskiptum við ástvini þrátt fyrir búsetu á ólíkum landshlutum eða öðrum löndum og þar með þátttakandi í lífi stórfjölskyldunnar og vina. Rannsóknir hafa leitt í ljós að aldraðir sem nýta sér tæknina til samskipta á veraldarvefnum, t.d. í gegnum Facebook og Skype eru ólíklegri til að upplifa einmanaleika, depurð eða þunglyndi.

Þörf fyrir aðstoð til þátttöku

Hvað svo um þá sem eru einangraðir heima við meirihluta ársins og eru mögulega að kljást við einmanaleika, þunglyndi og hafa lítið fyrir stafni? Þar skiptir þátttaka aðstandenda, vina, nágranna og heimaþjónustunnar megin máli. Það er mjög mikilvægt að þeir hjálpi hinum aldraða með því að kynna fyrir honum þau úrræði sem standa honum til boða í því sveitarfélagi sem hann býr í en mögulega er hinn aldraði sáttur við sínar núverandi aðstæður og hefur ekki áhuga á að breyta þeim. Hafa verður í huga að hinn aldraði gæti upplifað óöryggi gagnvart breytingum sem verða á hans daglegu venjum við það að prófa ný úrræði eins og t.d. að sækja nýja þjónustu í félagsmiðstöð eða dagvistun þar sem hann þekkir engan. Mikilvægt er að veita þessu óöryggi skilning og gefa hinum aldraða tíma til að venjast þeirri tilhugsun að nú muni hann sækja t.d. dagvistun þrjá daga í viku. Fyrir suma er þessi breyting leikur einn um leið og hún á sér stað en fyrir aðra getur aðlögunin tekið lengri tíma og í sumum tilfellum alls ekki tekist.

Skipulagt félags- og tómstundastarf inná dvalar- og hjúkrunarheimilum þarf að vera fjölbreytt

Á dvalar- og hjúkrunarheimilum býr sá hópur aldraðra sem er að kljást við alvarleg veikindi, mikla skerðingu í hreyfigetu eða minnisskerðingar eins og t.d. alzheimer. Það er því mikilvægt að þar sé í boði skipulagt félags- og tómstundastarf fyrir hinn aldraða sem er fjölbreytt og tekur mið af hans núverandi getu. Með fjölbreytileikanum eru meiri líkur á því að hinn aldraði taki frekar þátt í félags- og tómstundastarfinu þar sem honum býðst eitthvað innan síns áhugasviðs. Það er þó ekki nóg að hafa fjölbreytileikann því það er einnig mikilvægt að geta aðlagað afþreyinguna að núverandi getu hins aldraða svo hann geti tekið þátt. Til þess að geta boðið uppá slík gæði í þjónustunni þarf sá sem hana skipuleggur að hafa þekkingu á því hvaða þættir það séu sem hafa hvetjandi og hamlandi áhrif á þátttöku hins aldraða. Það er því mikilvægt að félags- og tómstundastarf sé skipulagt og stjórnað af þeim sem hafa þekkingu til þess til að hámarka tækifæri hins aldraða til þátttöku. Ýmsar fagstéttir innan heilbrigðis- og félagsvísinda hafa einbeitt sér að þjónustu í félags- og tómstundastarfi fyrir aldraða. Iðjuþjálfar hafa þá sérstöðu að hafa þekkingu til að aðlaga iðju að einstaklingnum og nálgast þjónustuna við einstaklinginn með heildrænni sýn en einnig má nefna tómstunda- og félagsmálafræðinga, félagsráðgjafa, þroskaþjálfa, félagsliða og sjúkraliða.

Guðrún starfsmaður á Hrafnistu

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir
Iðjuþjálfi með diplómu í öldrunarþjónustu
Deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu í Hafnarfirði

Skipulagt tómstundastarf gegn brottfalli úr framhaldsskólum

Ég rakst á þetta skemmtilega myndband um daginn og ég hvet ykkur í raun til að skoða myndbandið hér að neðan áður en þið lesið lengra.

Ég tengi sjálfur svo ótrúlega sterkt við þetta myndband og gæti það allt eins verið útbúið eftir minni leið í gegnum skólakerfið. Í grunnskóla var ég alltaf „til vandræða”, ég hafði engan áhuga á náminu og kennurum og starfsfólki skólans tókst engan veginn að kynda undir áhuga mínum á námsefninu. Þegar ég byrjaði í menntaskóla var ég nú lítið upp á kant við kennarana en ég píndi mig í gegnum tímana því innri áhuginn var enginn. Ég prófaði nokkra skóla, nokkrar námsbrautir en allt kom fyrir ekki og var ég farinn að halda að mér mundi aldrei takast að ljúka við nokkurt nám.

Það var svo fyrir tilviljun að ég byrjaði að starfa í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi í metnaðarfullu æskulýðsstarfi að ég fann eitthvað sem kveikti innri áhuga hjá mér. Mig langaði til að verða besti starfsmaður í félagsmiðstöð sem ég gæti orðið og fór ég að fylgjast með öllu sem reyndara starfsfólkið gerði. Ég fór að stúdera mannleg samskipti út í hið óendanlega og lesa bækur um æskulýðsstarf. Þetta varð til þess að ég sótti um í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og lýk ég námi mínu þar núna 22. júní með fyrstu einkunn.

Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt þessa sögu enda tengja svo margir við hana. Það er nefnilega alveg magnað hvað menningin hér á landi er sú að allir eiga að keyra í gegnum skólakerfið án þess að vita hvert þeir stefna. Klára bóklegt nám fyrst og finna svo útúr því hvað maður vill gera við líf sitt. Þrátt fyrir að kennarar og þeir sem standa að skólakerfinu viti að kerfið er að mörgu leiti úrelt þá virðist samt sem lítið breytist. Þessi vanhæfni skólanna til að mæta þörfum nemenda sinna hefur orðið til þess að aðeins 45% nemenda í framhaldsskóla ljúka stúdentsprófi á 4 árum (Hagstofa Íslands, 2011).

Munurinn á „lélegum” nemendum og „góðum” er oftar en ekki skortur á innri hvatningu.Hér kemur skipulagt tómstundastarf sterkt inn. Ég er ekki að halda því fram að allir sem hætta í framhaldsskóla eiga að byrja að vinna í félagsmiðstöðvum (þó það væri nú ekki svo vitlaust). Það sem við þurfum hins vegar að gera er að mæta aldurshópnum 16-20 ára með skipulögðu tómstundastarfi og með stað í samfélaginu þar sem þau eru velkomin, geta prófað sig áfram og fundið sinn innri hvata. Ungmennahús eru frábær dæmi um skipulagt tómstundastarf fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Í vel starfandi ungmennahúsi hafa ungmenni samkomustað, tækifæri til að taka þátt í spennandi verkefnum og að læra nýja hluti. Þau geta sjálf haft frumkvæði af verkefnum og valið þau út frá eigin áhugasviði. Það er einmitt við slíkar aðstæður þar sem einstaklingurinn fær að sýna sjálfstæði, tilheyra hópi og auka hæfni sína að innri hvati kviknar (Reeve, 2009). Ungmennið sem sá um bókhaldið á styrktartónleikunum finnur tilganginn með stærðfræðinni á meðan tæknimaðurinn fer í rafvirkjann, ungmennið sem tók þátt í norræna ungmennaskiptaverkefninu velur sér aukaáfangann í dönsku því hann veit hvað erlend tungumál eru mikilvæg og ungmennið sem gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum sperrir eyrun í félagsfræðinni og sálfræðinni með þá von að geta einn daginn hjálpað bágt stöddum einstaklingum í framtíðinni.

 

Heimildir:

Hagstofa Íslands. (2011, 3. maí). Brautskráningarhlutfall og brottfall á framhaldsskólastigi. Sótt 9. júní 2013 af http://www.hagstofa.is/?PageID=95&NewsID=5981.

Reeve, J. (2009). Understanding motivation and emotion. Hoboken, NJ: John Wiley & Sons.

Mikilvægi skipulags íþrótta- og frístundastarfs fyrir unga innflytjendur

Kampur_hringur_fjolbreytileikiFrístundamiðstöðin Kampur og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur stóðu fyrir fræðslufundi miðvikudaginn 29. maí þar sem ungir innflytjendur voru í brennidepli. Á fundinum flutti Eva Dögg Guðmundsdóttir, cand.mag í menningar- og innflytjendafræðum og uppeldis- og kennslufræði, erindi um mikilvægi skipulags íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku.

Eva sagði frá helstu rannsóknum sem gerðar hafa verið á íþróttaþátttöku barna og unglinga í Hollandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku og þremur verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar í Danmörku. Einnig sagði Eva Dögg frá helstu niðurstöðum eigin vettvangs-rannsóknar í tengslum við lokaverkefni við Háskólann í Hróarskeldu.

Eva sagði frá stöðu ungra innflytjenda í dönsku samfélagi þar sem rannsóknir sýna að ungt fólk af með annað móðurmál en dönsku skila sér í litlu mæli inn í framhaldsskóla og enn síður í frekara nám. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt sömu þróun og því má horfa til reynslu Dana af því  hvernig hægt er að bregðast við.

Í erindi Evu kom fram að samþætting er það hugtak sem helst hefur verið notað í umfjöllum um aðlögun innflytjenda í samfélagi. Hún vill ítreka mikilvægi þess að slík samþætting þarf að vera gagnvirk til að geta verið innflytjendum og samfélaginu gagnleg, annars vegar í íþróttinni sjálfri sem viðfangsefni en einnig í gegnum íþróttina til að virkja unga innflytjendur og ungt fólk af erlendum uppruna með annað móðurmál en í dvalarlandinu til leiks í samfélaginu. Þar bendir Eva á rannsóknir sem sýna mikilvægi íþróttaþátttöku fyrir margar úr þessum hópum.

Eva vísaði í rannsóknir frá Hollandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku í máli sínu. Í gegnum íþróttirnar virðast ungir innflytjendur geta brotið þann múr sem tungumálið er í skólastarfi og íþróttavöllurinn því kjörinn vettvangur til að æfa daglegt mál. Í íþróttunum eru samskiptin jafnframt á öðrum forsendum og ekki eins háð tungumálinu og samskipti í skólaumhverfinu. Samveran og samskiptin eru á öðrum nótum sem gefa færi á annars konar tengslum og grunn að félagslegum samskiptum. Margir viðmælenda vísa í að hugurinn tæmist og ekkert skipti máli nema það sem er að gerast á vellinum sem verður um leið einhvers konar athvarf þar sem annað er skilið eftir fyrir utan. Þegar góður árangur næst í íþróttum er það jafnframt jákvæð styrking á sjálfsmynd viðkomandi.

Það er þó ekki svo að íþróttaþátttakan sé töfralausn á þeim vanda sem ungir innflytjendur og ungt fólk með annað móðurmál en dönsku glíma stundum við. Í þeim rannsóknum sem Eva fjallaði um kom jafnframt fram að oft væri að heyra ljótan tón á vellinum þar sem fordómar og neikvæð samfélagsumræða virðist stundum skila sér inn í samfélagið á vellinum. Þar eru einnig að finna sterkar staðalmyndir og sjálfsmynd þátttakenda getur boðið hnekki ef geta þeirra er ekki í samræmi við meginþorra iðkenda. Það virðist þó vera svo samkvæmt rannsóknum frá Hollandi að fram að kynþroskaaldri eigi börn af ólíkum menningar- og þjóðernisuppruna auðvelt með samskipti í íþróttum.

Það er niðurstaða Evu að skapa þurfi í íslensku samfélagi aðstæður og betra aðgengi fyrir virka þátttöku ungra innflytjenda á mismunandi sviðum samfélagsins og íþróttir eru þar ein leið.

Erindi Evu varð kveikja að fjörugum umræðum undir lok fundarins sem var ágætlega sóttur. Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að hlúa sérstaklega að þessum hópi í gegnum frítímastarf og þátttöku á þeirra eigin forsendum og skoða þarf þátttöku þeirra, möguleika og þær hindranir sem mæta þeim í íslensku íþrótta- og tómstundastarfi gaumgæfilega.

Áhugasamir geta komist í samband við Evu í gegnum netfangið [email protected]

FFF – Félag fagfólks í frítímaþjónustu

fagfélag

FFF eða Félag fagfólks í frítímaþjónustu starfar á vettvangi frítímans á vegum sveitarfélaga, s.s. í félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum, frístundamiðstöðvum, ungmennahúsum og skrifstofum æskulýðsmála og hefur það markmið að stuðla að aukinni fagmennsku á vettvangnum. Félagið var stofnað árið 2005 af hópi fólks sem allt starfaði við frítímaþjónustu. Markmið félagsins er meðal annars að leggja áherslu á mikilvægi frítímaþjónustu sveitarfélaganna fyrir ungt fólk og efla fagvitund og samheldni fagfólks í frítímaþjónustu með því að skapa félögum vettvang til umræðna og skoðanaskipta. Til að geta gengið í félagið þurfa einstaklingar að hafa lokið háskólanámi í tómstunda- og félagsmálafræðum eða hafa starfað í fimm ár á vettvangi frítímans. Einnig er hægt að sækja um aðild ef einstaklingur sem starfar á vettvangi frítímans hefur lokið háskólanámi á sviði uppeldis- og félagsvísinda. Aukaaðild geta þeir sótt um sem stunda nám á sviði félagsvísinda, uppeldis- og tómstundafræða ef þeir starfa á vettvangi frítímans. Þeir hafa þó einungis áheyrnar-og tillögurétt á aðalfundi og greiða helming félagsgjalds.

Fagfélagið, eins og félagið er jafnan kallað manna á milli, stendur fyrir ýmis konar fundum og fræðslu fyrir fagfólk í frítímaþjónustu. Sem dæmi má nefna Kompás námskeið í lýðræðis- og mannréttindafræðslu sem Fagfélagið hefur staðið fyrir á síðastliðnum mánuðum. Ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu á vettvangi frítímans stuðlar Fagfélagið að miklu samstarfi milli stjórnvalda, starfsfólks á vettvangnum og háskólasamfélagsins. Fagfélagið er því mikilvægur liður í því að dýpka þekkingu og auka fagmennsku starfsfólks ásamt því að standa vörð um hagsmuni vettvangsins.

Á nýafstöðnum aðalfundi félagsins var kosin ný stjórn Fagfélagsins en hana skipa:

Hulda Valdís Valdimarsdóttir – Formaður
Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Helgi Jónsson
Elísabet Pétursdóttir
Bjarki Sigurjónsson

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Varamaður
Nilsína Larsen Einarsdóttir – Varamaður

Við hér á Frítímanum hvetjum alla sem starfa á vettvangi frítímans til að sækja um aðild í Fagfélagið og gerast þannig virkir þátttakendur í að móta og þróa starfsvettvanginn.

Hér er hægt að skrá sig í Fagfélagið.