Fyrirmynd eða áhrifavaldur?

Í þeim heimi sem við lifum í dag er mikið um svo kallaða áhrifavalda í tísku á samfélagsmiðlum. Sem eru oft að mínu mati með mikið af duldum auglýsingum sem eru alls konar gylliboð fyrir fylgjendur sína og allt eru þetta þarfahlutir að þeirra sögn, „þessi hlutur bara breytir lífi mínu“, „ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég ætti þetta ekki“.

Að vera góð fyrirmynd þýðir einfaldlega að koma vel fyrir, láta öðrum líða vel í kringum sig og láta gott af þér leiða. Góð fyrirmynd hefur mikil áhrif á hvað og hvernig við gerum hlutina alla daga. Að vera áhrifavaldur þýðir að vera með auglýsingar á samfélagsmiðlum, gefa alls konar vöru með afsláttarkóða sem þú getur ekki lifað án að þeirra sögn. Svo fá áhrifavaldar greitt fyrir hversu margir nýta kóðan ásamt fastri greiðslu. Mér hefur oft fundist þetta snúast meira um að áhrifavaldurinn er aðeins að auglýsa þessa vöru svo hann fái borgað en ekki vegna þess að honum líkar varan.

Allir samfélagsmiðlar eru með aldurstakmörkin 13 ára. Á þessum aldri eru börnin okkar ennþá verulega ung. Því spyr ég: Þarf ekki meiri eftirfylgni með þessu? Frá þessum aldri og jafnvel fyrr, eru börn byrjuð að fylgjast með áhrifavöldum á öllum mögulegum samfélagsmiðlum. Efnið sem finnst þar inni er jafn mismunandi og fólkið og endalaust af upplýsingum og áreiti sem streymir inn. Er bara í lagi að 13 ára séu að spá í tannhvíttun, varafyllingum, veipum og áfengi?

Já, ég sagði áfengi, sem er með lögum bannað að auglýsa en virðist viðgangast á samfélagsmiðlum. Það er verið með alls konar leiki og því næst er dregin út kassi af bjór. Margir áhrifavaldar eru svo oft blekaðir á miðlum sínum að sýna hversu gaman er að vera undir áhrifum og hvað þeir gera sig að miklum fíflum. Erum við þá að sýna unglingum okkar hvernig á að haga sér eða hvernig á ekki að haga sér?

Að mínu mati þyrfti að herða verulega á auglýsingareglum, hvað má og hvað má ekki auglýsa á samfélagsmiðlum. Það er ekki hollt fyrir neinn, hvað þá unglinga sem eru eins og svampar að sjúga í sig hvað er í tísku og hvað á að kaupa! Þó svo þú eigir ekki nýjasta símann, 150 þúsund króna úlpu eða nýjustu air skóna þá ertu ekkert verri manneskja. Það eru margir unglingar sem eru í 50 til 80 prósenta vinnu með skóla til þess eins að geta fjármagnað neyslu sína. Það hefur sýnt sig að það er ekki mælt með að unglingar vinni mikið með skóla. Það hefur áhrif á heimanám, svefn og oft félagsskap sem er svo mikilvægur á þessum uppvaxtar- og mótunarárum. Með vinnu sjá þau oft peninginn í hyllingum og hætta þá frekar í skóla.

Við fullorðna fólkið eigum að vera fyrirmyndir fyrir unglingana okkar. Við ættum að vera nægjusöm og kenna unglingunum okkar það líka.

Hvort ert þú fyrirmynd eða áhrifavaldur?

Sveinborg Petrína Jensdóttir

 

 

Að elska sjálfan sig

Fyrir mér er það að læra að elska sjálfan sig eins og maður er ótrúlega mikilvægt. Frá því að ég var barn hef ég haft mjög lítið sjálfsöryggi og það var verst á unglingsaldri. Ég var alltof feit, ekki nógu flott, o.fl. Ég sé svo eftir því að hafa ekki bara elskað sjálfa mig eins og ég var í staðin fyrir að rífa mig niður. Ég hefði óskað þess að einhver hefði sýnt mér að hver og einn er sérstakur á sinn hátt og það er engin ein rétt leið þegar kemur að útliti. Ég tel að lykilinn að hamingju sé að læra að elska sjálfan sig fyrst og fremst. Það eru alltof fáir sem elska sjálfan sig eins og þau eru.

Þetta er mikilvæg umræða og sérstaklega fyrir börn og unglinga. Við þurfum að setja góð fordæmi og kenna þeim að elska sjálfan sig eins og þau eru frá unga aldri. Ég hef unnið með börnum og unglingum núna í nokkur ár og mér finnst sorglegt hvað stór hluti af þeim hefur lítið sem ekkert sjálfstraust. Það er skrítið hvernig við leyfum okkur að tala um okkur sjálf, við segjum margt um okkur sjálf sem við myndum aldrei segja við aðra manneskju. Það er alltof mikið af ungu fólki og þá sérstaklega stelpum sem hata hvernig þau líta út og þá í samanburði við það sem er „samfélagslega rétta útlitið“.

Mér finnst samfélagsmiðlarnir vera okkar stærstu óvinir þegar kemur að þessu. Á samfélagsmiðlunum er verið að senda okkur óbein skilaboð hvernig við eigum að vera og hvað við þurfum að gera til að verða samþykkt af samfélaginu. Mér finnst önnur hver auglýsing vera um hvernig maður á að grenna sig og oft á mjög óheilbrigðan hátt. Við þurfum að læra að elska okkur sjálf áður en við elskum aðra og leyfum öðrum að elska okkur. Það tekur tíma að læra að elska sjálfan sig, hlusta ekki á samfélagslegan þrýsting gagnvart útliti en þegar upp er staðið er það þess virði.

Það vantar meiri umræðu og fræðslu fyrir börnin og unglingana. Ef við byrjum nógu snemma að kenna þeim að elska sig sjálf þá verður þetta eitthvað sem við gerum sjálfkrafa. Við eigum að fagna því að við séum fjölbreytt, það væri ekkert gaman ef allir væru eins. Ég átta mig ekki á því af hverju það er stimplað svona fast inní hausinn á okkur að við þurfum að vera grönn, alveg sama hvort það sé gert á heilbrigðan hátt eða ekki. Ef við förum með þetta í öfgar þá myndi ég halda að það væri erfiðara að vinna sig uppúr anorexíu en offitu. Ég veit um nokkrar stelpur sem litu út fyrir að vera í mjög góðu líkamlegu formi en þær voru að svelta sig og hreyfingin var komin í öfgar. Með því að grennast á óheilbrigðan hátt er mjög líklegt að heilsan hrynji og maður verði lengi að ná sér eftir það. Svo lengi sem við erum heilbrigð og borðum hollan og næringarríkan mat þá erum við í góðum málum sama hvernig holdafarið er.

Samfélagsmiðlarnir eru aðeins að breytast og sýna réttu hliðarnar en ekki bara glans hliðarnar. Það eru margir áhrifavaldar farnir að sýna hvað uppstilling skiptir miklu máli þegar myndir eru teknar og þau bera saman uppstillta mynd og svo venjulega mynd og þar sést mikill munur.

Að elska sjáfan sig eru stærstu skref sem fólk getur tekið í lífinu.

Guðbjörg Halldórsdóttir

 

 

Samfélagsmiðlar og snjalltæki að taka yfir?

Að mínu mati eru unglingar í dag minna úti heldur en hér áður fyrr eða eins og ég upplifi það þá eru krakkar og unglingar meira inni að „hanga“ í tölvunni og símanum. Samfélagsmiðlar eru hægt og rólega að taka yfir líf ungra einstaklinga. Sumir segja meira að segja að það sé nú þegar orðið þannig að samfélagsmiðlar hafa tekið yfir lífið hjá mörgum ef ekki flestum unglingum.

En hvað væri þá hægt að gera fyrir þessa unglinga eða hvað geta þau gert er spurning sem margir hafa ef til vill spurt sig. Sú spurning brennur helst á vörum á sumrin þegar unglingavinnan klárast. Vinna sem þau fá í nokkra tíma á dag í aðeins nokkrar vikur af sumrinu. Hvað eiga unglingarnir að gera við allan þann frítíma sem þau þá hafa yfir sumarið?

Hér koma nokkrar lausnir sem gætu hent þér eða ef þú ert foreldi þá gæti eitthvað af eftirfarandi hentað unglingnum þínu.

  1. Útivera. Ég sjálf hef nýtt mér útiveru og náttúruna til þess að minnka samfélagsmiðlanotkun og svokallaðan skjátíma. Útivera hefur virkilega góð áhrif á alla til að ná aðeins að komast í núið og að vera í núinu. Komast út úr þeim ham sem hversdagsleikinn er.
  2. Yndislestur. Lesa bók eða hlusta á bók getur gefið manni svo mikið. Það að setjast bara einn með sjálfum sér með eitt stykki bók og lesa, leyfa sér að gleymda sér í bókinni. Yndislestur er vanmetin tómstund sem ég tel að þurfi að auka meira í nútímanum. Það hefur verið ákveðin aukning á lestri á bókum eða réttara sagt hlustun á bókum með nýjum forritum í snjalltækjum eins og Storytel. Storytel er forrit sem er með allar helstu bækur teknar upp og þú getur hlustað á þær hvar sem er og hvenær sem er.
  3. Ný áhugamál. Sama á hvaða aldri þú ert er alltaf hægt að finna sér ný áhugamál eða taka upp gömul áhugamál og þar má nefna ýmislegt sem ég gæti stungið upp á.
    • Bakstur, eldamennska, þrifaður, líkamsrækt eða hreyfing.
    • Fyrir foreldra væri hægt að skoða hvað væri í boði í nágrenninu og í því bæjarfélagi sem þið búið í.
  1. Sjálfboðastarf. Það er alltaf hægt að skrá sig í sjálfboðastarf og taka þátt í því, hvort sem það sé á vegum Rauða krossins eða skátastarfsins eða jafnvel bara bjóða þig fram til þess að hjálpa til heima svo eitthvað sé nefnt.
  2. Kynnast nýju fólki. Kíktu út og reyndu að kynnast eitthverjum nýjum.
    – Fyrir foreldra. Fáðu þau til að kíkja út og mögulega kíkja í félagsmiðstöðina.
  3. Líttu inn á við. Reyndu á þína innri föndur hæfileika svo sem teikna, mála eða þess háttar og prófaðu þig áfram.
    Fyrir foreldra. Leyfðu þeim að prófa sig áfram og hjálpaðu þeim með því að sýna þeim hvað hægt sé að gera.
  4. Skáldskapur. Prófaðu að taka blað og penna og skrifa sögu, ljóð eða lag. Hver veit nema þú búir yfir þeim hæfileika að geta skrifað gott lag sem gæti mögulega verið það flott að það kæmist í útvarpið einn daginn.
    Fyrir foreldra. Ýttu undir að þau prófi sig áfram og jafnvel sýna þeim hvað hægt er að gera með nýrri tækni.
  5. Fáðu þér gæludýr. Til dæmis hund og farðu í göngutúr með hann, kenndu honum ný trix, sem dæmi að setjast og sækja. Ef þú átt ekki hund farðu þá í göngutúr með nágrannahundinn eða hundinn hjá frænda eða frænku.
    – Fyrir foreldra. Ef keyptur er hundur þarf að kenna unglingum að sjá um hundinn. Virkja unglinginn með í að taka þátt í uppeldi á hundinum.
  6. Vertu meira með fjölskyldunni þinni. Farðu með ömmu þinni í búð eða kíktu í heimsókn til frænku og frænda.
    – Fyrir foreldra. Eyddu meiri tíma með unglingnum þínum, geriði eitthvað saman sem fjölskylda.

Þetta er aðeins brot af því sem hægt væri að gera fyrir unglingana. Með smá hjálp væri hægt að minnka samfélagsmiðlanotkun og fá unglingana til að eyða minni tíma inni í tölvunni.

María Lilja Fossdal

 

 

 

 

Er íslenskan orðin tískuslys?

Við lifum á öld þar sem tækninni fleygir áfram og sífellt fleiri nýjungar koma fram sem allir verða að eignast. Flestir horfa á sjónvarpið, símann eða tölvuna á hverjum degi. Ungmenni nota styttingar á orðum eða ensku slettur sem að eldra fólkið skilur ekki og eldra fólkið notar íslensk orð sem að unga fólkið skilur ekki. Það er undantekningarlaust að maður heyrir í ömmum og öfum eða frænkum og frændum að ungmenni í dag kunni ekki að tala íslensku. Því miður hef ég, manneskja á þrítugs aldri, oft fengið að heyra þessa setningu og það sem meira er „ af hverju talarðu ekki bara íslensku?“ eða „ hvað er íslenska orðið fyrir þetta orð?“. En hvað ef kæri lesandi að ég myndi segja þér að ungmenni sem að tala fallega og flotta íslensku verða fyrir aðkasti að hálfu samnemanda sinna í grunnskólum í dag. Lesa meira “Er íslenskan orðin tískuslys?”

Hver eru þín mörk?

Þetta er spurning sem allir ættu að kunna svar við. Það ætti að vera skylda að kenna börnum og unglingum að þau eiga rétt á því að setja sín eigin mörk og kenna þeim að vera meðvituð um hvar þeirra mörk liggja.

Það hefur margt breyst frá því ég var unglingur hvað varðar þetta málefni og þegar ég horfi til baka sé ég svo margt sem þótti „í lagi“ á þeim tíma sem í dag þykir fara vel yfir öll mörk. Ég er af kynslóðinni sem var barn þegar tölvur voru að koma inn á hvert heimili og almenningur var að fá internettengingu. Kynslóðinni sem notaði Irc-ið og MSN þegar ég var unglingur. Á sama tíma er ég af þeirri kynslóð unglinga sem vissi ekki hvað var í lagi að fá sent og hvað ekki. Lesa meira “Hver eru þín mörk?”

Sjálfsmynd unglinga

Andrea Marie Kristine Jacob

Sjálfsmynd unglinga á unglingsárunum er gríðarlega mikilvæg. Ég tel hana vera grunninn að farsælli framtíð. Hún er í stanslausri þróun í takt við samtíman, aðstæður, umhverfið, félagslíf og tæknivæðingu. Það má segja að mótun sjálfsmyndar stoppar aldrei, heldur er hún ævilangt ferli sem er sífellt í gangi. Fullorðnir einstaklingar eru ennþá í dag að finna út úr því hverjir þeir eru, svo þetta liggur ekki aðeins hjá unglingum en það má segja að hún sé hvað mest í mótun á þessum árum.

Á unglingsárunum velta unglingar því oft fyrir sér hverjir þeir eru, hvað þeim finnst gaman að gera, hvernig þau öðlist betra sjálfstraust og hvað það er sem gerir þá að þeim einstaklingum sem þeir eru. Á þessum árum geta þeir átt við sveiflukenndar tilfinningar sem valda því að sjálfsmyndin er kannski ekki alltaf sú sama. Hún getur flakkað á milli þess að vera góð á einum tímapunkti, en léleg á öðrum og er það fullkomnlega eðlilegt.

Í dag er mikið talað um hvað sjálfsmynd unglinga sé orðin slæm. Rannsóknir hafa sýnt að unglingar greinast í auknum mæli með þunglyndi eða kvíða og að áhrif netvæðingar hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér, hvað varðar sjálfsmynd unglinga. Margir telja ástæðuna fyrir því að sjálfsmynd unglinga sé orðin slæm sé fyrst og fremst vegna aukinnar net- og snjallsímanotkunnar og áhrifa frá samfélagsmiðlum. Ég er að vissu leyti sammála því. Það er ekki auðvelt fyrir unglinga að takast á við alla þessa pressu sem netið hefur uppá að bjóða eða standast þær kröfur sem samfélagsmiðlar gera.

Þegar ég var yngri, var að netið frekar nýtt. MSN, MySpace og Facebook voru líklega aðal samfélagsmiðlarnir sem til voru. Ég man eftir að því þetta hafði aðallega áhrif á okkur unglinga á þann hátt að við þorðum oftast bara að tala í gegnum netið eða vildum passa að vera búin að blogga færslur um daginn okkar svo að allir vissu hvað lífið okkar væri gott. Í dag, eða 14 árum síðar, gæti ég nefnt um þúsundir samfélagsmiðla eða smáforrita sem til eru, og ekki hafa áhrifin minnkað. Unglingar eru að tjá sig um allt sem til er á netinu, það gefur þeim „frelsi“ til þess að tjá sig og vettvang til þess að sýna sig eins og þau vilja að aðrir sjá sig. En af hverju hefur þetta þá svona slæm áhrif á sjálfsmyndun unglinga? Er það kannski vegna þess að tæknin og netvæðingin er í stanslausri þróun og er hún alltaf einu skrefi á undan? Og það verður til þess að við eldri kynslóðin náum kannski ekki að gefa okkur tíma til þess að kenna unglingum að umgangast netið og samfélagsmiðla?

Ég held að unglingar fái bara því miður ekki nógu mikla fræðslu eða kennslu um það hvernig hægt sé að auka sjálfstraust og sjálfsmyndina, eða hvernig best sé að umgangast netið og samfélagsmiðla.

Mér finnst að skólar ættu að leggja meiri áherslu á að hafa námið sem part af lífi og mótun persónuleika unglinga. Að námið leggi jafn mikla áherslu á áfanga eins og stærðfræði eða íslensku og hægt væri að leggja áherslu á lífsleikni þar sem þeim er ekki aðeins kennt að læra betur inná sjálf sig sem einstaklinga, efla sjálfsmyndina eða auka sjálfstraustið heldur einnig að umgangast netið og samfélagsmiðla. Námið þarf að vera skemmtilegt, en námið getur líka verið leiðarvísir fyrir unglinga í gegnum lífið. Við getum kennt þeim á samskipti, á sjálfstraust, hjálpað þeim að komast að því hvar áhugamálin liggja, hluti sem geta ýtt undir betra sjálfstraust og sjálfsmynd svo að unglingar kunni þar af leiðandi að umgangast samfélagsmiðla og vera partur af því án þess að það hafi neikvæð áhrif á sjálfsmyndina þeirra. Þannig er hægt að leiðbeina þeim í að sjá hvað það er sem er þeim mikilvægt og hvað það er sem skiptir máli.

Þar sem að léleg sjálfsmynd á unglingsárunum getur fylgt inn í fullorðinsárin, tel ég að heilbrigð sjálfsmynd og gott sjálftraust, hafi í för með sér jákvæð áhrif á geðheilsu og líðan þeirra. Með þessu nái unglingar frekari tökum á lífinu sem bíður þeirra. Þau geta náð betri tökum á að fást við áskoranir og áhrif daglegs lífs. Þau læra þar með hvernig áhrif netsins og samfélagsmiðla eru og hvernig hægt sé að höndla þau áhrif á jákvæðan hátt. Þau læra að þessi áhrif þurfa ekki að vera neikvæð, heldur fer það eftir því hversu sterkur einstaklingur þú ert sjálfur og hvernig þú bregst við þessum áhrifaþáttum.

Með von um bjarta framtíð!

Andrea Marie Kristine Jacob