Brottfall unglinga í skipulögðum íþróttum

Regluleg hreyfing barna og unglinga er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan. Samfélagið okkar í dag virðist vera að draga úr daglegri hreyfingu og kyrrseta ungmenna orðin algengari en áður. Hreyfing ungmenna getur dregið úr andlegum og líkamlegu sjúkdómum, svo sem kvíða og þunglyndi. Einnig eru ungmenni sem stunda íþróttir að sýna fram á betri sjálfsmynd og eru mun ólíklegri til að neyta vímuefna.

Flest byrjum við ung að æfa íþróttir og veljum þá íþrótt sem við höfum áhuga á og leggjum allt okkar fram í þessa íþrótt. Þegar krakkar byrja í unglingadeild og fyrsta ári í menntaskóla getur forgangsröðun þeirra í lífinu breyst. Það verður meira að gera í félagslífinu og námið verður þyngra. Það að stunda íþróttir tekur mikinn tíma frá manni. Það eru langar og margar æfingar, keppnir, hópefli og allar þessar fjáraflanir og öll vinnan sem því fylgir að stunda íþróttir. Unglingarnir eru einnig í námi eða vinnu og þá er oft lítill sem enginn tími til að sinna félagslífinu eða öðrum tómstundum. Einnig þekki ég til margra unglinga sem eru í fleiri en einni íþrótt. Það getur verið stressvaldandi að púsla deginum saman. Á unglingsárunum kemur að því að þau þurfi að velja og hafna og oft á tíðum er það íþróttin sem verður undir.

Það er mikið um brottfall í íþróttum á unglingsárunum, 13- 20 ára. Aðal ástæður þess er að íþróttin er ekki að veita þeim eins mikla ánægju og áður fyrr, minni áhugi, lítill metnaður eða lítil hvatning frá þjálfara og foreldrum. Einnig getur margt annað haft áhrif á brottfall. Of mikið álag getur farið að valda kvíða eða helsta ástæðan sem er meiðsli. Í íþróttum er lögð mikil áhersla á æfingar með keppni og afreksmiðuð markmið, sem er smá einhæft ef fólk vill stunda þessa íþrótt fyrir heilsuna og sér til skemmtunar. Því lengra sem þú kemst áfram í íþróttinni sem þú æfir því meiri kröfur eru á fleiri æfingar sem er ein af ástæðum fyrir brottfalli í íþróttum. Einnig hefur þjálfari mikil áhrif. Hann þarf að vera hvetjandi svo krakkar dragist ekki aftur úr. Smá hvatning getur hjálpað manni að ná lengra og sýna meiri metnað. Þá er spurningin líka sú hvað gera krakkar sem hætta í skipulögðu íþróttastarfi? Margir halda áfram að stunda íþróttir utan íþróttafélaganna, á meðan sumir mögulega hætta að hreyfa sig eins og þeir gerðu áður því þeir kunna það ekki utan skipulagðra íþrótta.

Ég þekki þetta af eigin reynslu þar sem ég stundaði fimleika af miklum krafti. Ég æfði fimm sinnum í viku, þrjá tíma í senn. Ég vaknaði, fór í skólann og svo þegar hann var búinn kom ég heim og kláraði að sinna náminu. Eftir það fór ég beint á æfingu sem var stundum langt fram á kvöld. Það olli því að ég drógst aftur úr í félagslífinu þar sem flestar mínar vinkonur voru hættar í íþróttum. Þar sem ég æfði mikið náði ég ekki að sinna félagslífinu eins mikið og ég vildi, gat ekki tekið þátt í eins mörgum viðburðum sem skólinn bauð upp á og margt fleira.  Fjórtán ára ákvað ég að hætta að æfa og fór þá að vera virkari í félagslífinu bæði innan sem utan skóla. Ég sótti í allskonar nefndir sem skólinn bauð upp á og ég sé ekki eftir þessu í dag. En ég byrjaði svo aftur að æfa um 16 ára aldur, en þá var ég þarna upp á hreyfingu og útaf því að ég fékk áhugann aftur eftir smá pásu.

Það er mikilvægt að við hvetjum ungmennin okkar áfram í íþróttum og ef brottfall á sér stað að hvetja þau samt sem áður að viðhalda reglulegri hreyfingu.

Aldís Þorvaldsdóttir