Er íslenskan orðin tískuslys?

Við lifum á öld þar sem tækninni fleygir áfram og sífellt fleiri nýjungar koma fram sem allir verða að eignast. Flestir horfa á sjónvarpið, símann eða tölvuna á hverjum degi. Ungmenni nota styttingar á orðum eða ensku slettur sem að eldra fólkið skilur ekki og eldra fólkið notar íslensk orð sem að unga fólkið skilur ekki. Það er undantekningarlaust að maður heyrir í ömmum og öfum eða frænkum og frændum að ungmenni í dag kunni ekki að tala íslensku. Því miður hef ég, manneskja á þrítugs aldri, oft fengið að heyra þessa setningu og það sem meira er „ af hverju talarðu ekki bara íslensku?“ eða „ hvað er íslenska orðið fyrir þetta orð?“. En hvað ef kæri lesandi að ég myndi segja þér að ungmenni sem að tala fallega og flotta íslensku verða fyrir aðkasti að hálfu samnemanda sinna í grunnskólum í dag. Hversu fjarstæð tilhugsun er það? Íslenska er móðurmál Íslendinga, það er einstakt tungumál sem á sér langa tilvist og sögu. Því þykir mér það ótrúlega leiðinlegt að ungmenni í dag verða fyrir aðkasti að þekkja tungumálið sitt og getað talað það fallega.

Því miður er staðreyndin sú að íslenska tungumálið er í stórhættu og ógnað af samfélagsmiðlum og enskunotkun sem á sér stað þar. Rannsókn sem gerð var af fremstu máltæknifræðingum í Evrópu bendir til að minnsta kosti 21 Evrópumál eiga á hættu stafrænan dauða og þar á meðal íslenska. Ekki misskilja mig, ég er ekki að segja að ég sé „íslensku mælandi gyðja“. En það sem mér þykir erfiðast að heyra og í raun kveikja þessarar greinar er að 15 ára systir mín verður fyrir einelti af hálfu samnemenda sinna vegna þess að hún talar móðurmálið sitt vel. Þá hefur hún verið kölluð „Íslendingurinn“, „gamlinginn“ og „forn“. Hún hefur fundið fyrir þeirri pressu „að þurfa“ að tala verri íslensku eða að sletta á ensku til að jafnaldrar skilji hana betur og í staðinn fær hún hrós fyrir að vera eins og hinir. Ég sem kona á þrítugs aldri með lesblindu, talnablindu og háan athyglisbrest dáist að systur minni og er stolt af því ef hún leiðréttir málnotkun mína. Því jú, það gefur mér einhverja von fyrir íslenska málið að það séu til ungmenni þarna úti sem kunna að tala móðurmálið sitt.

Oft er talað um að það sé eðlilegt að tungumál þróist og að það taki því ekki að berjast gegn því. En þó svo að tungumál séu lifandi og breytist þá þýðir það ekki að það megi ekki vernda tungumálið. En hvað er hægt að gera og hvernig er hægt að taka á þessu vandamáli? Það er ekki hægt að kenna ungmennum né  grunnskólum um þessa þróun heldur verðum við sem samfélag að líta í eigin barm. Við, fullorðna fólkið, erum fyrirmyndir og fá ungmenni sína þekkingu frá okkur og því er það þeirra fullorðnu að vita hvernig á að tala rétta íslensku.

Mikil þörf er á vitundarvakningu í samfélaginu og þá ekki síst á meðal fjölmiðla. Fjölmiðlar eru alls staðar í kringum okkur, í sjónvarpinu, símanum, veraldarvefnum og blöðum. Þeir eru fyrirmynd. Fyrir nokkru, þegar að ég skrifa þetta, var Söngvakeppnin haldin og átti ég bágt með að horfa á hana og heyra hvernig kynnar slettu fram enskunni í íslenska ríkissjónvarpinu. Eins og ég hef viðurkennt sjálf að þá sletti ég en þarna átti ég bágt með að horfa fram hjá því.

Því þurfum við öll kæri lesandi að taka ábyrgð og vera vakandi fyrir málnotkun okkar.

Við erum öll fyrirmynd.

Kolbrún Lísa Hálfdánardóttir