Þeir hörðustu lifa af

Flestir eru á þeirri skoðun að það sé öllum hollt og gott að stunda íþróttir. Það að æfa íþróttir getur styrkt bæði andlega og líkamlega líðan auk þess að geta ýtt undir góð félagsleg tengsl einstaklinga. Yfirleitt byrja krakkar ungir að æfa og velja sér þá íþrótt sem þeir hafa mestan áhuga á en seinna, þegar þeir eru orðnir eldri, fer metnaðurinn og viljinn til að skara fram úr oft að vaxa. Oft byrja krakkar að æfa hópíþróttir eins og t.d. handbolta og fótbolta á sama tíma og þau byrja í 6 ára bekk. Það er mikið fjör og mikið um leiki. Félagsstarfið er einnig mjög öflugt á þessum tíma og mikið gert í því að blanda hópnum saman.

Þegar börnin verða eldri og metnaðurinn meiri sést oft hverjir hafa brennandi áhuga á íþróttinni og hverjir eru meira í fjörinu. Það að hafa brennandi áhuga og metnað dugar þó ekki alltaf til fyrir alla til að ná þangað sem þeir ætla. Einmitt á þessum tímapunkti fer heimurinn að harðna!

Að vera í A-liðum í íþróttum, eins og handbolta og fótbolta, er það sem flesta dreymir um þegar þeir eru komnir langt í íþróttinni og ætla sér að halda áfram.  Þessi skipting byrjar ótrúlega snemma og á að sjálfsögðu rétt á sér upp að vissu marki. Það sem brennur heitast á mér hvað þetta varðar er andlega hliðin. Oft eru krakkar með lítið sjálfstraust en mikla getu og mikinn áhuga settir neðar í þessari skiptingu og fá ekki eins mikið hrós eða hvatningu og þeir þurfa. Þessi skipting getur þannig dregið úr því að getumiklir og áhugasamir einstaklingar þroskist og dafni, svo þeim líði vel í íþróttinni og haldi áfram að æfa.

Það eru oft mun fleiri tækifæri fyrir þau ungmenni sem eru í A-liðum heldur en í B- eða C-liðum. Þeir sem hafa sterkustu framkomuna eru oft valdir umfram hina hæglátari, þeir einstaklingar þurfa að vera með þykkan skráp og geta tekið gagnrýni án þess að brotna eða taka hana inná sig. Á þessum tímapunkti eru þeir sem taka allt inná sig og brotna oftar, mun líklegri til að vera settir neðar í skiptingunni og fá ekki eins mikið af tækifærum. Einmitt í þeim sporum getur myndast vítahringur þar sem erfitt getur verið að byggja upp sjálfstraust á sama tíma og það er að brotna niður.

Ég þekki þetta svolítið af eigin reynslu þar sem ég var í handbolta og fékk ekki alltaf að blómstra. Ég var frekar hlédræg og lét ekki mest á mér bera, eins og margar aðrar stelpur sem voru háværari. Ég var auka manneskja í A-liðinu og sinnti æfingum vel og af áhuga. Ég var samt sem áður oftast sett í B-liðið og það hafði mikil áhrif á mig félagslega þar sem flestar vinkonur mínar og bekkjarsystur voru í A-liðinu. Ég var alls ekki að standa mig illa en tækifærin komu fyrr til þeirra sem voru meira áberandi og á endanum missti ég áhugann og hætti þar sem hvatinn til að halda áfram var lítill. Það fylgir því oft ákveðinn kvíðahnútur þegar kemur að því að fara á mót hjá ungmennum vegna þess að þú gætir lent í B-liðinu á meðan vinir þínir gætu verið í A-liðinu.

Það virðist þannig oft vera að ungmennin með háværustu raddirnar og besta sjálfstraustið komist lengst og fái mun meiri hvatningu heldur en þau ungmenni sem eru ekki eins mikið út á við og eru óöruggari með sig. Þau ungmenni sem eru óöruggari með sig lenda hinsvegar oft í því að fá ekki eins mikið hrós og verða þar af leiðandi áfram með minna sjálfstraust. Sjálfstraust er mjög mikilvægur partur af velgengni í íþróttum og hefur mikið að segja um það hvort þú lifir af eða ekki.

Hildur Björk Kvaran, nemi í Uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands