Brottfall unglinga í skipulögðum íþróttum

Regluleg hreyfing barna og unglinga er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan. Samfélagið okkar í dag virðist vera að draga úr daglegri hreyfingu og kyrrseta ungmenna orðin algengari en áður. Hreyfing ungmenna getur dregið úr andlegum og líkamlegu sjúkdómum, svo sem kvíða og þunglyndi. Einnig eru ungmenni sem stunda íþróttir að sýna fram á betri sjálfsmynd og eru mun ólíklegri til að neyta vímuefna. Lesa meira “Brottfall unglinga í skipulögðum íþróttum”

Unglingadrykkja og reykingar

Ég hef mikið verið að pæla í því hvort að unglingadrykkja hafi minnkað síðastliðin ár. Mér fannst meira um þetta hér þegar ég var yngri og fann mikið fyrir því að fólk hafi byrjað að drekka mjög ungt. Þegar ég var að stíga mín skref inn í unglingsárin þá voru margir byrjaðir að drekka og þá þótti frekar hallærislegt að drekka ekki áfengi og finnst mér það vera öfugt í dag. Ég hef verið minna vör við unglingadrykkju nú til dags. Ég á bróðir sem er í 10. bekk og eru mjög fáir í kringum hann sem eru byrjaðir að drekka. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað hefur áhrif á að unglingar byrji að drekka seinna í dag en hér áður. Held ég að íþróttir spili þar stóran þátt því mér finnst meira um að unglingar vilji ná betri árangri í tómstundum sínum. Lesa meira “Unglingadrykkja og reykingar”

„Ég ætla að rústa þér“ – týpan

Ég sakna týpunnar sem er sjúklega góð í sinni íþrótt, mætir í skólaíþróttir og félagsmiðstöðina til þess að sýna öllum hver skarar fram úr og hver sé að fara að vinna þessa keppni. Týpan með það mikið keppnisskap að hana langar að ná á toppinn í öllu, sérstaklega ef um keppni er að ræða. Því miður held ég að þessi týpa sé í mikilli útrýmingarhættu, sem er áhyggjuefni, því í þessari týpu bjó oft sterkur leiðtogi sem ótrúlega margir litu upp til. Þarna var frábært tækifæri fyrir vel þjálfaðan félagsmiðstöðvastarfsmann að móta jákvæðan og öflugan leiðtoga, leiðtoga sem hafði sigurhugarfar og drifkraft fyrir og hægt var að kenna að bera virðingu fyrir þeim sem ekki voru jafn sterkir á sömu grundvöllum. Þetta var leiðtogi sem, ef kennt, var að draga það besta fram í þeim í kringum sig og bera kennsl á styrkleika í fari jafningja sinna í stað veikleika og efla þá. Þetta er einstaklingur sem býr yfir því besta úr bæði íþrótta- og tómstundaheiminum. Lesa meira “„Ég ætla að rústa þér“ – týpan”

Hafa íþróttir góð áhrif á líðan unglinga?

Unglingsárin eru mikilvægur tími í lífi hvers einstaklings og á þeim tíma skiptir máli fyrir félagsstöðu viðkomandi að tilheyra hópi. Á þessum árum er mikið að gerast hjá hverjum og einum bæði hvað varðar líkamlegan þroska og andlegan og því er gott að umgangast fólk sem hefur góð áhrif á líðan og þar sem einstaklingur getur verið hann sjálfur.

Mikil vitundavakning hefur orðið í samfélaginu hvað varðar heilbrigðan lífsstíl og er meirihluti unglinga í dag sem taka þátt í íþróttastarfi og/eða tómstundum af einhverju tagi. Unglingar eru orðnir mun upplýstari en áður um það hvað heilbrigður lífsstíll felur í sér en það er ekki einungis hreyfingin sem skiptir máli heldur einnig hollt og gott mataræði. Aðgengi að efni tengdu heilbrigðum matarvenjum er orðið mun aðgengilegra en áður og því auðveldara fyrir einstaklinga að afla sér upplýsinga. Lesa meira “Hafa íþróttir góð áhrif á líðan unglinga?”

Upplifa ungar stúlkur í fótbolta kynjamisrétti?

Árið 2000  var ég fótboltamamma stúlku sem æfði íþróttina ásamt vinkonum sínum í íþróttafélagi í Reykjavík. Þessar stelpur elskuðu að spila fótbolta, þær lögðu sig allar fram og æfðu mikið. Þjálfarinn þeirra lagði sitt af mörkum til að styðja stelpurnar, enda sá hann að áhuginn og dugnaðurinn var til staðar.

Allt  var fyrir hendi nema aðstaða fyrir stelpurnar. Þarna  var góður keppnisvöllur, æfingavöllur og aukavöllur en stundum var ekki pláss fyrir þær. Þegar þær mættu á æfingu þá voru strákarnir stundum fyrir á vellinum þar sem þær áttu að æfa og einu sinni enduðu þær á róló.  Foreldrar og þjálfarar kvörtuðu ítrekað en allt kom fyrir ekki. Skýringin var aðstöðu- og plássleysi en strákarnir voru alltaf látnir ganga fyrir. Endirinn varð sá að stelpurnar hættu í fótboltanum og fóru að æfa handbolta sem var viðurkennd stelpuíþrótt en fótboltinn var álitinn jaðaríþrótt fyrir stelpur á þessum tíma.

Svo liðu árin og núna árið 2018 langaði mig til að athuga hvort að þetta væri ekki allt breytt enda eigum við glæsilegt landslið í kvennafótbolta jafnvel á heimsmælikvarða. Ég byrjaði á að skoða hvort að jafnréttisstefna væri fyrir hendi hjá helstu íþróttafélögunum í Reykjavík og sá að hún er til hjá flestum, ef ekki öllum.

Þá hafði ég samband við tvær íþróttamömmur fótboltastelpna á unglingsaldri sem æfa fótbolta í dag til að heyra hvað þær hefðu að segja. Önnur sagði að það væri svo augljóst misréttið á milli stráka og stelpna í fótbolta að stelpan hefði sjálf tekið eftir því þegar hún var í fimmta bekk og haft orð á því. Mamman sagði mér að í þessu íþróttafélagi þar sem dóttir hennar æfði kæmi misréttið fram í því að þær fengju ekki sömu þjálfun og strákarnir. Með þessu misrétti fengju þær þau skilaboð að það væri minna virði að vera stelpa en strákur þegar fólk æfði fótbolta.

Hin fótboltamamman kom með þær ábendingar að aðstöðuleysið væri frekar fyrir hendi hjá stelpunum en strákunum. Stelpurnar væru látnar gefa bestu vellina eftir til strákanna. Þetta koma alveg heim og saman við mína upplifun á árunum áður enda er þetta sama íþróttafélagið sem á þarna í hlut. Hún sagði jafnframt að þjálfararnir og þjálfunin væri í góðu lagi hjá stelpunum í þessu íþróttafélagi.

Í grein Guðmundar Sæmundssonar frá árinu 2012, Svo sæt og brosmild…. segir svo: „Sú mynd sem íþróttahreyfingar Vesturlanda hafa leitast við að draga upp af sjálfum sér er afar karllæg og gerir sjaldan ráð fyrir konum“(Guðmundur Sæmundsson, 2012).

Í samtali mínu við fótboltamömmurnar tókum við þetta atriði fyrir og töldu þær að þessi staðhæfing væri rétt og það tengdist því að það væru miklir peningar í karlafótbolanum. Þetta væri hrein hagsmunabarátta á milli kynjanna. Annað atriði bentu þær líka á og það er að það vantar konur í stjórnir og ráð íþróttahreyfinganna.

Þessi litla könnun mín gefur vísbendingu um að það sé enn kynjamisrétti í fótbolta sem ungu stúlkurnar upplifa, þrátt fyrir jafnréttisstefnu íþróttafélaganna.

Greinilega er mikil þörf á að kanna þetta mál nánar og gera alvöru rannsókn á þessu málefni. Síðan þarf að vinna markvisst út frá þeim niðurstöðum sem rannsóknin mun leiða í ljós, unga íþróttafólkinu okkar til hagsbóta um komandi framtíð.

 

Guðrún Barbara Tryggvadóttir

 

Heimild

Guðmundur Sæmundsson. (2012). Svo sæt og brosmild….: Umfjöllun í blöðum og tímaritum um íslenskar afreksíþróttakonur á alþjóðavettvangi. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/greinar/2012/ryn/008.pdf

Þeir hörðustu lifa af

Flestir eru á þeirri skoðun að það sé öllum hollt og gott að stunda íþróttir. Það að æfa íþróttir getur styrkt bæði andlega og líkamlega líðan auk þess að geta ýtt undir góð félagsleg tengsl einstaklinga. Yfirleitt byrja krakkar ungir að æfa og velja sér þá íþrótt sem þeir hafa mestan áhuga á en seinna, þegar þeir eru orðnir eldri, fer metnaðurinn og viljinn til að skara fram úr oft að vaxa. Oft byrja krakkar að æfa hópíþróttir eins og t.d. handbolta og fótbolta á sama tíma og þau byrja í 6 ára bekk. Það er mikið fjör og mikið um leiki. Félagsstarfið er einnig mjög öflugt á þessum tíma og mikið gert í því að blanda hópnum saman. Lesa meira “Þeir hörðustu lifa af”